Á ÆVIDÖGUM Flóka var hann meðal kunnustu manna, bæði fyrir list sína og einkalíf sem mönnum varð tíðrætt um. Myndir hans þóttu með afbrigðum djarflegar, jafnvel "klúrar". Hann var ósmeykur við að kalla sjálfan sig séní og margir karlar öfunduðu hann af kvenhylli því af einu viðtali af mörgum mátti skilja að hann byggi í sátt og samlyndi við tvær konur.
Einstigi

listarinnar

Á ÆVIDÖGUM Flóka var hann meðal kunnustu manna, bæði fyrir list sína og einkalíf sem mönnum varð tíðrætt um. Myndir hans þóttu með afbrigðum djarflegar, jafnvel "klúrar". Hann var ósmeykur við að kalla sjálfan sig séní og margir karlar öfunduðu hann af kvenhylli því af einu viðtali af mörgum mátti skilja að hann byggi í sátt og samlyndi við tvær konur. Bækur komu út um hann, sýningar hans vöktu mikla athygli og að honum látnum var gefin út bók um hann. Ummæli hans um sjálfan sig og aðra settu lit á listalífið. Hann skar sig alls staðar úr. Nú er þögnin algengust um nafn hans.

Flóka líkaði ekki þögnin. Sum ummæli hans voru beinlínis sett fram til að rjúfa hana. Og áhugaleysi sumra gagnrýnenda á list hans særði hann. Flóki tók þessu þó öllu karlmannlega og talaði um ofursmáa heila þeirra sem meta listaverk.

Talsverður hluti listaverka Flóka er nú fyrir milligöngu réttsýnna manna í eigu Kjarvalsstaða, einnig ýmis persónuleg gögn hans, skissur og bréf. Vel fer á því að Listasafn Reykjavíkur varðveiti sem mest af verkum Flóka og það sem tengist lífi hans.

Myndir Flóka eru unnar í ákveðinni hefð sem kenna má við expressjónisma, súrrealisma, táknmyndastefnu. Algengastar eru blekteikningar og stórar krítarmyndir. Ég hygg að súrrealisminn sé ríkastur í myndunum. Áhugi hans á frumkristni, fjölkynngi og á margvíslegum sviðum lostans mótaði hann, ekki síst á lokatímabili ferilsins. Hann las alltaf mikið og bókmenntir eru oft kveikja verkanna. Þetta á hann sameiginlegt með ýmsum meisturum liðins tíma: sjálfum D¨urer, Goya, Bretanum Aubrey Beardsley, James Ensor, Alfred Kubin, belgísku bræðrunum Magritte og Delvaux, Salvador Dalí.

Meðal fremstu lærimeistara eru líka skáld, enda held ég að Flóki hefði ekki síður unað sér í hlutverki skáldsins en listamannsins. Þegar honum lá hvað mest á hjarta var honum tamt að grípa til bókar, einkum til ljóða symbólista og þeirra sem með sérstæðum hætti sameinuðu symbólisma og rómantísku. Oft var Charles Baudelaire á vörum.

Vel má kalla Flóka "bókmenntalegan" listamann en þá má ekki gleyma að listin er í fyrirrúmi, síðan kemur frásögnin sem oftast er þannig að ráða verður í hana. Menn túlka list hver með sínum hætti.

Það verður að harma að Flóki fékk ekki nógu mörg verk á sviði bókaskreytinga, en meðal þess sem hann myndlýsti er Bjólfskviða. Einnig birtust oft eftir hann teikningar, m. a. í Lesbók Morgunblaðsins, sumar gerðar með miklum ágætum.

Bókin Alfreð Flóki ­ Teikningar, með inngangsorðum eftir Jóhann Hjálmarsson, kom út 1963. Furðuveröld Alfreðs Flóka eftir Aðalstein Ingólfsson, með íslenskum og enskum texta, kom út 1986 (Útgefandi Bókaútgáfan hf.). Kafli er um Flóka í bókinni Íslensk list (Skuggahrafn og vísdómsugla) 1981 (Útg. Bókaútgáfan Hildur). Ævintýrabókin um Alfreð Flóka eftir Nínu Björk Árnadóttur kom svo að honum látnum 1992 (Útgefandi Forlagið).

Alfreð Flóki Nielsen fæddist í Reykjavík 19. desember 1938 og ólst þar upp, sonur hjónanna Alfreðs Nielsens og Guðrúnar Guðmundsdóttur Nielsen. Hann vakti snemma athygli fyrir teiknihæfileika sína og kom Jóhann Briem, listmálari og kennari hans í gagnfræðaskóla, strax auga á yfirburði hans. Flóki nam í Myndlista- og handíðaskólanum 1954-1957 þar sem aðalkennari hans var Sigurður Sigurðsson. Síðan tók við nám í Listaakademíunni dönsku í Kaupmannahöfn 1958-1962 hjá Søren Hjorth-Nielsen, en í Kaupmannahöfn bjó hann lengi og starfaði að list sinni. Hann kvæntist danskri konu, Annette Bauder Jensen. Þau skildu. Sonur þeirrra er Axel Darri Flókason, fæddur 4. júlí 1964, búsettur í Danmörku. Flóki lést 18. júní 1987.

Hér heima sýndi Flóki oftast í Bogasal Þjóðminjasafnsins, fyrst 1959, og í Listmunahúsinu í Reykjavík. Erlendis sýndi hann víða, m. a. í Kaupmannahöfn og New York og tók þátt í fjölda samsýninga. Má nefna Surrealisterne í Charlottenborg 1970 og World Surrealist Exhibition í Chicago 1976.

Undir það má taka með Aðalsteini Ingólfssyni að ákvörðun ungs reykvísks listamanns um miðjan sjötta áratug að "afneita listasögunni" eigi sér enga hliðstæðu í íslenskri listasögu, segja skilið við stefnur og strauma tuttugustu aldar og skapa sér eigin myndveröld. Flóki valdi vissulega einstigi á tímum þegar afstraktlist var nær einráð. Að því má þó huga að Dalí, Magritte, Delvaux, Erró og ýmsir fleiri, til dæmis hópur ungra austurrískra súrrealista, höfðu valið líka leið en Flóki jós af enn eldri brunnum þrátt fyrir ungan aldur.

Nú verður tæpast um þetta spurt og allra síst deilt því að dæmum um skylda afneitun hefur fjölgað. Fleira má nú en áður!

Jóhann Hjálmarsson.

ALFREð Flóki. Myndin er tekin á sýningu listamannsins.