AÐ minnsta kosti fjórir létu lífið og 67 slösuðust þegar mikill eldur kom upp í Tauern-veggöngunum í austurrísku Ölpunum snemma í gærmorgun. Síðdegis í gær var enn ekki fyllilega ljóst hvort einhverra væri enn saknað, en björgunarstarf hafði gengið erfiðlega vegna reyks í göngunum, og gífurlegur hiti í þeim hafði valdið því að þak þeirra hafði hrunið á kafla.

Eldur í veggöngum

Vín, Neuchatel í Sviss. AP, Reuters.

AÐ minnsta kosti fjórir létu lífið og 67 slösuðust þegar mikill eldur kom upp í Tauern-veggöngunum í austurrísku Ölpunum snemma í gærmorgun. Síðdegis í gær var enn ekki fyllilega ljóst hvort einhverra væri enn saknað, en björgunarstarf hafði gengið erfiðlega vegna reyks í göngunum, og gífurlegur hiti í þeim hafði valdið því að þak þeirra hafði hrunið á kafla.

Eldurinn kom upp þegar flutningabíll, hlaðinn málningu, lenti í árekstri við annan bíl, er kom á móti honum, um 600 metrum frá nyrðri munna gangnanna, sem eru 6,4 km löng. Kviknaði samstundis í flutningabílnum, og urðu sprengingar í kjölfarið. Talið er að alls hafi um 50 bílar lent í slysinu. Göngin eru á hraðbraut E55, helstu tengiæðinni milli Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu og Balkanskaga.

Um hádegisbil í gær var haft eftir björgunarmönnum að fjórir hefðu ekki komist lífs af úr göngunum, og hafði lík eins þeirra fundist. Af þeim er slösuðust var 31 fluttur á sjúkrahús. Talið er að þetta sé versta slys sem orðið hefur í veggöngum síðan 41 fórst í eldsvoða er varð í Mont Blanc göngunum í mars.

Í gær lokuðu svissnesk yfirvöld veggöngum þar í landi í kjölfar þess að rannsóknir leiddu í ljós að göngin gætu breyst í dauðagildrur ef eldur brytist út í þeim.