ÍVAR ÓLAFSSON

Ívar Ólafsson var fæddur að Krosshóli í Skíðadal 21. nóvember 1921. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri annan dag hvítasunnu, hinn 24. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Tryggvi Sigurðsson og Kristjana Jóndóttir. Systkini Ívars eru: Snjólaug Aðalheiður sem er látin; Sigurður sem býr að Syðra-Holti; Jón Gunnlaugur sem er látinn; Sveinn Blómkvist, rafvélavirki í Reykjavík og Stefanía sem er látin. Árið 1931 fluttist fjölskyldan að Syðra-Holti í Svarfaðardal. Ívar fluttist til Akureyrar árið 1941 þar sem hann hóf ævistarf sitt við járnsmíðar. Hinn 4. maí 1946 kvæntist Ívar eftirlifandi eiginkonu sinni Valgerði Aðalsteinsdóttur frá Jórunarstöðum í Eyjafjarðarsveit, fædd 12. júlí 1923. Börn þeirra eru: 1) Stefán Ævar ketil- og plötusmiður í Járnsmiðjunni Varma, f. 1.3. 1948. 2) Kristjana Ólöf dreifingarstjóri hjá Ásprenti, f. 29.6. 1965, sambýlismaður hennar er Sigurgeir Einarsson, f. 23.12. 1962. Ívar og Valgerður bjuggu allan sinn búskap á Akureyri, fyrst í Brekkugötu 33, síðan byggðu þau sér hús að Sólvöllum 5 og fluttu þangað 1949, þar bjuggu þau í 30 ár, en fluttu þá til sonar síns í Lönguhlíð 18, síðar eignuðust þau íbúð í Hjallalundi 10. Útför Ívars fer fram frá Akureyrarkirkju mánudaginn 31. maí og hefst athöfnin klukkan 13.30.