Ólöf Sigurbjörg Jóhannesdóttir Fyrir rúmum fjörutíu árum hélt ég, þá níu ára borgarbarn, á vit ævintýranna í sveit til Ólu frænku í Kvígindisfirði. Minningarnar streyma fram í hugann. Ég sé lágvaxna, kvika húsmóður standa á bæjarhlaðinu, bera hendur að munni sér og kalla kus, kus, komið þið heim. Kýrnar voru svo hændar að Ólu að oftast hlýddu þær kalli hennar og kúasmalinn ungi slapp við að tölta út í haga að sækja þær. Hlæjandi matselju við svörtu kolaeldavélina sem lokkar fram girnilega rétti úr selkjöti eða nýveiddum silungi. Bograndi húsmóður við bæjarlækinn, með bláar hendur af kulda, við að skola þvottinn, segjandi sögur til að létta okkur störfin. Blíða móður með olíulampa ganga milli herbergja að afloknum vinnudegi til þess að gæta að því að allir legðust sáttir til sængur. Á síðustu árum sé ég kátan eldri borgara búsettan í Kópavogi að rifja upp liðinn tíma, prjónandi á fjölmarga afkomendur og drengina mína. Þakka þér fyrir að hafa mig í fjögur gæfurík og hlý sumur og reynast mér sem móðir.

Ég sendi fjölskyldu Ólafar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingibjörg Auðunsdóttir.