Kristján Óskar Sigurðsson Þegar manni berast fregnir eins og þær sem mér bárust s.l. laugardagsmorgun, um að hann Kiddi hefði fallið frá þá um nóttina, finnur maður best hve berskjaldaður maður er gagnvart því sem öllu ræður og hversu lítil áhrif við mennirnir í raun höfum þegar að þessum málum kemur. Fyrstu viðbrögð eru e.t.v. ótti og jafnvel reiði yfir því að slíkur efnispiltur skuli á svo miskunnarlausan hátt hrifsaður úr hópi sinna ástvina. Á eftir fylgir tómleikinn og hugsunin um alla þá sorg sem slíkur atburður hlýtur ávallt að hafa í för með sér. Seinna fer manni að skiljast að á bak við allt saman hlýtur að leynast einhver tilgangur og það er okkar sem eftir lifum að varðveita minninguna um góðan dreng og nýta hana á jákvæðan hátt með von um að hún megi vísa öðrum veginn til betra lífs.

Ég kynntist Kidda fyrst þegar hann kom til mín upp í 2. flokk þegar ég þjálfaði þá strákana fyrir tveimur árum, en hann var þá reyndar leikmaður með 3. flokki. Mér urðu fljótt ljósir knattspyrnuhæfileikar hans og ekki síður urðu mér fljótt ljósir kostir hans sem persónu og félaga. Það sama ár var hann svo kjörinn efnilegasti leikmaður yngri flokka hjá ÍA og kom það engum á óvart.

Eftir að ég hætti þjálfun strákanna hef ég að sjálfsögðu fylgst mjög náið með þeirra framgangi í knattspyrnunni og ekki síður í lífinu almennt. Ég skynjaði því vel hversu mikið áfall það var fyrir Kidda þegar í ljós kom að slæm meiðsli á hné urðu þess valdandi að hann neyddist til þess að hvíla sig á knattspyrnunni um sinn en að sama skapi gladdist ég yfir því hvernig þetta áfall varð til þess að herða hann og hvetja hann enn frekar til dáða. Hann var greinilega staðráðinn í að nýta tímann vel, byggja sig upp með styrktaræfingum, og koma svo tvíefldur til baka og sýna þar með í verki úr hverju hann væri gerður. Því miður auðnaðist honum ekki að koma því ætlunarverki sínu í framkvæmd.

Missir strákanna er mikill, þeir voru samheldinn og öflugur hópur, en allt það góða fólk sem unnið hefur markvisst að því að minnka kvöl þeirra undanfarna daga á mikinn heiður skilið. Missir foreldranna, þeirra Sigga og Gígju, er enn meiri. Stolt og stuðningur þeirra fylgdi honum alla tíð svo eftir var tekið. Missir systkina hans og ekki síst litlu frændanna tveggja sem voru svo hændir að honum hlýtur að vera nær óbærilegur. Megi allt hið góða styrkja ykkur öll og leiða.

Fyrir hönd okkar allra hjá Knattspyrnufélagi ÍA sendi ég innilegustu samúðarkveðjur. Frá er fallinn einn af okkar bestu sonum en góð minningin um hann mun lifa og hvetja okkur enn frekar til dáða í viðleitni okkar til þess að láta gott af okkur leiða.

Smári V. Guðjónsson, formaður Knattspyrnufélags ÍA.