Á tónlistarhátíðum eins og ErkiTíð og Myrkum músíkdögum á undanförnum árum hefur það gerst að uppselt hefur verið á tónleika með raftónlist og nútímatónlist en slíkt þótti fáheyrt fyrir rúmum áratug. ÞÓRHALLUR MAGNÚSSON veltir fyrir sér hvað veldur þessari viðhorfsbreytingu og ræðir við tónskáldið Kjartan Ólafsson og hljómsveitina Stilluppsteypu.
UPPRISA RAFTÓNLISTARINNAR

Á tónlistarhátíðum eins og ErkiTíð og Myrkum músíkdögum á undanförnum árum hefur það gerst að uppselt hefur verið á tónleika með raftónlist og nútímatónlist en slíkt þótti fáheyrt fyrir rúmum áratug. ÞÓRHALLUR MAGNÚSSON veltir fyrir sér hvað veldur þessari viðhorfsbreytingu og ræðir við tónskáldið Kjartan Ólafsson og hljómsveitina Stilluppsteypu.

RAFTÓNLIST hefur verið í mikilli uppsveiflu á síðustu árum og má tengja það við aukinn áhuga og skilning fólks á tölvum og tölvulist. Þetta tónlistarform er hinsvegar síður en svo nýtt undir nálinni en Karlheinz Stockhausen, John Cage og Iannis Xenakis hófu áberandi tilraunir með það um miðja öldina. Í upphafi klipptu menn segulbönd og unnu í geysistórum hljóðverum sem einungis fá tónskáld áttu aðgang að. Fyrsta rafhljóðverið var stofnað árið 1951 af Herbert Eimert hjá útvarpinu í Köln en Stockhausen kom fljótlega til liðs við hann. Rúmum tíu árum síðar var fyrsta tölvuhljóðverið sett upp í samvinnu Bell Telephone Laboratories, J.R. Pierce, M.V. Mathews og D. Lewin. Þar var unnið með tónlist í tölvunni IBM 7090 og sérstökum breyti sem breytti stafrænum upplýsingum í hliðrænar [e. analog] bylgjur. Þá kom strax í ljós að tölvan bjó yfir gífurlegum möguleikum hvað varðar vinnslu í tónlist. Árið 1964 setti Robert Moog fyrsta hljóðgervilinn á markaðinn, en á honum var mögulegt að búa til fjölda hljóða með því að bæta yfirtónum á einfalda sinusbylgju. Á þessu tímabili urðu tónleikar með raftónlist algengir og hún tók að vekja athygli almennings. Þegar tölvurnar urðu smærri og ódýrari þurfti ekki ríkisstyrki til að nota þær við tónlistarsköpun og það leiddi til þess að popptónlistarmenn fóru að notast við hljóðgervla og tölvur og má þar nefna fremsta í flokki þýsku hljómsveitina Kraftwerk.

Í dag er staðan sú að tölvur, hljóðsmalar og hljóðgervlar eru notaðir í nánast allri vinnslu á tónlist, ef frá er talið tónleikahald með hefðbundnum hljóðfærum. Danstónlistin er svotil eingöngu samin á tölvur og plötusnúðar notast við tölvur og plötuspilara þegar hún er flutt á dansstöðunum. Þróun tölvutækninnar ásamt nútímaviðhorfi sem felst í að skil "há- og lágmenningar" eru að mást út, hefur leitt til þess að svið raftónlistarinnar er orðið afar víðfeðmt. Hún spannar allt frá hreinni minimalískri danstónlist til flókinnar og tormeltrar nútímatónlistar. Sem dæmi má nefna að á austurrísku tölvulistarhátíðinni Ars Electronica var í ár í fyrsta skipti sett saman í flokk klassísk tónlist og teknótónlist og varð það til þess að skapa mikla gerjun og kraftmeiri anda á meðal tónlistarmannanna að þeirra sögn.

Á Íslandi hefur staðan breyst töluvert síðan Magnús Blöndal hóf að gera tilraunir með raftónlist á sjötta áratugnum og var nánast úthrópaður í blöðum fyrir það sem menn kölluðu hræðilegt, úrkynjað athæfi. Magnús átti fyrsta raftónlistarverkið sem flutt var á Íslandi en það var verkið Elektrónísk stúdía, frumflutt árið 1959. Þorkell Sigurbjörnsson frumflutti verkið Leikar nr. 3 árið eftir, en viðtökurnar voru hvorki þjóðinni né listspekúlöntum hennar til mikils sóma. Í dag er staðan sú að nánast öll tónskáld sem eru kynslóð yngri en þeir Magnús, Þorkell og Atli Heimir hafa fengist við raftónlist, hvort sem um hreina raftónlist er að ræða eða blöndu hennar við hefðbundin hljóðfæri. Lárus Grímsson er kannski sá sem notar tölvur hvað mest í verkum sínum, en það hafa fleiri gert, eins og Ríkarð H. Friðriksson og Hilmar Þórðarson, sem hafa verið að vinna í Tónlistarskóla Kópavogs og komið að tónlistarhátíðinni ErkiTíð. Þorsteinn Hauksson hefur starfað mikið í raftónlist á undanförnum árum og einnig mætti nefna Hjálmar H. Ragnarsson, Snorra Sigfús Birgisson og Karolínu Eiríksdóttur. Flest tónskáld þessarar kynslóðar hafa fengist eitthvað við raftónlist.

Tölvurnar víkka litróf tónlistarinnar

Einn af drifkröftum raftónlistar á Íslandi er Kjartan Ólafsson tónskáld. Kjartan hefur staðið fyrir tónlistarhátíðinni ErkiTíð á undanförnum árum, hann er formaður Tónskáldafélagsins og höfundur tónlistarforrits fyrir tölvur sem heitir Calmus en það hefur fengið ítarlega umfjöllun á síðum Morgunblaðsins. Undirritaður hitti Kjartan á Hótel Borg og ræddi við hann um stöðu raftónlistar á Íslandi í dag og hvaða möguleika hin nýja tölvutækni býður uppá. "Athyglisverðasta nýjungin innan tónlistarinnar í dag er í tengslum við gagnvirka eiginleika tölvunnar," segir Kjartan. "Bæði tónsmíðar og spilun geta verið gagnvirkar. Að ákveðnu leyti er forritið Calmus gagnvirkt. Maður gefur því ákveðinn efnivið sem er úthugsaður og hefur verið vandað til og setur það inn í forritið. Maður mótar svo efniviðinn gróflega eftir því sem forritið býður uppá en undir niðri er fullt af litlum virknisþáttum sem meta það sem sett er inn, tengir það saman og gefur svo ákveðið svar. Ef svarið er ekki nákvæmlega það sem maður hafði hugsað sér má endurstilla forsendurnar í forritinu og það tekur á efniviðnum aftur og svarar á ný. Forritið er því alltaf að meta hvað notandinn er að hugsa um."

Kjartan segir vera áberandi mikla uppsveiflu í raftónlist þessa dagana og sést það best á því að á tónlistarhátíðum eins og ErkiTíð og Myrkum músíkdögum er oft uppselt á tónleika með nútímatónlist. Það sé einnig eftirtektarvert að stór hluti tónleikagesta er fólk í yngri kantinum sem er alið upp við tölvur og fyrir því er hugmyndin um tónlist samda og flutta á tölvum alls ekki framandi. En hvað er það sem heillar tónskáldin við raftónlistina? "Ég held að það sé fyrst og fremst stærri hljóðheimur og fleiri möguleikar við sköpun sem heillar fólk og fær það til að vinna með þetta form. Maður notar tölvurnar til að víkka út litrófið í tónlistinni. Varðandi flutning á raftónlist og tengsl tónskáldsins við flytjandann og áhorfendur, þá má vel spila á hljóðsmala og aðrar tölvur með hljóðfærum sínum. Þannig má flytja tónlistina beint og það myndast sama nálægð sem lifandi tónlistarflutningur býður uppá. Í gamla daga var þetta oft ansi frumstætt þar sem tónlistin var spiluð beint af hljóðböndum og lítið var hægt að vinna með hana í flutningnum. Núna er samspil raftækja og lifandi hljóðfæra orðið svo margbreytilegt og skemmtilegt að sjaldnast er um beina afspilun að ræða."

Í dag eru listamenn mikið að gera tilraunir með þá nýju fagurfræði sem tölvan býður uppá og þá sérstaklega gagnvirknina. Í tónlist er þetta mögulegt eins og í hinum listunum. "Ég verð að viðurkenna að þó mér finnist gagnvirknin athyglisverður og skemmtilegur möguleiki sem býður upp á meiri eftirvinnslu á tónverkinu þar sem hlustandinn getur notið verksins á allt annan hátt en áður tíðkaðist, þá veltur allt á því hvernig þetta er gert. Flestir listamenn sem vinna með list háða tíma ­ svo sem tónlist, bókmenntir, leiklist, kvikmyndir o.s.frv. ­ viðurkenna það fyrr eða síðar að erfiðasti hlutinn í jöfnunni sem fær verk til að ganga fullkomlega upp er tímahlutinn. Það er afar mikilvægt að atburðirnir, hvort sem þeir henda persónur í leikriti eða þemu í tónlist, gerist á réttum stað og hafi rétta úrvinnslu og tíma innan verksins. Þetta er það langvandasamasta við list. Sé þetta vald tekið frá höfundinum og gefið með tónlistinni, eins og möguleikar tölvunnar bjóða uppá, er í rauninni búið að kippa mikilvægustu þáttum tónlistar og allrar annarrar listar, sem vinnur í tíma, úr sambandi. Segja mætti hinsvegar að hér sé verið að brúa bilið milli tölvuleikja og alvarlegrar listsköpunar og það er ekkert sem mælir á móti því."

Strengjahljóðfærin seld

Stilluppsteypa er hljómsveit sem hóf störf fyrir allmörgum árum og þá sem hávaðasamir menn er spiluðu á gítar, bassa og trommur. Í dag notast þeir eingöngu við tölvur í tónsmíðum sínum. Í hljómsveitinni eru Heimir Björgúlfsson, Helgi Þórsson og Sigtryggur Berg Sigmarsson. Þeir stunduðu nám við Sónólógíuna í Haag en í dag eru Heimir og Helgi að nema í Gerrit Rietveld listaakademíunni í Amsterdam og Sigtryggur stundar listnám í Þýskalandi. Þeir segja það hafa verið meðvitaða ákvörðun að hætta alveg með hefðbundin hljóðfæri og taka tölvurnar í notkun í staðinn. "Þetta byrjaði á því að við fórum að nota teipmaskínuna sem hljóðfæri en þegar við byrjuðum í sónólógíunni og kynntumst tölvunum varð ekki aftur snúið og við seldum hljóðfærin okkar. Í dag vinnum við eingöngu með tölvur. Hljóðuppruninn getur verið hvaðan sem er, því hægt er að taka upp hljóð stafrænt og þegar það er einusinni komið inn á tölvuna er endalaust hægt að vinna með það. Við búum einnig til hrein tölvuhljóð sem eiga sér enga fyrirmynd í náttúrulega heiminum. Tölvan er stórskemmtilegt hljóðfæri, nánast án takmarkana og því hefur tónlistarmaðurinn svotil ótakmarkað frelsi. Í venjulegri tónlist hefur hvert hljóðfæri vissa eiginleika og takmörk, en í tölvunni eru það forritin sem hafa sína eiginleika og takmörk en ekki verkfærið sjálft. Ef það vantar sárlega einhverja virkni, eitthvert hljóð eða annað, þá er bara sest niður og forritað og málið er leyst."

Stilluppsteypa spilaði nýlega á tónleikum í Iðnó ásamt Birgi Erni Thoroddsen og Vindvamey þar sem raftónlist var flutt fyrir fullum sal af ungu fólki á öllum aldri. "Við spilum "live" á tónleikum, því við lítum í raun á tölvuna sem hljóðfæri með sín skemmtilegu sérkenni við lifandi flutning. Tónleikar hjá okkur eru í raun spuni innan ákveðins ramma, því við höfum forritað hljóðin og hljóðeffektana fyrirfram en framrás verksins er í okkar höndum þar sem við erum hver með sína tölvu og látum þær spila saman. Þannig bjóða tónleikar upp á fleiri tilviljanir og óvæntar uppákomur innan tónlistarinnar en þegar unnið er í hljóðveri. Þessar tilviljanir þykja okkur mjög mikilvægar."

Oft hefur borið á þeirri "gagnrýni" að í raftónlist komi ekki fram neinar tilfinningar og að hún sé köld og fráhrindandi. Auðvitað er um miklar alhæfingar að ræða en á móti má benda á oft hræðilega velgju hinna tilfinninganæmu tónlistarmanna. Heimir hefur skoðun á þessu í tengslum við raftónlistina. "Það er okkur fullkomlega framandi hugmynd að reyna að troða okkar persónulegu tilfinningum inn í tónlistina. Það gerast hinsvegar alls kyns galdrar þegar við spilum og við finnum þegar spenna myndast og við reynum þá að vinna með hana, láta hana þróast og brjótast fram svo að segja af sjálfsdáðum. Við reynum auðvitað að skapa spennu, byggja upp og brjóta niður, en mér finnst ekki að ég ætti að blanda mínum persónulegu tilfinningum í tónlistina og hella þeim yfir aðra. Það mætti segja að við séum að vekja upp spennu og viðbrögð hjá fólki en ekki tilfinningar. Ef maður dembir einhverjum tíðnum á fólk getur maður skapað mjög erfiða og ógnvekjandi tónlist sem kannski vekur upp tilfinningar hjá hlustandanum, en sú tilfinning er ekki frá okkur komin. Áhorfendur ráða því sjálfir hvaða reynslu þeir fá út úr tónlistinni."

(Heimasíða Calmus-forritsins er: http: //rvik.ismennt.is/~kjol/ og Stilluppsteypu: http://www.fire-inc.demon.nl/stilluppsteypa.html).









Stilluppsteypa

Kjartan Ólafsson