HART var barist í Garðabænum í gærkvöldi þegar HK sótti Stjörnuna heim og var mikið í húfi fyrir hvort lið. Stjarnan átti möguleika á að vinna HK í fyrsta sinn en Kópavogsbúarnir voru ólmir í að vinna sín fyrstu stig í vetur. Eftir mikinn barning á báða bóga náðu HK-menn markmiði sínu verðskuldað því létu ekki mótlæti hjá dómurum né gróf brot slá sig útaf laginu og unnu 28:26.


HANDKNATTLEIKUR

Fyrsti

sigur HK

HART var barist í Garðabænum í gærkvöldi þegar HK sótti Stjörnuna heim og var mikið í húfi fyrir hvort lið. Stjarnan átti möguleika á að vinna HK í fyrsta sinn en Kópavogsbúarnir voru ólmir í að vinna sín fyrstu stig í vetur. Eftir mikinn barning á báða bóga náðu HK-menn markmiði sínu verðskuldað því létu ekki mótlæti hjá dómurum né gróf brot slá sig útaf laginu og unnu 28:26.

Fram eftir fyrri hálfleik voru heimamenn úti á þekju í sókninni með óöruggu spili fyrir utan og enginn þorði að taka af skarið nema Arnar Pétursson og Björgvin Rúnarsson. Stjörnumenn reyndu samt að taka vörnina alvarlega en horfðu oft hissa á eftir HK-mönnum brjóta sér leið í gegn og ná 7:3 forystu um miðjan fyrri hálfleik. Þá tóku Garðbæingar leikhlé, réðu ráðum sínum og tóku eftir það að saxa á forskot HK með stífari varnarleik og fjölbreyttari sóknarleik þar sem hornamennirnir fengu að láta ljós sitt skína. Hlynur Jóhannesson, stórgóður markvörður HK, sá til þess að munurinn yrði þó tvö mörk í leikhléi, 10:12.

Eftir hlé var greinilega búið að gefa skyttunum Hilmari Þórlindssyni í Stjörnunni og Sverri Björnssyni í HK skotleyfi því hvert þrumuskotið á fætur öðru rataði í netin. Bæði lið brugðust við því með að færa vörnina utar og það dugði til að slá á skotin hjá Hilmari en ekki hjá Sverri, auk þess tók Óskar Elvar Óskarsson fyrirliði HK til sinna ráða og vel útilátið kjaftshögg frá Stjörnumanninum Konráði Olavsyni dugði ekki til að slá hann útaf laginu. Engu að síður náðu Garðbæingar tvívegis að jafna undir lokin en Hlynur í marki HK varði í tvígang áður en yfir lauk og það dugði HK-liðinu til að halda út leikinn.

"Við ræddum um að vinna loksins HK og ætluðum að að láta verða af því en það reyndust orðin tóm því einbeitinguna vantaði ­ verið getur að góður leikur á móti Val hafi stigið okkur til höfuðs," sagði Einar Einarsson leikmaður og þjálfari Stjörnunnar eftir leikinn. Arnar, Björgvin, Birkir Ívar Guðmundsson markvörður og Eduard Moskalenko stóðu sig best af heimamönnum auk þess, sem Hilmar fór í gang eftir hlé en Moskalenko komst upp með grófan leik.

"Þetta var bara eins og venjulega ­ við vitum ekki hvernig á að tapa fyrir Stjörnunni enda hefur það ekki gerst á þessum árum, sem við höfum leikið í 1. deild," sagði Óskar Elvar fyrirliði HK hress en bólginn eftir leikinn. Kópavogsliðið hlaut þar með sín fyrstu stig í vetur því í þetta sinn glutruðu þeir ekki leiknum á síðasta sprettinum, eins og gerst hefur í síðustu leikjum. "Við héldum haus í þetta sinn en það gerði gæfumuninn að vörnin var góð og við börðumst duglega enda vorum við alltaf skrefinu á undan. Það var gaman að fá okkar fyrstu stig í vetur og nú er ísinn brotinn," bætti fyrirliðinn við en hann sýndi oft glæsileg tilþrif og átti meðal annars þrjú glæsileg undirhandarskot. Hlynur í markinu varði vel, Alexander Árnason lét finna rækilega fyrir sér í vörninni en fékk aðeins eina brottvísun og Sverrir og Hjálmar Vilhjálmsson áttu góðan leik. Sigurður Sveinsson þjálfari sat fyrir aftan varamannabekkinn því hann tók út leikbann svo að stórvinur hans, Páll Ólafsson, stýrði liðinu til fyrsta sigurs HK í vetur.

Stefán Stefánsson skrifar