Sýningin er opin á verslunartíma og stendur til 17. október. NÝR og allstór listasalur hefur verið opnaður við Skólavörðustíg og fyrstur sýnir þar Hjörtur Marteinsson skúlptúra undir yfirskriftinni "Myrkurbil". Þar er um að ræða verk úr viði, flest unnin í svokallaðar MDF-plötur, mörg skorin út í ótrúlega fínleg rótarmynstur.
List í svartholi MYNDLIST Listasalurinn Man SKÚLPTÚR HJÖRTUR MARTEINSSON Sýningin er opin á verslunartíma og stendur til 17. október.

NÝR og allstór listasalur hefur verið opnaður við Skólavörðustíg og fyrstur sýnir þar Hjörtur Marteinsson skúlptúra undir yfirskriftinni "Myrkurbil". Þar er um að ræða verk úr viði, flest unnin í svokallaðar MDF-plötur, mörg skorin út í ótrúlega fínleg rótarmynstur. Hugmyndaumhverfi sýningarinnar er stjarngeimurinn og skoðun hans og það mætti jafnvel lýsa verkunum á sýningunni sem tilraunum til eins konar huglægrar og listfengrar stjarnfræði. "Leyndardómar vísindanna" er titill á einu stærsta verkinu á sýningunni þar sem trjádrumbum hefur verið raðað á gólfið í óreglulegan sporbaug um gamla saumavélartösku úr tré. Saumavélartöskur birtast líka í verkinu "Ferðatöskur Vilhjálms Ockhams" sem stillt er upp líkt og gegn leyndardóminum því það var Ockham sem þegar á fjórtándu öld varaði menn við því að gera ráð fyrir einhverju utan reynslusviðs síns til þess eins að skýra það sem þeir skildu ekki innan þess. Hann var rödd skynseminnar við lok miðaldanna og boðaði nýjan skilning. Sýning Hjartar er langt frá því að vera þyngslaleg eða erfið þótt þar sé tekið á stórum og þungum viðfangsefnum, stjörnuþokum og svartholum. Þvert á móti blandar Hjörtur auðveldlega saman formi og frásögn, og víða er húmorinn sterkur, til dæmis í "Sköp vísinda" og sérstaklega í verkinu "Landslag úti í geimnum (sýnishorn af gervihnattamyndum)" þar sem nokkrum kringlóttum flatkökum er raðað upp hlið við hlið og þær líta alveg eins út og ljósmyndir af yfirborði einhverrar framandi stjörnu. Þannig myndar sýningin góða hugmyndalega heild, en hvert verk fær líka að njóta sín á eigin forsendum. Fjögur af fimmtán verkum á sýningunni sýna svarthol, þessi leyndardómsfullu og ósýnilegu göt þar sem veröldin gleypir sjálfa sig, sjálft rúmið afmyndast og jafnvel ljósið sleppur ekki undan. En sýn Hjartar er ekki eins svört og lýsingar vísindamannanna og hér birtist kannski hið móralska inntak sýningarinnar: Inni í miðju síðasta svartholsins í myndröðinni situr lítill ljós kímangi, skorinn í við. Jafnvel innst í myrkrinu bíður nýtt upphaf. Jón Proppé Hornréttur heimur, af sýningu Hjartar Marteinssonar.