Fjögur félög
vilja Steinar
FJÖGUR félög í Noregi og Svíþjóð hafa
sýnt áhuga á að fá Steinar Adolfsson, leikmann norska úrvalsdeildarliðsins Kongsvinger, til sín. Kongsvinger vill ekki ræða um sölu á Steinari fyrr en tímabilinu lýkur í Noregi.
Haugasund, sem er á leið upp í úrvalsdeild í Noregi, hefur sent beiðni til Kongsvinger um að fá að ræða við Steinar. Það sama hefur Vålerenga gert, en Steinar kveðst ekki hafa heyrt neitt frá þessum félögum. Þá hefur sænska liðið Norrköping, sem Þórður Þórðarson leikur með, og Viking frá Stavangri, sem Auðun Helgason og Ríkharður Daðason leika með, einnig lýst yfir áhuga á að fá Steinar til sín.
Steinar kveðst hafa mikinn áhuga á að leika í efstu deild áfram, en Kongsvinger er fallið í 1. deild þegar tvær umferðir eru eftir af móti. Hann segir engu að síður að ef Kongsvinger vilji halda sér áfram og ef ekkert tilboð berist verði hann þar áfram. "Kongsvinger gæti hins vegar ekki neitað góðu tilboði."
Steinar hefur ekki leikið síðustu fjóra leiki með liðinu vegna meiðsla og verður ekki klár fyrr en undir lok árs.