FJÓRIR friðargæsluliðar á vegum NATO særðust í átökum við þúsundir Kosovo-Albana sem reyndu að brjóta sér leið inn í serbneskan hluta smábæjarins Kosovska-Mitrovica í Kosovo í gær. Brú skilur að bæjarhlutana og hefur íbúunum verið meinað að fara milli þeirra af ótta við átök milli þjóðernishópa. Meira en 20 Kosovo-Albanar særðust í átökunum.
Fjöldi særist í þjóðernisátökum

Kosovo. AP.

FJÓRIR friðargæsluliðar á vegum NATO særðust í átökum við þúsundir Kosovo-Albana sem reyndu að brjóta sér leið inn í serbneskan hluta smábæjarins Kosovska-Mitrovica í Kosovo í gær. Brú skilur að bæjarhlutana og hefur íbúunum verið meinað að fara milli þeirra af ótta við átök milli þjóðernishópa. Meira en 20 Kosovo-Albanar særðust í átökunum.

Upphaf óeirðanna má rekja til mótmælaaðgerða Kosovo-Albana í gærmorgun vegna samgöngubannsins. Mikil reiði hefur ríkt meðal þeirra eftir að fjöldagrafir fórnarlamba Serba voru grafnar upp í grenndinni fyrir um mánuði. Mannfjöldinn kallaðist á við Serba sem stóðu hinum megin brúarinnar og hrópuðu serbnesk vígorð. Friðargæsluliðar áttu fullt í fangi þegar æstur múgurinn gerði tilraunir til að ryðjast yfir brúna og þrátt fyrir að gaddavír hafi verið á henni og friðargæsluliðar hafi skotið af byssum upp í loftið urðu átökin mjög hörð. Að síðustu var beitt táragasi til að dreifa mannfjöldanum og hafði friðargæsluliðið þá fengið aðstoð skipulegra verndarsveita Kosovo-Albana við að hemja óeirðirnar.

AP