Leikstjóri: Manuel Poirier. Handrit: Poirier og Jean ­ Francois Goyet. Aðalhlutverk: Sergei López, Sacha Bourdo, Elisabeth Vitali, Marie Matheron. Frakkland 1997. FRANSKA myndin Vestri eða "Western" er yndisleg lítil kómedía og vegamynd um tvo puttaferðalanga og vini á ferð um norðvesturhéruð Frakklands.

SÁLUFÉLAGAR Í

LEIT AÐ ÁSTINNI KVIKMYNDIR Regnboginn Vorvindar ­ Kvikmyndahátíð Háskólabíós og Regnbogans VESTRI "WESTERN" Leikstjóri: Manuel Poirier. Handrit: Poirier og Jean ­ Francois Goyet. Aðalhlutverk: Sergei López, Sacha Bourdo, Elisabeth Vitali, Marie Matheron. Frakkland 1997. FRANSKA myndin Vestri eða "Western" er yndisleg lítil kómedía og vegamynd um tvo puttaferðalanga og vini á ferð um norðvesturhéruð Frakklands. Annar, Paco, er nýrekinn skósölumaður frá Katalóníu en hinn, Nino, er aumingjalegt flækingsgrey, ættaður frá Rússlandi. Fundum þeirra ber þannig saman að Nino rænir bifreið Pacos svo Paco missir vinnuna en hefur af tilviljun upp á Nino og lemur hann í klessu. Vinskapur þeirra hefst á sjúkrahúsinu þegar Paco heimsækir Nino að vita hvernig hann hefur það. Þeir eru báðir einstaklega skemmtilegir ferðafélagar þótt gjörólíkir séu og vináttusambandið sem þróast á milli þeirra er bæði ljúfsárt og fallegt. Paco hefur allt til að bera til að vera vinsæll kvennamaður, myndarlegur, samræðugóður og heillandi. Nino er ekkert af þessu, flækingur sem sefur í pappakössum og "kannski einu sinni, tvisvar á ári á farfuglaheimili", ræfilslegur mjög til fara og næstum mösulbeina og uppstökkur með víni þegar kvenfólkið veitir vini hans alla athyglina en lífskúnstner og heimspekingur inn við beinið. Saman gera Paco og Nino þessa frönsku mynd að sérlega ánægjulegri skemmtun. Flækingur þeirra um Frakkland, kvennafar og samræður allar eru bæði launkómískar en einnig alvarlegar og hið raunsæja yfirbragð, sem leikstjóranum Manuel Poirier tekst að skapa, eykur mjög á vigt hennar; það er sjaldnast sem maður verður var við að verið er að kvikmynda líf þessa fólks. Hvergi feilpúst að finna í leiknum hvort sem í hlut eiga Sergi Lopez í hlutverki Pacos eða Sacha Bourdo í hlutverki Ninos eða kvenfólkið allt sem á vegi þeirra verður. Þetta er hjartastyrkjandi mynd um sanna vináttu manna sem báðir eru útlendingar í Frakklandi og leita undir niðri leiða út úr flækingi sínum, sálufélagar í leit að ástinni. Vestri er alltof sjaldgæft fyrirbrigði í bíó hér, nefnilega óvæntur glaðningur. Arnaldur Indriðason