FYRIR rétt rúmlega ári fóru fram kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur. R-listinn hélt þar meirhluta sínum þrátt fyrir að tveir frambjóðendur á framboðslista R- listans hefðu verið í kastljósi fjölmiðla vegna fjármálaóreiðu og skattamála. En það sem var óvenjulegt við þessar kosningar var að tæplega átta þúsund kjósendur R- lista strikuðu yfir nafn Hrannars B. Arnarsonar.
Meirihluti Reykvíkinga

Frá Steinþóri Jónssyni:

FYRIR rétt rúmlega ári fóru fram kosningar til borgarstjórnar Reykjavíkur. R-listinn hélt þar meirhluta sínum þrátt fyrir að tveir frambjóðendur á framboðslista R- listans hefðu verið í kastljósi fjölmiðla vegna fjármálaóreiðu og skattamála. En það sem var óvenjulegt við þessar kosningar var að tæplega átta þúsund kjósendur R- lista strikuðu yfir nafn Hrannars B. Arnarsonar. Sjaldan eða aldrei hafa kjósendur látið svo skýrt í ljós að einn ákveðinn frambjóðandi ætti ekki erindi uppá dekk stjórnmálanna. Má með sanni segja að Hrannari B. Arnarsyni hafi verið gjörsamlega hafnað af kjósendum. Í kjölfar kosninganna lýsti Hrannar B. Arnarson því yfir að hann myndi ekki taka sæti í borgarstjórn á meðan mál hans væru til meðferðar skattayfirvalda. 7.672 kjósendur strikuðu yfir nafn Hrannars eða u.þ.b 22,4 % af þeim 34.251 atkvæðum sem R-listanum voru greidd. Klárlega vildu þeir 28.932 kjósendur sem greiddu D-lista sjálfstæðismanna ekkert með Hrannar eða R-listann að gera og má því með sanni segja að 36.604 kjósendur hafi hafnað Hrannari. Eru það u.þ.b 58% af þeim sem greiddu atkvæði í kosningunum sl. vor. Af framangreindu má vera ljóst að meirihluti Reykvíkinga telur að Hrannar B. Arnarson eigi ekkert erindi í borgarstjórn Reykjavíkur.

Meðferð skattayfirvalda

Núna á vordögum kom úrskurður ríkisskattstjóra um málefni Hrannars B. Arnarsonar. Ekki taldi embættið að senda bæri mál Hrannars til ríkissaksóknara til meðferðar. Sjálfsagt hefur það verið léttir fyrir Hrannar persónulega að vera ekki kærður af embætti ríkissaksóknara. En máli hans var skotið til úrskurðar yfirskattanefndar. Þar er búist við því að því ljúki með sektum. Nú er ég ekki lögfróður maður en það að málinu muni ljúka með sektum segir mér að umræddur aðili hafi gerst brotlegur og sektargreiðsla sé sú refsing sem viðkomandi muni líklega hljóta. Þannig að Hrannar B. Arnarson hefur í raun ekki verið hreinsaður af því sem á hann var borið heldur má segja að staðfest hafi verið að framferði hans hafi verið ólögmætt og að kjósendur hafi gert rétt í því að hafna honum. Þrátt fyrir það lýsti Hrannar B. Arnarson því yfir að hann hygðist brátt taka sæti sitt í borgarstjórn Reykjavíkur líkt og kjósendur hefðu kosið hann til.

STEINÞÓR JÓNSSON,

Hléskógum 18, Reykjavík.