LÖGREGLURANNSÓKN er lokið í máli hins 27 ára gamla Marewans Mostafa, sem beðið hefur um landvist hérlendis sem pólitískur flóttamaður. Hefur mál hans verið sent Útlendingaeftirlitinu til umfjöllunar. Hann var handtekinn hinn 5. október og settur í viku gæsluvarðhald samkvæmt úrskurði héraðsdóms en Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi og var maðurinn settur í umsjón RKÍ þar sem hann er nú.
Fólki smyglað skipulega til landsinsGreiða frá hálfri milljón fyrir að komast hingað
LÖGREGLURANNSÓKN er lokið í máli hins 27 ára gamla Marewans Mostafa, sem beðið hefur um landvist hérlendis sem pólitískur flóttamaður. Hefur mál hans verið sent Útlendingaeftirlitinu til umfjöllunar. Hann var handtekinn hinn 5. október og settur í viku gæsluvarðhald samkvæmt úrskurði héraðsdóms en Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi og var maðurinn settur í umsjón RKÍ þar sem hann er nú.
Skipulagður innflutningur
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gær, að við rannsókn málsins hefði komið í ljós að um skipulegan ólöglegan innflutning var að ræða þar sem viðkomandi einstaklingur greiddi háa fjárhæð fyrir að komast til Íslands. Væru nú þegar nokkur dæmi um slíkt hérlendis, en þær fjárhæðir sem um ræðir nema frá hálfri milljón króna á hvern innflytjanda.
Íslenskir aðilar ekki útilokaðir
Samkvæmt upplýsingum lögreglu er ekki hægt að útiloka að aðilar hérlendis komi að hinum ólöglega innflutningi á einn eða annan hátt.
Skipuleg brotastarfsemi sem tengist ólöglegum innflutningi útlendinga er vel þekkt vandamál á Norðurlöndunum og í Þýskalandi og segir lögreglan að það sé hið raunverulega vandamál sem blasi við yfirvöldum hérlendis.