Val Skowronski Lífshlaup Vals Skowronskis var um margt merkilegt, "Val hennar Gunnu frænku" eins og við systkinin kölluðum hann ávallt. Ég man vel sem ungur drengur eftir Val því mér þótti hann afar merkilegur, hann var útlendingur, hafði verið hermaður og var með flott húðflúr á handleggnum sem hann sýndi okkur krökkunum þegar við báðum hann um það. Töluverður samgangur hefur alla tíð verið á milli fjölskyldnanna, en Gunna frænka er uppeldissystir föður míns. Börn Gunnu og Vals, þau Henry, Systa, Sigga, Tekla og Jane, eru öll á svipuðum aldri og við systkinin, svo heimsóknir til Keflavíkur voru ávallt spennandi. Þau systkinin eru enn meðal okkar bestu vina í dag. Val vann uppi á Keflavíkurflugvelli og því var um margt eins og að koma til útlanda að heimsækja Gunnu og Val hér áður fyrr, því þar var oft ýmislegt á boðstólum sem almennt fékkst ekki á Íslandi og átti það sinn þátt í að gera Val markilegri í augum okkar krakkanna. Ég kynntist Val fyrst almennilega sumarið 1975 þegar ég var í sumarvinnu á Keflavíkurflugvelli, þá bjó ég á heimili Gunnu og Vals á Mánagötunni í Keflavík og minnist ég enn þess tíma með þakklæti. Gunna frænka hefur leikið stærra hlutverk í lífi okkar systkinanna en hana grunar, kærleik hennar og hlýju eru engin takmörk sett og Val átti sinn þátt þar í.

Val var hlédrægur og hæglátur maður, hann var lítið gefinn fyrir margmenni, en ef maður settist með honum að spjalla lék hann á als oddi og var skemmtilegur viðræðu. Hann var kaþólskrar trúar og mjög trúrækinn maður. Áhugamál hans voru silungs- og laxveiðar, hann var laginn veiðimaður og hafði mikið yndi af veiðitúrum. Uppáhaldsveiðiferðir hans voru í Strauma í Borgarfirði með Ólafi Finnbogasyni vini sínum og veiðifélaga. Val hafði einnig mikinn áhuga á frímerkja- og myntsöfnun.

Í upphafi herþjónustu sinnar árið 1939 var Val staðsettur í Suður- Ameríkuríkinu Panama, og reyndist það seinna örlagaríkur áhrifavaldur á líf hans. Val veiktist þar af malaríu og var fluttur á sjúkrahús, herdeild hans fór stuttu seinna með skipalest sem var sökkt og fórust þar allir félagar hans, sjúkrahúsvistin bjargaði þannig lífi Vals. Val þoldi illa loftslagið í Panama og hefur malaríuveikin átt sinn þátt í því. Seinna árið 1948 þegar hann er að vinna í New York kemur vinur hans með atvinnuauglýsingu, þar sem boðin var vinna á Keflavíkurflugvelli á Íslandi. Val ákvað strax að slá til og prófa, sérstaklega til þess að komast í annað og kaldara loftslag. Val heillaðist strax af Íslandi, bæði náttúru og loftslagi. Árið 1950 hittir hann Guðrúnu Þórðardóttur og þar með voru örlög hans ráðin, hann settist að á Íslandi. Óhætt er að segja að það hafi verið hans gæfuríkasta spor í lífinu er hann gekk að eiga Guðrúnu í október árið 1953, því Gunna frænka er einstök kona. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir Val að búa hér á Íslandi, taugar hans til Bandaríkjanna voru ávallt sterkar og alla tíð fylgdist hann ekki síður með fréttum að utan en hér heima. Ameríski hafnaboltinn var hans uppáhaldsíþrótt og var ein hans mesta skemmtun að fylgjast með beinum útsendingum af hafnaboltaleikjum í Bandaríkjunum. Hann reyndi að heimsækja fjölskyldu sína í Bandaríkjunum eftir megni og þess má geta að árið 1967, þegar Val var í heimsókn hjá fjölskyldu sinni, var tekið viðtal við hann í bæjarblaðinu og fyrirsögnin þar er "Syngur Íslandi lof". Þar lýsir Val því að hann vilji hvergi annars staðar búa en á Íslandi og fer fögrum orðum um loftslag og náttúru.

Aðstæður hafa hagað því svo nú síðustu árin að börn Vals og Gunnu búa beggja vegna Atlantshafsins, aðeins Jane dóttir þeirra býr á Íslandi. Val hafði alla tíð haft mikla ánægju af því að ljósmynda og ber fjölskyldualbúmið þess vott, einnig tók hann margar kvikmyndir af fjölskyldunni strax á uppvaxtarárum barnanna, sem ekki var algengt þá. Þessar myndir hélt hann mikið upp á, sérstaklega nú í seinni tíð, og hafði gaman af að skoða þær tímunum saman, eflaust fannst honum þær færa börnin og barnabörnin nær sér. Þetta myndasafn er arfur hans til fjölskyldunnar, skilaboð um hversu mikilvægir ástvinir hans voru honum, hversu mikilvægar minningarnar eru, minningar um gleðistundir í lífi fjölskyldunnar, sameiginlegar minningar ástvina.

Heilsu Vals hrakaði síðustu árin og naut hann einstakrar umönnunar konu sinnar í veikindum sínum. Það er þakkarvert að hann náði að fara í febrúar sl. til Bandaríkjanna í útför bróður síns, séra Johns Peters, og um leið að heimsækja dætur sínar og son og fjölskyldur þeirra. Þær minningar sefa nú sáran aðskilnað vegna vegalengda.

Elsku Gunna, ég og fjölskylda mín vottum þér og fjölskyldu þinni einlæga samúð okkar. Megi minning um góðan mann styrkja ykkur í missi ykkar.

Blessuð sé minning Vals Skowronskis.

Guðmundur Guðmundsson.