INNHVERF íhugun, slökun eða það ferli að loka sig af, vera einn með sjálfum sér, setjast í hæga stellingu eða leggjast fyrir, loka augunum og hugsa ekki neitt er aðferð vökunnar til að ná sambandi við sinn innri mann og kynnast innlöndum hugans.
Innlönd draumsins

DRAUMSTAFIR Kristjáns FrímannsINNHVERF íhugun, slökun eða það ferli að loka sig af, vera einn með sjálfum sér, setjast í hæga stellingu eða leggjast fyrir, loka augunum og hugsa ekki neitt er aðferð vökunnar til að ná sambandi við sinn innri mann og kynnast innlöndum hugans. Hér á landi færist það í vöxt að menn miðli af visku sinni og kenni öðrum á námskeiðum að virkja hugann til að læra stjórnun á spennu líkamans og ná valdi á ýmsum öðrum þáttum svo sem svefni, geðrænum sveiflum og fíkn. Þá hefur komið út fjöldinn allur af geisladiskum og snældum með tónlist, umhverfishljóðum og seiðandi röddum sem leiða mann í hugarleikfiminni. Kjarninn í þessu er vissa mannsins um að innan veggja hans sjálfs megi finna heim líkt þeim ytri heimi sem við þekkjum og í honum séu ár, fallvötn og landsvæði sem virkja megi til nýsköpunar og gera menn að eigin herrum sín sjálfs. Í sögum, ljóðum og ævintýrum reyna menn að fanga þennan heim sem kallaður er undirvitund eða dulvitund og gera hann sýnilegan vökunni með táknum og myndlíkingum svo hann verði áþreifanlegur líkt og veruleikinn harði og kennileiti hans skýrist þeim er inn vilja sækja. Þessi innri heimur sem sumir kalla Geðheima eða Æðri heima en aðrir nefna hann vitund Guðs er sá heimur sem geymir drauminn. Heim draumsins má virkja nótt sem dag til að ná utan um innri sviðin og beina þeim í þann farveg sem eflir sjálfið í stórvirkjanir hugans vítt og breitt um heimana tvo.

Dagurinn og nóttin

Endalaus er dagurinn.

Hann endar aldrei.

Hann bregður sér aðeins í burtu,

víkur sér hljóðlega afsíðis stutta stund,

sveipar blárri skikkju um herðar sér,

skolar af fótunum í hafinu og fer burt,

síðan kemur hann aftur hlaupandi, með

rósir í vöngum, og svölum, mildum höndum

tekur hann undir höku þér og horfir á þig:

-Vaknarðu bráðum?

-- Endalaus er nóttin. Hún endar aldrei. Hún bregður sér aðeins í burtu skamma stund, svo kemur hún aftur með sóttheit augu og rennvott hár sem af svita og horfir á þig, horfir á þig: - Hversvegna sefurðu ekki? -- Það er enginn endir á gleðinni, ekki á

sársaukanum, ekki á dauðanum, ekki á lífinu. Þau bregða sér aðeins í burtu skamma hríð,

þau fara umhverfis jörðina til annars hjarta, skamma hríð, svo koma þau aftur með sínar varfærnu

raddir: - Sefur þú? Ertu vakandi? -- Það er enginn endir á stjörnunum og

vindinum. Það er bara þú sjálfur sem ert ekki sá er þú heldur. (Rolf Jacobsen.)

Tveir draumar frá "Baldursbrá"

Febrúar 1991.

Í draumi var ég stödd í Þjóðleikhúsinu, ég var að hlusta á óperu. Mér fannst gestirnir sitja sitt hvorum megin við sviðið, raunar inni á því. Mér varð oft litið til hliðar niður af sviðinu og sá þá alltaf stóla eða sætaröð sem var eins og fest hátt uppi á suðurvegg salarins. Mér sundlaði við tilhugsunina um að sitja þar. Ekki var mér mikið skemmt á þessari leiksýningu og var að því komin að læðast út þegar sýningunni var skyndilega lokið og allir streymdu út af sviðinu. Loksins þegar ég kemst út þá fer ég að hugsa um það hvernig ég komist heim til mín, sem mér finnst vera vestur í bæ. Mér fannst ég vera ein og yfirgefin og ætlaði að labba heim þótt mér fyndist það langt. En allt í einu sé ég leigubíl handan götunnar, ég fer upp í hann og bið bílstjórann að aka mér heim. Bílstjórinn ekur af stað en allt aðra leið en ég bjóst við. Hann ók á ógnarhraða niður þrönga dali. Þar voru hús eins og í Ölpunum með háu risi og tindótt brött fjöll. Þrátt fyrir mikinn hraða hafði bílstjórinn fullkomlega vald á bílnum og við eins og runnum niður brunbraut framhjá húsunum og í hinn endann á dalnum. Þar gnæfði fjallshlíðin yfir með stórum björgum á víð og dreif í hlíðinni. Allt í einu erum við komin upp í fjallshlíðina. Það var eins og ég væri rekin áfram af bílstjóranum. Þarna í hlíðinni voru börn, fullt af börnum. Mér fannst þetta allt saman hið glæfralegasta. Tóku nú að hrynja yfir okkur björg úr fjallshlíðinni fyrir ofan okkur. Ég horfði á björgin fljúga yfir okkur niður í dalbotn. Okkur sakaði ekki. Mér fannst bílstjórinn vera að sýna mér þetta, hann var ekki hræddur og það var eins og hann segði að okkur væri öllum óhætt, að við værum með vernd fyrir grjóthruninu.

Ráðning

Í heimi draumsins speglast sjálfið í líki húss og þar sem húsið hér er Þjóðleikhúsið, nær það út fyrir þig og merkir marga aðila, þjóðina. Þú ert áhorfandi og draumurinn er því sýn þín á ytri veruleika og það sem gerist í kringum þig. Þú ert ekki sátt við að suðvesturhornið hreyki sér (sætaröðin uppi á suðurvegg salarins) og dafni eins og púkinn á fjósbitanum á kostnað landsbyggðarinnar. Þér finnst æðibunugangurinn (bílstjórinn ók á ógnarhraða) og hvassa lífsmunstrið (lýsingin á ölpunum) í bænum ógeðfelld og sem einhver ósýnilegur kraftur reki allt áfram (bílstjórinn). Allt er einhvern veginn ógnvænlegt og yfirþyrmandi, samt ertu undir niðri skotin í Reykjavík og sátt við þá móðurlegu forsjá sem borgin veitir. Þarna togast á öfl vegna breyttrar þróunar sem verður ekki afturkölluð, en það má hefja nýja þróun eins og draumurinn gefur í skyn og vekja landsbyggðina af gömlum draumi með afli hugans, tölvutækninni og Netinu.

Dreymt í október 1998

Í draumi var ég stödd á eyju sem mér fannst tilheyra Ástralíu. Ég var gestkomandi ásamt fleira fólki í húsi sem ég þekkti ekki. Einn gestanna er flugmaður, hann hefur atvinnu af því að fljúga með ferðamenn milli meginlands og eyju. Hann fer einnig í útsýnisflug með ferðamenn. Hann er beðinn um að fara með annan mann yfir til meginlandsins. Mér fannst sá maður vera frekar frakkur og ekki mjög svipgóður. Flugmaðurinn vill að ég komi líka í þessa ferð. Hann leggur hart að mér að koma með, en ég er í verunni flughrædd. Eftir nokkra eftirgangsmuni áræði ég að fara með, þrátt fyrir að ég finni ekki manninn minn til að láta hann vita (í draumnum var ég alltaf að bíða hans). Þegar á loft er komið gleymi ég mér og öll flughræðsla er fyrir bí. Flugferðin reynist stórkostleg. Ég sé mikið dýralíf við strönd eyjarinnar og glitrandi sólargeisla speglast í sjónum. Allt iðar af lífi, fuglar, fiskar og dýr merkurinnar, sérlega man ég eftir pardusdýri. Þarna voru ljón, krókódílar og fleira, óargadýr innan um önnur meinlausari, allt í sátt og samlyndi eins og í Edensgarði. Mér líður undarlega. Þegar við komum til meginlandsins finnst mér við vera stödd í borg sem var nútímaleg en allt um kring var skógur með villtum dýrum. Ég var stödd í miðborginni í fjölbýlishúsi hjá fólki sem mér finnst ég þekkja. Ég er alltaf að reyna að hringja í manninn en númerið er langt og síminn eitthvað öðruvísi en hann á að vera, talnaröðin er ekki eins og á venjulegum síma. Ég er einmana og hálf döpur. Nú er aftur komið fararsnið á flugmanninn, í þetta skiptið vill hann að ég komi með sér lengra út á hafið. Hann segir mér frá stað þar sem sé mjög undursamlegt að vera á. Þangað vilji ferðamenn fara og synda í volgum sjónum. Ég sé staðinn fyrir mér, lygnan hafflötinn djúpbláan. Ég reyni enn að hringja í manninn minn án árangurs. Ég ákveð svo að fara með, við það fer um mig straumur, einhverskonar kærleikstilfinning umleikur allt er við lögðum af stað í flugferðina.

Ráðning

Þótt nokkuð langt sé á milli draumanna eru þeir greinar af sama meiði og eiga sér tengingu í ótta þínum við breytingar. Hér ertu sjálfgefnari en í fyrri draumnum og virðist hafa íhugað lengi þennan ugg sem virðist hafa hamlað þér í ákvörðunum. Á hinn bóginn hefur hann ýtt undir hæfileika þinn til sjálfskoðunar, íhugunar og draumapælinga. Draumurinn er uppgjör við hræðsluna sem togar í þig þegar þér býðst að breyta til og svissa yfir í annað munstur. Hann lýsir ferlinu frá baráttunni við að taka ákvörðunina, í það þegar þú kastar þér út í óvissuna til árangurs og hvernig þú síðan magnast af öryggi, hlýju og ró að mæta hverju sem er á vegi þínum. Flugvélin er þarna sálin á ferð (sálfarir), flugmaðurinn Animus, eyjan þitt innra sjálf, borgin ytra sjálfið og hafið speglar þarna örugga sál. Dýrin eru þeir þættir í þér sem þú hefur þurft að kljást við og þar hefur ýmislegt komið á óvart eins og eiginleikar þínir sem pardusdýrs.

Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:

Draumstafir

Morgunblaðið

Kringlunni 1

103 ReykjavíkMynd/Kristján Kristjánsson Um innlönd gegnum nálarauga dagsins.Mynd/Kristján Kristjánsson Yfir nóttina á úlfalda draumsins.