Jóhanna Kristjánsdóttir Elsku mamma mín. Takk fyrir mig og börnin mín. Án þín værum við ekki þau sem við erum í dag. Ég er og verð alltaf svo stolt af þér sem móður og þeirri yndislegu manneskju sem þú varst. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur, hvar og hvenær sem var og miðlaðir af þínum góðu kostum sem voru t.d. ósérhlífni og dugnaður, stór kímnigáfa, lítillæti og síðast en ekki síst umhyggja fyrir okkur öllum. Það er svo gott að geta átt mömmu sem er vinkona manns í leiðinni og ber virðingu fyrir því sem maður tekur sér fyrir hendur og lætur sér þykja vænt um þá sem manni þykir vænt um. Þannig var það með allan minn vinahóp. Við vorum alltaf velkomin inn á heimili ykkar pabba og eigum margar góðar minningar þaðan. Við njótum enn í dag margs af því sem þú sagðir okkur og ráðlagðir.

Það var unun að ferðast með þér. Ég veit ekki um neinn sem hefur notið þess eins vel og þú, jafnvel lítill bíltúr jafnaðist á við bestu skemmtiferð. Ég á svo yndislegar minningar úr þeim ferðum sem við fórum tvær saman í. Þó ber hæst Vestfjarðaferðina með VR. Þar gengum við um æskuslóðir þínar á Ísafirði og þú sýndir mér ýmislegt og sagðir mér frá fólkinu sem bjó í húsunum í gamla daga. Það var líka rosalega gaman hjá okkur í London og Kaupmannahöfn og ekki má gleyma krataferðunum sívinsælu. Það voru sko nokkur flissköstin tekin þá eins og svo oft, því húmorinn sem þú hafðir var óborganlegur. Það var allt svo fyndið og skemmtilegt, þú áttir svo auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á sjálfri þér og öllu í kringum þig. Það var alltaf svo gaman að hlusta á þig og Bíbí systur flissa og alveg fram á síðustu stundu reyndir þú af veikum mætti að flissa með henni. Þessi eiginleiki hjálpaði þér oft yfir erfiðleikana í lífinu.

Elsku mamma, þú ert hetjan mín og barnanna minna, Hönnu Maríu og Daníels. Þau hafa bæði átt þinn stóra faðm að hlaupa í alla sína tíð. Þú áttir stóran þátt í uppeldi þeirra og fyrir það verð ég þér að eilífu þakklát.

Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Þín elskandi

Helga Guðbjörg.