Borgarey í Ísafjarðardjúpi telst til hlunninda prestsetursins í Vatnsfirði og þar er mikil lundabyggð. Á eyjunni og í landi hefur verið byggð upp fullkomin aðstaða til veiða á lunda og verkunar. Jón Fjörnir fékk að fylgjast með eyjaskeggjum að störfum.
Dyraverðir

í Djúpinu

Borgarey í Ísafjarðardjúpi telst til hlunninda prestsetursins í Vatnsfirði og þar er mikil lundabyggð. Á eyjunni og í landi hefur verið byggð upp fullkomin aðstaða til veiða á lunda og verkunar. Jón Fjörnir fékk að fylgjast með eyjaskeggjum að störfum.

INNSTA eyjan í Ísafjarðardjúpi heitir Borgarey og er vafalaust minnst þekkt af eyjunum í Djúpinu. Hún var síðast í byggð um aldamótin, enn í dag má sjá bæjarrústir undir hamraborginni sunnanverðri sem að eyjan dregur nafn sitt af. Takmarkaður aðgangur að ferskvatni hefur án efa gert eyjarskeggjum lífið erfitt, enda saga mannabyggða þar stutt og telur fáa.

Eyjan telst til hlunninda prestsetursins í Vatnsfirði. Séra Baldur Vilhelmsson, sem nýverið lét af störfum sem prófastur í Ísafjarðarsýslu hefur haft umsjón með eyjunni. Hann hefur ásamt fjölskyldu sinni týnt æðardún og hlúð vel að æðarvarpi í Borgarey. Þar er mikil lundabyggð, sem að mestu var látin í friði fyrir utan það sem fór á pönnu frúarinnar í Vatnsfirði og í soðið hjá nokkrum sveitungum þeirra. Guðbrandur Baldursson, yngsti sonur presthjónanna í Vatnsfirði sem hefur haft vetrarsetu í Reykjavík um árabil, sá möguleika á meiri nýtingu lundastofnsins í eyjunni. Félagi hans Dómald Leó Burknason tók vel í hugmyndina. Saman hafa þeir byggt upp frábæra aðstöðu til veiði, verkunar og útiveru í sumarfríum sínum, enda báðir laghentir mjög. Undirritaður fékk að fylgjast með og taka þátt í veiðum með þeim félögum um miðsumarsskeið.

Við komum í Vatnsfjörðinn í sannkallaðri rjómablíðu. Dómald hlaðinn farangri með þrjá nýja háfa á toppgrindinni, undirritaðan og elsta son sinn Daníel sjö ára. Það var snjór í fjöllunum norðan megin við Djúpið í kringum jökul. Sóleyjarnar í túnfætinum fyrir neðan kirkjuna og bæjarstæðið í hlíðinni gáfu þessum litla firði hlýlegt viðmót. Á eyrinni standa þrjár byggingar, gamall þurrkhjallur sem nýlega var endurreistur af Þjóðminjasafninu stendur í fjöruborðinu. Ofan við hjallinn er lágreist svart bárujárnshús með rauðu þaki og hvítmáluðum litlum gluggum, gamla sláturhúsið. "Þarna er húsið hans Guðbrands", segir Dómald og bendir á hvítt steinhús sem stendur fjærst. "Hér gæti einhver múrarinn auðveldlega losað sig við lögun eða tvær, og kastað til skeiðinni", hugsa ég. Ártalið 1925 er skrautritað í brúnum lit fyrir ofan grænar útidyrnar. Við keyrum framhjá og leggjum fyrir framan sláturhúsið. Húsið er opið og fyrir utan stendur ævaforn lítið eitt ryðgaður brúnn amerískur jeppi. Við rétt náum að teyja hendur til himins þegar Guðbrandur birtist í dyragættinni, enda rífur koma okkar kyrrðina. Fyrir utan einstaka fuglasöng á Tom Jones svæðið "it's not unusual to be loved by anyone", berst útúr leðurbólstuðum jeppanum sem áður flutti bankastjóra í höfuðborginni en eyðir nú ævikvöldinu vestur á fjörðum.

Við heilsumst og Guðbrandur tjáir mér að Tom Jones hafi setið fastur í segulbandstækinu frá vorinu árið á undan.

Gamla sláturhúsið

Þeir Dómald fara yfir stöðu mála í sláturhúsinu, sem nú er orðið verkunar og pökkunarhús fyrir lundabringur. Guðbrandur hefur tekið hraustlega til hendinni, rifið niður millivegg, losað drasl og smíðað nýtt vinnuborð. Sláturhúsinu er skipt í fjóra sali. "Hér keyrum við lundann inn, við náum í hann með kerru úr bátnum og komum inn í þennan sal. Síðan er hann vængklipptur og hamflettur í næsta sal. Þar næst rennum við bringunum í plastbökkum og notfærum okkur króka og dráttarbrautir í lofti yfir á næstu stöð og hér eru bringurnar snyrtar og við erum lausir við alla lús. Að lokum berum við þær í kössum yfir í pökkunina". Það fyrsta sem vekur athygli þegar komið er inn í pökkunarsalinn er fjólublátt ljós í einu horninu. "Þetta er Executor flugnagildra. Við leggjum mikið uppúr snyrtimennsku eins og þú sérð og hér eru líka nýjar pökkunarvélar."

"Frágangur okkar á lundanum hefur verið rómaður og þau veitingahús sem keypt hafa af okkur vilja ekki sjá annað, við pökkum sex átta eða tíu bringum saman," bætir Dómald við. Þeir selja mest veitingahús í Reykjavík og allur lundi sem ferðamenn borða á hótel Reykjanesi kemur úr Borgarey. Markmiðið er að veiða jafn mikið og grannar þeirra í Vigur eða um tíuþúsund fugla. Dómald vill ólmur fara fram í eyju strax um kvöldið en fyrst þarf að gera allt klárt fyrir fyrsta farm sumarsins sem senn er væntanlegur. Þeir félagarnir hefjast því handa við að ljúka því sem ljúka þarf. Ég lalla mér út. Hvílík veðursæld, léttur andvarinn leikur um vangann. Ég horfi út í eyju fullur tilhlökkunar og sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa valið Djúpið fram yfir Spánarferðina. Hér liggja ræturnar í báða leggi þó langt sé síðan ég kom vestur síðast og kom þá m.a. við í Æðey en Borgarey var óræð stærð.

Það eru ekki mörg ár síðan ég frétti af tilvist hennar. Hugmyndir mínar um hana skiptust á um að klæða hana í einslags ævintýraeyju Enid Blyton og ég sjálfur jafnvel með óljósar hugmyndir um fjársjóðsleit með unglingagengi þó við værum að fara á lundaveiðar. Eða þá að Tinni birtist í huga mér uppá dekki í rannsóknarskipinu í "Dularfullu stjörnunni" í leit að eyjunni sem óx úr sæ eftir árekstur loftsteins og sökk síðan nær samstundis eftir mikla svaðilför Tinna og baráttu þeirra Kolbeins við skúrka. Eftirvæntingin eykst þar sem ég stend fyrir framan sláturhúsið. Við bryggjusporðinn er myndarlegur hvítmálaður eikarbátur séra Baldurs bundinn og í flæðarmálinu má sjá annan hraðbát, við hlið mér sleikir hinn aldni jeppi sólina og lætur sér fátt um finnast þó að fiskifluga kanni innviði hans. "Viltu ekki sjá húsið hans Guðbrands?" Það er Danni litli sonur Dómalds sem vekur mig úr draumaheiminum. "Ha, jú jú." Við röltum malarveginn upp eyrina, framhjá gömlum pólskum Úrsus. Traktorinn var vægast sagt framlágur, þó fannst mér það ólíkt þeim Vatnsfirðingum að láta dráttarvél grotna niður í hlaðinu heima. Mér var seinna tjáð að vélin væri enn í notkun, þeir notuðu hana til að draga kerunna ýmist fulla af lunda eða drasli. "Það síðasta sem fer í Úrsus er vélin, um það eru allir bændur sammála," hafði Guðbrandur sagt og bætti við að hún væri aldrei tekin inn í hús.

Marilyn Monroe býður í dans

Daníel opnaði dyrnar að húsi Guðbrands sem áður var félagsheimili þeirra Vatnsfirðinga. Hann keypti húsið fyrir nokkrum árum af ungmennafélaginu og hreppnum. Það hafði þá staðið autt í mörg ár og lá undir skemmdum. Það er panelklætt að innan, málað í bláum og grænum pastellitum. Í anddyrinu hékk allskonar skjólfatnaður ásamt Remington haglabyssu, þaðan er innangengt í salinn, matsalinn og stigi uppá svefnloft. "Hérna eru kútarnir" Daníel var kominn inn í salinn og byrjaður að skoða köfunardót Guðbrands, sem var haganlega komið fyrir við hlið á ljósbrúnu sófasetti með plastáklæði, hugsanlega ættuðu frá sölu varnarliðseigna. Ég snéri mér við og við blasti leiksvið sem var svo smátt að það rétt rúmaði meðalstóran geislaspilarann sem var á því miðju. Við hlið hans lágu þeir saman Haukur Morthens og Ingimar Eydal, en hér er hægt að hlýða á upptökur þeirra og ferðast 30 ár aftur í tímann á réttardansleik. Upplifa hnútinn í maganum, bjóða upp og vanga við heimasætuna á næsta bæ undir ljúfum tónum með hjartað logandi af þrá. Það má því mikið vera ef þetta hús hefur ekki getið af sér nokkur hjónabönd, enda má sjá á gólffjölunum að hér hefur dansinn verið stiginn. Nú er heimasætan hinsvegar ættuð úr vesturheimi eins og sófasettið. Hún kallar á mig seiðandi röddu "I want to be loved by you. By you, and nobody else but you". Ég hrekk í kút. Risastórt veggspjald af henni, konunni sem vakti upp hjá mörgum drengnum sæludrauma, gerði lífið léttara og jafnvel dauðann eftirsóknarverðari. Þeir fengu að njóta návista hennar, dátarnir víða um heimsins höf. En hér í Vatnsfirði söng hún aldrei í lifanda lífi. Nú ómar engilfögur tælandi rödd hennar um allt húsið, þó enginn sé dansleikurinn. Ljósir lokkar, dimmblá augun og eldrauðar varir. Hjá Guðbrandi kemst engin önnur stúlka upp á vegg.

Ég hraða mér dasaður út og rifja upp á leiðinni sögu sem Hildur kona Dómalds hafði einhvern tíma sagt mér. Hún telst næm og ég get verið henni sammála um að vindar fortíðar blási um þetta hús, þó að Guðbrandur sofi þar vært og láti sér fátt um finnast.

Eyjan

Við erum á leiðinni fram í eyju á nýja hraðbátnum sem þeir höfðu keypt um veturinn. Sjórinn er lygn og báturinn er drekkhlaðinn. Svefnpokar, fatnaður, matvæli, háfarnir þrír og síðast en ekki síst vatnsbirgðir til fimm daga útiveru. Guðbrandur ákvað að verða eftir í landi og klára að koma öllu í stand. Siglingin tekur aðeins um fimmtán mínútur þegar gott er í sjóinn. Dómald stýrir eins og herforingi og lætur vel af bátnum sem hann siglir nú í fyrsta sinn. Hann hafði bent mér á kofann sem þeir höfðu smíðað, sem var frá ströndinni inní firðinum aðeins hvítur depill. Minningin um kofa einn sem við reistum tíu ára gamlir á smíðavellinum í Fossvogsdalnum skýtur upp í hugann og hver veit nema Dómald hafi endurtekið leikinn hér og bætt við bárujárnsklæðningu til að gera hann vind- og vatnsheldan. Við nálguðumst nú óðfluga og kofinn er greinilegur. Það er háflóð. Dómald hægir á, "Æ, ansans, nú man ég ekki hvorum megin við steininn á að fara, þeir eru tveir en nú er hinn í kafi". Við siglum uppi í fjöruborðið án vandræða. Aflestum bátinn og berum farangurinn í "kofann" sem sem vel mætti nefna "höll sumarlandsins" í það minnsta sumarbústað. "Hélstu að þetta væri eitthvert slor," spyr Dómald. Í kofanum er svefnaðstaða fyrir sex manns, hann er einangraður í hólf og gólf og afar snyrtilegur. Hér höfðu líka fagmenn, undir stjórn séra Baldurs, komið að verki. "Þú sérð það að þetta er mikla betra en húsið hans Guðbrands" Við erum sammála um það enda ekki varir við afturgöngur hér þó að klukkan hafi rétt slegið miðnætti. Þakklátir fyrir daginn skríðum við þreyttir í pokana og höldum á vit ævintýra næturinnar.

Daníel litli vekur okkur með morgunæfingum sínum á grasflötinni fyrir neðan kofann. Það er heiðskírt. Hann er í tugþrautarkeppni á Ólympíuleikunum, grýttir sömu steinvölunni ítrekað og reynir að bæta eigið met, milli þess sem að hann svífur fram af pallinum fyrir framan kofann með svipaða fótastöðu og Carl Lewis brúkaði á sínum langstökksferli. Fyrir ofan flýgur lundinn en þó nokkrar holur eru í brekkunni fyrir ofan kofann sem stendur á grasbala, milli brekkunnar og fjörunnar. "Sjáðu spjótið", snáðinn heldur nú á þunnum rekaviðarbút sem leysir steinvöluna af í kastæfingum hins verðandi afreksmanns. Dómald hitar vatn í kaffið í glæsilegum eldhúskrók kofans. "Það var flottara en þetta, við vorum með gasísskáp hérna, en óprúttnir náungar stálu honum í fyrra um verslunarmannahelgina". Kofinn er með þremur gluggum og það er notalegt að fá sér molasopann og njóta fámennisins horfandi út á Djúpið, yfir í Vatnsfjörðinn þar sem rétt mótar fyrir húsunum á eyrinni. Þetta er einungis baksvið útsýnisins frá morgunverðarborðinu í Borgarey, aðalleikendur hér eru lundar, endur, kjóar, teista, og aðrir fuglar og Fagranesið heiðrar áhorfendur með nærveru sinni tvisvar á dag. "Betra en nokkurt sjónvarp,"segir Dómald.

"Hann flýgur undir borginni"

Eftir að hafa sett net í háfana og gert okkur klára höldum við af stað þvert yfir eyjuna, Dómald gerir sér vonir um nokkurt flug undir borginni, "Hann á blása aðeins að norðan og þá er best að veiða í fjörunni þar". Lundinn hjá kofanum nýtur veðurblíðunnar og sleikir sólina og flýgur lítið, veiðimaðurinn stenst þó ekki mátið og snýr einn eftir að hafa vopnað háfinn með netinu sem hann hefur hnýtt um veturinn.

Hann flýgur undir borginni þrátt fyrir hitann, enda gola eins og við reiknuðum með Við hefjumst handa við veiðarnar, sem ganga ágætlega, þrátt fyrir nokkuð hátt flug. Hér er gríðarmikið af fugli og framboð af byggingarsvæði minna en eftirspurn og lundinn því farinn að grafa sér holur á flatlendi neðan við hamraborgina. Margur lundinn er að heiman, svamlandi fyrir utan eða kafandi eftir æti enda lundinn betri sundfugl en flugfugl. Í pásunni lofar Dómald lundann og segir að í ágúst fljúgi hann allur suður á bóginn og þá sé veisla hjá vargfuglinum enda lundapysjurnar skildar einar eftir, hálfhjálparvana. Þær fylgja hins vegar á eftir þegar flugstyrk hefur verið náð. Lundinn á sama makann þangað til hann deyr, þá er annar fundinn en ef sá gamli birtist eftir langar fjarvistir fær sá nýi umsvifalaust reisupassann. Hann verpir einu eggi innst í holunni og hjónin skiptast á um að liggja á". Dómald hefur ekkert samviskubit af drápinu. "Nei, þú sérð að það sér ekki högg á vatni þó að við veiðum hér tíuþúsund lunda. Svo lifir hann einhverju kommúnulífi, ef til dæmis foreldrar unga hverfa þá taka grannarnir hann að sér og sjá um að fæða hann meðan þau geta". Hann rifjar upp ferð sína í See World í Florída þar sem hægt var fylgjast með lundanum að veiðum neðansjávar. "Hann er jafnlipur sundgarpur og hann er klaufalegur á flugi, við Hildur sáum hann kafa niður á 30 metra dýpi og veiða síli." Eftir fræðsluna um lundann er haldið áfram við veiðar. Daníel aðstoðar pabba sinn við að raða fuglinum milli þess sem hann lætur ölduna elta sig í fjöruborðinu.

Tímaleysið

Við erum komnir í hús og horfum út á fjörðinn, mettir eftir Ora fiskibollur og bakaðar baunir. Útiveran gefur góða matarlyst og ekki annað hægt en að elda staðgóða máltíð, enda fóru máltíðir gærdagsins fyrir ofan garð og neðan. Ekkert bólar á Guðbrandi svo Dómald hringir í Vatnsfjörðinn og gefur séra Baldri upp stöðu mála í eynni. Hann er ánægður með að veiði sé hafin og segir son sinn á leið fram.

Við lepjum heitt súkkulaði og dásömum þessa pardís sem við erum staddir í og Dómald rifjar upp kynni þeirra Guðbrands. Þeir stóðu þá í sitthvorum dyrunum á veitingahúsinu 22 við Laugarveg. Sævar heitinn bróðir Dómalds átti þá staðinn í félagi með öðrum og hann var dyravörður þar ásamt því að vera "altmuligmand" staðarins. "Það var oft gaman á 22 enda fullt af góðu fólki og allskonar furðufuglum, en ég byði sjálfum mér aldrei uppá það í dag að endurtaka í sífellu "allir út, búið að loka" fyrir daufum eyrum barflugna sem ekki vildu heim," og hann bætir sposkur við "nú erum við bara dyraverðir í Djúpinu og það er miklu skemmtilegra".

Með kvöldflóðinu kemur Guðbrandur á eikarbátnum. Byssan er á öxlinni. Daníel kvartar yfir því að hann hafi verið lengi á leiðinni en Guðbrandur svarar því til að hér ríki tímaleysi. Morguninn eftir minnist ég tímaleysisins þegar lagt var seint af stað og sá stutti orðinn nær þreklaus eftir óvenjulanga tugþrautarkeppni þann morguninn. Veiðin er heldur rýr enda lítið flug og hitinn það mikill að veiðimennirnir bera á sér bringuna. Guðbrandur býður upp á skoðunarferð um eyjuna. Við röðum veiði dagsins í tvo bunka sem síðar verða sóttir á bátunum og fluttir beint í land. Við göngum vestur frá borginni. "Sjáðu, þarna liggja þeir". Dómald bendir á fimm seli sem sleikja sólina á klöpp. "Við náum þeim af þessu færi," segir hann spenntur og Guðbrandur jánkar. Þeir stinga sér hins vegar í sjóinn þegar við nálgumst. Á leiðinni hirðir Guðbrandur upp æðardún sem hafði sloppið eftir tínsluna fyrr um sumarið. Hann er nýkjörinn formaður Æðarræktunarfélags Norður-Ísafjarðarsýslu og hann segir okkur gamansögur af fundum þess merka félags. "Þegar menn forvitnast um hvernig varpið gangi hjá hinum er sama svarið ár eftir ár. Varpið, það er voða svipað og í fyrra, ­ þó ívið lakara". Guðbrandur hafði mælst til þess á síðasta fundi að þetta svar yrði skráð í lög félagsins. Hann segir okkur líka að Ronald og Nancy Reagan sofi með sængur og kodda úr Borgarey. "Þeim voru gefnar þessar gjafir frá Æðarræktunarfélagi Íslands 1986 og átti gjöfin að auka ennfrekar áhuga NASA á æðadún, en þeir prófuðu hann sem einangrun í geimbúninga og fleira, en fundu síðan upp eitthvert gerviefni sem var betra." Hann viðurkennir seinna að dúnn forsetans gæti eins komið úr Æðey eða einhverjum öðrum stað á landinu, "en hér segjum við að Ronnie sofi með dúnsæng frá okkur".

Við erum komnir að "hvítasandi", undurfagurri strönd með hvítum sandi vestast á eynni og ef ekki væri snjór í fjöllunum á Snæfjallaströnd gæti maður hæglega þóst vera Róbinson Krúso á hitabeltiseyju. Við höldum í drauminn, háttum okkur og vöðum út í , en ískalt norður atlantshafið minnir okkur á að við erum á mörkum hins byggilega heims. Jafnvel þó að máttur sólarinnar sé mikill og hún nái að verma föla húð, er of stutt í "klakavél" Grænlandsjökuls til að hér megi aðrir en selir synda.

Við höldum áfram ferð okkar. Guðbrandur segir sögur af skipstrandi, bendir okkur á klett einn þar sem mikið er af fugli. "Við eigum eitthvað sem Vestmannaeyingar eiga ekki og þeir eitthvað sem við eigum ekki, það er eins með okkur mannfólkið, engir tveir eru eins en allir hafa eitthvað til síns ágætis." Við nálgumst nú kofann og sjáum stóran hrafn fljúga í hamrinum og Guðbrandur er ekki ánægður með gang mála, "Lengi var alltaf eitt par hérna, það merkti sér svæðið og hélt öðrum frá, en eftir að þau hurfu í vetur hafa þrjú pör deilt með sér eynni. Það er ægilegt fyrir varpið". Og hann bætir við "Það þarf að skjóta þennan varg."

Drukknaðir sjómenn

Eftir máltíðina horfum við sælir út um gluggann. Daníel er tínandi bláskeljar og kuðunga í gamla málingarfötu í fjörunni. "Sjáið, þarna er teistan aftur," segir Dómald. Hann bendir á teistupar sem þeytist um hafflötinn. "Hún hlýtur að vera góð á bragðið, hún er af svartfuglaætt eins og lundinn." Hann hafði ítrekað lýst áhuga sínum á að háfa þennan fugl en það var ekki auðsótt þar sem flughæfni þeirra er meiri en frændans. Þær fréttir bárust úr Vatnsfirði seinna um kvöldið að hótelstýran á Hótel Reykjanesi hefði pantað lunda fyrir stóran hóp ferðamanna svo þeir félagar ákveða að sigla í land á morgun til að verka og afhenda fugl. Það þýðir að í kvöld munu færri kópar leggjast til hvílu en hófu þennan drottins dag.

Eftir veiði næsta dag í rigningu og Vestfjarðasudda undirbúum við landferð. Það flæðir að seinnipartinn og það er mikil alda. Við skiptum liði á bátana tvo, Guðbrandur með Daníel á eikarbátnum og við Dómald á "ósökkvandi" plastbátnum. Við ákveðum að fylgjast að yfir Djúpið svo Guðbrandur fylgir okkur hringinn í kring um eyjuna að sækja dauðan lundann sem liggur hjá aðalveiðistöðunum. Eftir að hafa fyllt bátinn af fugli höldum við blautir og hraktir út á djúpið. Það gefur vel á bátinn, aldan er hvít og við skynjum hættuna. Þó hraðbáturinn væri sagður ósökkvandi er hann ekki smíðaður til úthafssiglinga. Eikarbáturinn er sterkbyggðari og okkur líður betur, vitandi af honum á eftir okkur. "Sjórinn er svo kaldur að náum hvort eð er aldrei að synda í land," höfðu þeir sagt þegar spurt var um björgunarvesti. Dómald les nú ölduna betur og slær af skrúfunni. Vatnsfjörðurinn er enn órafjarri. Gærkvöldið rifjast upp; Veiðimennirnir syngjandi sjómannavalsinn um miðnæturbil leitandi að hentugri bráð. "Þarna." Það var Danni litli sem fyrstur sá forvitinn selsaugu gægjast upp á yfirborðið. Við þögnuðum allir. Dómald drap á vélinni í bát prestsins. "Of gamall." Það var dauðaþögn þar sem okkur rak undan skeri á vestari hluta eyjarinnar. Fleiri sakleysisleg höfuð skutu nú upp kollinum. "Kópur," hvíslaði Dómald og Guðbrandur mundaði byssuna. Fagurrauður liturinn blandaðist sægrænu hafinu. Böndum var komið á bráðina og siglt af stað heim í kofa. Dómald hellti upp á sterkt kaffi áður en hann gerði að dýrinu í fjörunni með grænlenska hnífnum sem hann hafði smíðað sjálfur. Blóðið flaut nú fram af tréflekanum á gömlu olíutunnunni við sólarlag. "Villimennska!" Dómaldi var undrandi. "Þetta er bara eins og að slátra lambi," sagði hann öllu vanur. "Ég er sveitamaður í mér, var í sveit á hverju sumri frá ellefu ára aldri." Guðbrandur er minna fyrir aðgerðir af þessu tagi. Hann minnir okkur á að í gamla daga hafi selir verið taldir drukknaðir sjómenn. Það bjargaði þeim hins vegar ekki frá því að vera saltaðir eða súrsaðir í tunnur hér við djúpið á þeim tíma.

Við leggjum nú uppí fjöruborðið við bryggjuna í Vatnsfirði. Fyrsta hluta svaðilfararinnar í Borgarey er lokið. Kaldir, með stígvélin full af sjó og bros á vör yfir því að sleppa lifandi úr heljargreipum Ægis, stígum við á land. Það er þungbúið yfir firðinum. Húsin þrjú á eyrinni, Úrsusinn og eðaljeppinn allt á sínum stað. Nóttin í gamla félagsheimilinu innan um kynjakvistina sem þar eru á sveimi er nú tilhlökkunarefni. Allt frekar en að veltast um í hafrótinu. Í fyrramálið bíða þúsund lundar þess að vera færðir úr hamnum og settir í neytendapakkningar í sláturhúsinu. Hugsanlega fullkomnasta og snyrtilegasta verkunar- og pökkunarhúsi fyrir lunda í heimi. Við göngum upp eyrina framhjá jeppanum geðgóða sem nú sefur af sér rigninguna og lætur sér fátt um finnast þó Danni syngi "Sértu velkominn heim, yfir hafið og heim."

Daníel Dómaldsson fer með þulu veiðimannsins meðan pabbi hans háfar að kappi í fjöruborðinu í Borgarey.Fallinn í valinn.Þegar rökkva tekur fer Guðbrandur á eikarbátnum hringinn í kringum Borgarey og sækir veiði dagsins.Hamfletting í gamla sláturhúsinu.Hugsanlega fullkomnasta pökkunarhús fyrir lundabringur í heimi.Málin rædd fyrir framan sláturhúsið. Í baksýn sést Borgarey.