SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra skoðaði fyrirhuguð virkjanasvæði hálendisins í gær ásamt samstarfsfólki úr umhverfisráðuneytinu. Ráðherra fór inn að fyrirhuguðu stíflustæði við Eyjabakka og gekk áleiðis upp í hlíðar Snæfells í ágætu skyggni. Þá var haldið inn að Dimmugljúfrum og fyrirhugað stíflustæði Hálslóns skoðað.

Umhverfisráðherra skoðar virkjanasvæði á hálendinu norðan Vatnajökuls

"Er ekki bergnumin yfir Eyjabökkum"

SIV Friðleifsdóttir umhverfisráðherra skoðaði fyrirhuguð virkjanasvæði hálendisins í gær ásamt samstarfsfólki úr umhverfisráðuneytinu. Ráðherra fór inn að fyrirhuguðu stíflustæði við Eyjabakka og gekk áleiðis upp í hlíðar Snæfells í ágætu skyggni. Þá var haldið inn að Dimmugljúfrum og fyrirhugað stíflustæði Hálslóns skoðað.

Ráðherra sagði að sér hefði þótt Eyjabakkar vera fallegt svæði þótt það væri ekki einsdæmi á íslenskan mælikvarða, jafnvel þó það væri gróðurheild í svona mikilli hæð. "Ég er ekki bergnumin yfir Eyjabökkum," sagði ráðherra og bætti við: "Þessi ferð, sem er fyrst og fremst fræðsluferð, hefur ekki breytt minni skoðun á málinu, þótt ég geri mér mun betur grein fyrir staðháttum núna eftir að hafa séð þau með eigin augum," sagði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sem hefur lýst því yfir að hún styðji stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í virkjunar- og stóriðjumálum.

Ljóst að færðar verða fórnir

Ráðherra sagði að ljóst væri að við fyrirhugaðar framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun yrðu færðar ákveðnar fórnir. Það væri ákveðin fórn að setja gróður undir vatn en á móti henni kæmi hins vegar að fjölmörg tækifæri sköpuðust í atvinnulífinu. Alþingi og stjórnvöld væru þegar búin að meta hvort vegur þyngra, fórnirnar sem færðar væru eða tækifærin sem sköpuð væru, og hún styddi þá ákvörðun þingsins.

Aðspurður sagðist ráðherra ekki hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum virkjunarinnar á fuglalíf á Eyjabökkum. "Fuglinn sem er þarna í 2-3 vikur á ári mun færa sig til og virkjanaframkvæmdirnar munu ekki skaða stofninn. Hann mun áfram hafa graslendi í kringum lónið, en væntanlega koma betri upplýsingar um þetta fram í frummatsskýrslu þeirri sem Landsvirkjun vinnur nú að."

Siv sagðist aðspurð sjá jákvæð áhrif umræddra framkvæmda á umhverfið. Verið væri að framleiða græna orku til álframleiðslu í stað þess að framleiða ál með kolum eða olíu. Álframleiðsla væri þar að auki jákvæð fyrir umhverfið að því leyti að bílar framleiddir úr áli væru léttari fyrir vikið og krefðust minni orku en þyngri bílar.

Ráðherrar hittast á förnum vegi á hálendinu

Á vegi umhverfisráðherra, miðja vegu inn að Dimmugljúfrum, varð starfsbróðir hennar í ríkisstjórninni, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og samstarfsfólk hans úr ráðuneytinu, fulltrúar Vegagerðar og formaður Ferðamálaráðs. Fundurinn var óvæntur og hafði hvorugur hugmynd um ferðir hins, en báðir voru á hálendinu norðan Vatnajökuls í sama tilgangi; að skoða fyrirhuguð virkjanasvæði.

Sturla sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði viljað sjá umrædd svæði með eigin augum vegna þeirra ákvarðana sem liggja fyrir um virkjanir. Þá væri hann að skoða ástand vega sem liggja að svæðunum með tilliti til framkvæmdanna og einnig með tilliti til ferðaþjónustu. Aðspurður um Eyjabakka sagði Sturla: "Ég verð að viðurkenna að ég átti von á meira afgerandi áhrifum frá svæðinu. Þetta var ekki eins sláandi og ég bjóst við. Gljúfrin voru hins vegar stórfengleg og ógnvekjandi en ég tel að við eigum möguleika á að virkja þarna án þess að eyðileggja náttúrufegurð þeirra."

Morgunblaðið/RAX

TVEIR ráðherrar hittust óvænt á hálendinu í gær, Siv Friðleifsdóttir og Sturla Böðvarsson.