STRÍÐSGLÆPADÓMSTÓLL Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út formlega ákæru á hendur Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseta. Er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem sitjandi þjóðhöfðingi er ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.
MILOSEVIC ÁKÆRÐUR STRÍÐSGLÆPADÓMSTÓLL Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út formlega ákæru á hendur Slobodan Milosevic Júgóslavíuforseta. Er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem sitjandi þjóðhöfðingi er ákærður fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu.

Segir Louise Arbour, aðalsaksóknari dómstólsins, að fyrir liggi sannanir um að Milosevic og samstarfsmenn hans beri ábyrgð á því að 740 þúsund Kosovo-Albanir hafi verið hraktir frá heimkynnum sínum auk þess að bera ábyrgð á 340 morðum. Tók hún fram að ekki væri einungis um að ræða ábyrgð er rekja mætti til stöðu viðkomandi, heldur gengi ákæran út frá því að hinir ákærðu bæru persónulega ábyrgð á ódæðisverkunum.

Þessar ákærur koma fæstum á óvart. Ódæðisverkin er framin hafa verið í Kosovo eiga sér fáar hliðstæður í sögu þessarar aldar. Helst er hægt að bera þau saman við hryllingsverk Stalíns, Hitlers og Pol Pots. Hafi dómstóllinn undir höndum óyggjandi sannanir ber honum skylda til að leggja fram ákærur.

Það er svo annað mál að ákæran á hendur Milosevic verður varla til að auðvelda samninga til að binda enda á átökin í Kosovo. Dómstóllinn er óháður og tekur ekki tillit til þeirra pólitísku afleiðinga er ákvarðanir hans kunna að hafa. Vart verður hjá því komist að halda áfram viðræðum við Milosevic. Á meðan hann gegnir embætti forseta Júgóslavíu er hann eini raunhæfi samningsaðili Vesturlanda. Verið getur að draga muni úr samningsvilja Milosevics þar sem honum hlýtur nú að vera ljóst að hann verði látinn svara til saka þegar ófriðnum linnir og að hann mun ekki getað samið um sakaruppgjöf sér til handa. Að sama skapi styrkir ákæran einnig þá í sessi er vilja engar tilslakanir gagnvart Milosevic og telja að ekki beri að hvika frá þeim skilyrðum er NATO setti í upphafi árásanna. Fyrst og fremst er ákæran hins vegar viðvörun til harðstjóra um allan heim. Þeir eru persónulega ábyrgir fyrir myrkraverkum er framin eru í skjóli þeirra.

EINKAVÆÐING

RÍKISSTJÓRNIN setti sér það markmið fyrir fjórum árum, í upphafi kjörtímabilsins, að ganga til verka með skipulögðum hætti við að breyta rekstrarformi nokkurra ríkisfyrirtækja, auka sjálfstæði þeirra á markaði og selja hlutafé ríkisins öðrum. Þessum markmiðum náði ríkisstjórnin, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands var breytt í hlutafélög og nýtt hlutafé selt á markaði. Pósti og síma var skipt í Landssíma Íslands hf. og Íslandspóst hf. og samkeppni var innleidd á fjarskiptamarkaði. Nýrri stofnun, Póst- og fjarskiptaeftirliti, var komið á fót. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var stofnaður og hlutabréf í honum seld. Rekstrarformi Íslenzkra aðalverktaka sf. var breytt í hlutafélag og ríkið seldi að hluta til eða öllu leyti hlutabréf sín í stórum fyrirtækjum, m.a. Íslenzka járnblendifélaginu hf. og Áburðarverksmiðjunni hf.

Samtals námu sölutekjur ríkisins tæplega 8 milljörðum króna á kjörtímabilinu og var seldur hlutur úr samtals 9 fyrirtækjum. Eignaraðilar að þessum almenningshlutafélögum skipta tugþúsundum. Með einkavæðingunni hefur ríkisstjórnin eflt mjög þann hlutabréfamarkað, sem hér hefur verið að mótast, og gert þátttöku almennings í atvinnulífinu að veruleika.

Þetta er hins vegar einungis fyrsta skrefið í átt til þeirrar einkavæðingar, sem er seinna á ferðinni hér en í mörgum öðrum löndum. Ný ríkisstjórn hefur á stefnuskrá sinni að halda áfram sölu ríkisbankanna og undirbúa sölu Landssíma Íslands hf. Af einhverjum ástæðum virðist þó gæta tregðu í sambandi við sölu Landssímans hjá Framsóknarflokknum. Ætla verður þó að af þeirri sölu verði á kjörtímabilinu og má þá gera ráð fyrir að ríkissjóður fái í sölutekjur tugi milljarða króna.

Það er hins vegar alvarlegt umhugsunarefni í tengslum við einkavæðingu hvernig hægt er að koma í veg fyrir að hver eignin á fætur annarri lendi í fárra höndum og þá í vaxandi mæli sömu aðila í þjóðfélaginu.