KÓR Karlsháskóla í Prag hefur boðið Hamrahlíðarkórnum í heimsókn til Tékklands og heldur kórinn utan mánudaginn 31. maí. Kórinn mun koma fram á fernum tónleikum, m.a. hátíðartónleikum í viðhafnarsal Karlsháskóla, og syngja auk þess við tvær messur. Af þessu tilefni verður Hamrahlíðarkórsins með styrktartónleika í Háteigskirkju í dag og hefjast þeir kl. 16.00.
Hamrahlíðarkórinn til Tékklands

KÓR Karlsháskóla í Prag hefur boðið Hamrahlíðarkórnum í heimsókn til Tékklands og heldur kórinn utan mánudaginn 31. maí. Kórinn mun koma fram á fernum tónleikum, m.a. hátíðartónleikum í viðhafnarsal Karlsháskóla, og syngja auk þess við tvær messur. Af þessu tilefni verður Hamrahlíðarkórsins með styrktartónleika í Háteigskirkju í dag og hefjast þeir kl. 16.00.

Tónleikar Hamrahlíðarkórsins verða í Prag og borginni Hradec Králové í nágrenni Prag. Verkefnaskráin verður alíslensk, en að sögn Þorgerðar Ingólfsdóttur, stjórnanda kórsins, er þessa stundina unnið að því úti að þýða dagskrána á tékknesku. Á verkefnaskrá er m.a. Íslenskt rapp eftir Atla Heimi Sveinsson sem verður frumflutt á tónleikum kórsins í Háteigskirkju í dag.

"Íslenskt rapp," segir Þorgerður, "er ótrúlega spennandi verk. Við höfum í okkar röðum mjög duglegan básúnuleikara sem er að ljúka einleikaraprófi úr Tónlistarskólanum í Reykjavík. En verkið er samið fyrir kórinn, með hann í huga, og er samleikur kórsins og básúnunnar." Að sögn Þorgerðar hefur Atli hagað verkinu þannig að í Tékklandi mun kórinn fara með ákveðinn hluta textans á tékknesku. "Við erum því búin að vera að bjástra við tékkneskuna undanfarið," segir hún.

Tékklandsferðina segir Þorgerður til komna vegna starfs kórsins á alþjóðavettvangi. "Kór Karlsháskólans hefur í gegnum tíðina sýnt okkur mikinn áhuga og aðdáun, en það var svo fyrir um fimm árum að þeir komu formlega til okkar eftir tónleika á Europa cantat og buðu okkur til Prag. Síðan er þetta búið að liggja í loftinu, en ferðin hefur ekki verið farin fyrr en nú," bætir hún við.

Að sögn Þorgerðar leggst ferðin prýðisvel í hana. "Þetta eru mjög duglegir krakkar og það hefur verið töluverð vinna að fullæfa dagskrána á sama tíma og þeir sem eru í skóla hafa verið í prófum."