ROBERT Dell, listamaður frá New York, sem dvelur á Íslandi um þessar mundir, mun halda fyrirlestur um aðferðir sínar og rannsóknir í Listasafninu á Akureyri, fimmtudaginn 23. september kl. 21. Dell hefur viðhaft óvenjulegar aðferðir í listsköpun sinni frá árinu 1988 og notað háþróaða tækni við gerð sinna skúlptúra, m.a. notað jarðvarma.
Robert Dell í Listasafninu

ROBERT Dell, listamaður frá New York, sem dvelur á Íslandi um þessar mundir, mun halda fyrirlestur um aðferðir sínar og rannsóknir í Listasafninu á Akureyri, fimmtudaginn 23. september kl. 21.

Dell hefur viðhaft óvenjulegar aðferðir í listsköpun sinni frá árinu 1988 og notað háþróaða tækni við gerð sinna skúlptúra, m.a. notað jarðvarma. Meðan hann vann að verkefnum við Center for Advanced Visual Studies í MIT á árunum 1993-97 og síðar í Tuft-háskólanum og Harvard hefur hann gert tilraunir með og þróað jarðvarmahermi sem hann notar í innsetningar sínar. Einnig hefur hann sett upp verk þar sem jarðhitinn er hluti af gangverki þess. Þekktast er verk hans í Yellowstone- þjóðgarðinum. Einnig vann hann verk fyrir Hitaveitu Reykjavíkur sem stendur við Perluna í Öskjuhlíð.

Robert Dell myndhöggvari er þekktur í heimalandi sínu og hefur haldið sýningar í þekktum listhúsum í Bandaríkjunum og hlotið viðurkenningu fyrir list sína. Verk eftir hann er að finna í söfnum í Bandaríkjunum. Verkefni þau sem Robert Dell vinnur að á Íslandi um þessar mundir eru styrkt af American-Scandinavian Foundation, Hitaveitu Reykjavíkur, Eimskipi og Myndlistaskólanum á Akureyri.

Myndlistaskólinn á Akureyri og Listasafnið á Akureyri standa að fyrirlestrinum. Aðgangseyrir er 300 kr.