NÝR landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum í gærdag að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri garðamiðstöð Gróðurvara ehf., verslunar Sölufélags garðyrkjumanna, sem staðsett verður að Stekkjarbakka 4-6 við norðurenda Mjóddarinnar í Reykjavík.
Skóflustunga tekin að nýrri garðamiðstöð

Allt sem tengist garðyrkju á einum stað

NÝR landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum í gærdag að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri garðamiðstöð Gróðurvara ehf., verslunar Sölufélags garðyrkjumanna, sem staðsett verður að Stekkjarbakka 4-6 við norðurenda Mjóddarinnar í Reykjavík.

Garðamiðstöðinni, sem gerð er að evrópskri fyrirmynd, er ætlað að gefa fólki kost á að versla á einum stað allt sem tengist gróðurrækt og garðyrkju. Lögð verður áhersla á það sérstaka andrúmsloft sem tengist gróðri í notalegu umhverfi.

Stefnt er að því að miðstöðin verði opnuð fyrir árslok. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 2.580 fm undir verslunarhúsnæði og vörugeymslu og 880 fm undir heildsölu. Að auki verður 450 fm plasthús fyrir sumarblómasölu og stórt útisvæði með yfirbyggðum gönguleiðum.

Arkitekt er Ólafur Sigurðsson hjá Arkþingi en landslagsarkitekt er Gunnar Gunnarsson. Malcolm Scott Consultants Ltd. veita sérhæfða ráðgjöf og hönnun á útiathafnasvæðum ásamt innanhússkipulagi.Morgunblaðið/Árni Sæberg NÝR landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, tekur fyrstu skóflustunguna að nýrri garðamiðstöð.