FERÐAFÉLAG Íslands skipulagði fyrir nokkrum árum þriggja daga gönguleið, sem hlaut nafnið Vatnaleiðin. Hún hefur verið farin í byrjun júlí. Í fyrstu var gengið frá Hreðavatni að Hlíðarvatni en síðustu tvö sumur í öndverða átt og hefur leiðin jafnframt verið einfölduð.
Á slóðum Ferðafélags Íslands

Vatnaleiðin

Vatnaleiðin er þriggja daga gönguleið, sem farin er árlega á vegum Ferðafélags Íslands. Í ár var farið frá Hlíðarvatni að Hítarvatni, þaðan að Langavatni og á þriðja degi að Hreðavatni. Gerður Steinþórsdóttir rifjar upp ferðasöguna og lýsir leiðinni.

FERÐAFÉLAG Íslands skipulagði fyrir nokkrum árum þriggja daga gönguleið, sem hlaut nafnið Vatnaleiðin. Hún hefur verið farin í byrjun júlí. Í fyrstu var gengið frá Hreðavatni að Hlíðarvatni en síðustu tvö sumur í öndverða átt og hefur leiðin jafnframt verið einfölduð. Er gengið á fyrsta degi frá Hlíðarvatni að Hítarvatni, á öðrum degi að Langavatni og á þriðja degi að Hreðavatni, alls um fimmtíu km. Í sumar var Vatnaleiðin farin 3. til 5. júlí í blíðskaparveðri undir ágætri fararstjórn Sigríðar H. Þorbjarnardóttur. Við vorum alls ellefu konur. Farangur var fluttur að Hítarvatni fyrsta daginn þar sem við gistum fyrri nóttina í fjallhúsi Hraunhreppinga en síðan gengið með allan farangur í tvo daga. Tjaldað var síðari nóttina í Langavatnsdal. Í lok ferðar var snæddur kvöldverður á Bifröst áður en haldið var til Reykjavíkur.

Hér verður Vatnaleiðinni lýst, en vísað til ítarlegrar umfjöllunar um svæðið í árbók FÍ 1997 "Í fjallhögum milli Mýra og Dala" sem Árni Björnsson og Guðrún Ása Grímsdóttir rituðu.

Í klettum Rögnamúla

Rútan ók í norður meðfram Gullborgarhrauni, veg 55. Framundan voru vötn á báðar hendur, Oddastaðavatn til vinstri, Hlíðarvatn til hægri. Rútan sveigði norður með Hlíðarvatni þar sem mosavaxnir hraunhólar rísa fagurlega upp úr vatnsborðinu. Gangan hófst við bæinn Hallkelsstaðahlíð, sem kallast Hlíð. Þar er myndarlegt hús í byggingu, bóndinn var að mála húsið og ungur sonur hans til aðstoðar. Við gengum léttar í spori meðfram vatninu, mest í fjöruborðinu og hlustuðum á gjálfrið í öldunum. Hlíðarvatn er allstórt silungsvatn. Hlýr austanvindur blés og sól skein í hádegisstað. Við okkur blasti Geirhnúkur, 898 m að hæð, ávalur með ferhyrndan tappa á hábungunni. Einhver nefndi geirvörtu.

Eftir skamma stund vorum við komnar að austurenda vatnsins, þar sem áður stóð bærinn Hafursstaðir. Hér rennur Fossá í Hlíðarvatn og fjær fellur Háifoss í nokkrum stöllum. "Einhvern tímann ætla ég að ganga Fossaveg," sagði fararstjórinn og leit upp með ánni löngunaraugum. En það var ekki á dagskrá núna og við héldum för okkar áfram eftir að hafa vaðið grunna ána og klæðst stuttbuxum. Sandfell, sem liggur að Hlíðarvatni, var á hægri hönd, svart á lit, eins og raunar mörg fjöll á þessari leið. Við sveigðum upp Hellisdalinn og síðan inn á Rögnamúla. Klettar hans eru einkennilegir, bólstralagaðir og líkjast sveit steingerðra manna. Í klettunum dvöldumst við um stund og nutum sólar og útsýnis niður í djúpa dali og norður yfir Rauðamelsheiði með ótal tjarnir og allt til Hvammsfjarðar. Þarna uppi blakti ekki hár á höfði. Við snerum til baka og gengum fram á Vatnshlíð. Þaðan sá yfir allt Hítarvatn, sem er silungsvatn og mun stærra en Hlíðarvatn. Leið okkar lá nú niður í Klifsdal með hið blakka fjall, Klifsand í fangið. Tekið var að kvölda og bar skugga á fjallið. Við fórum yfir Hítará á stíflunni, þar sem áin fellur úr vatninu. Þarna var samankominn nokkur hópur manna, hjólhýsi og bílar. Í fjallhúsi Hraunhreppinga er rúmgott anddyri, snyrting og tvö herbergi með tólf tvíbreiðum kojum og aðstöðu til eldunar. Þarna beið farangurinn okkar þegar við komum í hús um áttaleytið um kvöldið.

Eftir grösugum Þórarinsdal

Það var sól en kul í morgunsárið. Við ætluðum okkur tvo tíma til að ferðbúast. Handan árinnar, þar sem við höfðum komið niður kvöldið áður, heita Hvítingshjallar. Þar er sagt að Björn Hítdælakappi, hetjan og skáldið, hafi verið veginn er hann skar mön á stóði sínu. Það gerði Þórður Kolbeinsson sem átti Oddnýju sem verið hafði festarkona Bjarnar um skeið.

Við gengum í suðausturátt gegnum Hólmshraun, grátt mosavaxið apalhraun. Þar hefur verið efnistaka. Á veginum hittum við tvo veiðimenn sem báru silungsveiði sína um axlir. Þegar þeir sáu okkar með þunga bakpoka án veiðistanga brostu þeir og sögðu að það vantaði í okkur veiðigenið. Hólmshraun kemur úr Rauðkúlum, lágum rauðleitum gígum, sem loka Þórarinsdal í vestur. Um hann lá leið okkar. Þórarinsdalur er breiður og grösugur og rennur á eftir honum. Á vinstri hönd er Smjörhnúkur í hömrum, 907 m að hæð, tignarlegur að sjá. Dalurinn er langur og liggur í boga til suðurs, þar sem hann lokast af svörtu felli, sem kallast Sandur (Kvígindissandur). Hér, eins og víðar á leiðinni, var jarmandi sauðfé á beit og rann undan okkur.

Þegar við komum að Kvígindissandi fyrir botni dalsins gengum við upp á Langavatnsmúla, mosavaxinn blágrýtisrana, og blasti þá við Langavatnsdalur, grænn á að líta. Eftir dalnum liðast samnefnd á . Aðeins sást í norðurenda vatnsins frá múlanum en það er silungsvatn. Nokkuð bratt er niður múlann, en í dalnum við vatnið er gróskumikið votlendi með starargróðri sem við óðum. Við tjölduðum við Tjaldhól, en hann ber nafn sitt af því að þar er þurrlendi. Tvær kríur sveimuðu yfir okkur. Vegur hlykkjast upp Langavatnsdalsmúla, en hann er illfær og ekki urðum við varar við mannaferðir. Nóttin var hlý og mild. Vatnið milli kjarrivaxinna hraunása

Þegar ég leit inn Langavatnsdal um morguninn sá ég að Víðimúli skiptir dalnum og upp af honum rís fjallið Trumba. Langavatnsdalur, sem er ellefu km langur, heldur áfram í norður en Hafradalur í vestur. Hér er sumarfagurt. Mér verður hugsað til harmsögu hjónanna, Sæmundar og Þorbjargar, sem fluttu hingað örsnauð vorið 1811 með börn sín fjögur. Fyrsta veturinn dóu tvö börnin úr kulda og kröm, annan veturinn varð Sæmundur úti er hann sótti eld til bæjar. Þriðja veturinn, þegar hungrið svarf að, slátraði dóttirin hrossi sem hún hafði fundið. Voru þær mæðgur dæmdar sakamenn. Þar með lauk búsetu í Langavatnsdal.

Það var sólarlaust þegar við lögðum af stað á ellefta tímanum en áætlað var að koma niður að Bifröst klukkan sex síðdegis. Leið okkar lá upp Réttarmúlann sunnan við Vatnsendagil. Héðan sást vel yfir allt vatnið. Þaðan lá leiðin niður í Hróbjargardal og yfir í Fossdal. Við óðum Fossdalsá sem rennur eftir dalnum. Nokkru ofar í ánni falla Neðrifossar, snotrir mjög, og gengum við upp að þeim og horfðum á vatnið fossast í mörgum óreglulegum stöllum. Síðan héldum við í suður að Vikravatni og gengum austan við vatnið undir Þórisengismúla, suður með Þórisengistjörn og niður í Fannárdal. Við skoðuðum Hreðavatnssel en héldum síðan yfir Stóra-Þrym og niður í þröngan dal, Þorvaldsdal. Hann er nefndur svo í heiðursskyni við Þorvald Thoroddsen náttúrufræðing sem rannsakaði um síðustu aldamót forna steingervinga löngu fallinna laufblaða trjáa sem uxu þar fyrir um 6 milljón árum. Leið okkar lá síðan upp á Selmúla en þaðan blasti við Selvatn nær en fjær Hreðavatn. Þegar nær kom sást Hreðavatn betur þar sem það liggur djúpt milli kjarrivaxinna hraunása með nes, hólma og eyju alþakta skógarkjarri. Sannlega er Hreðavatn og umhverfi þess fagurt á að líta. Við gengum um kjarr og berjalönd niður að Hreðavatni norðanmegin og sem leið lá að Bifröst. Þar var sest að dúkalögðu langborði og snædd ágætis lambasteik. Á heimleiðinni liðu hjá í huganum vötn og ár, móar og mýrlendi, fjöll og dalir, en ofar öllu; hinar mjúku línu landsins.

Höfundur er ritari Ferðafélags Íslands.Morgunblaðið/Gerður Steinþórsdóttir. VIÐ Neðrifossa í Fossdal.

NN í klettum Rögnamúla. Djúpidalur til hægri.

Á VATNSHLÍÐ. Séð yfir Hítarvatn. Fyrir miðri mynd handan vatnsins sér inn Þórarinsdal. Til vinstri er Smjörhnúkur.

HÓPURINN í upphafi ferðar við Hlíðarvatn.