EKKI hefur sérstaklega verið leitað álits félagsmálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Austurlandi en Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagðist við umræður á þingi á miðvikudag fylgjast grannt með málinu. Greindi hann jafnframt frá því að von væri á niðurstöðum viðamikillar könnunar, sem ráðgjafarfyrirtæki hefur unnið, um áhrif álbræðslu á Reyðarfjörð.
Fyrirhuguð álbræðsla á Austurlandi Ekki sérstaklega leitað álits félagsmálaráðuneytis

EKKI hefur sérstaklega verið leitað álits félagsmálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Austurlandi en Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagðist við umræður á þingi á miðvikudag fylgjast grannt með málinu. Greindi hann jafnframt frá því að von væri á niðurstöðum viðamikillar könnunar, sem ráðgjafarfyrirtæki hefur unnið, um áhrif álbræðslu á Reyðarfjörð.

Þetta kom fram við umræður sem urðu vegna fyrirspurnar Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, til félagsmálaráðherra um áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag. Vakti Kolbrún athygli á því að einungis 700 manns byggju á Reyðarfirði og aðeins um 3.300 í Fjarðabyggð allri. Gera mætti ráð fyrir að alls myndi íbúum fjölga um næstum 4.000 manns, rísi álbræðsla á svæðinu, og slíkt myndi vitaskuld hafa miklar félagslegar afleiðingar í för með sér.

Í svörum Páls Péturssonar félagsmálaráðherra við fyrirspurnum Kolbrúnar kom fram að ekki hefði verið sérstaklega leitað álits félagsmálaráðuneytisins vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Enn fremur sagði Páll að ekki lægju fyrir upplýsingar um áhrif stóriðjufyrirtækja á fámenn samfélög í öðrum löndum.

"En mér finnst mega leiða líkur að því að svipað muni verða uppi þar og hér um fábreytt atvinnulíf, að það sé áhættusamt í litlum byggðarlögum, alveg eins og þegar fiskur bregst eða kvóti fer, eða kvóti tapast, þá getur það haft mjög slæm áhrif á viðkomandi byggðarlag," sagði Páll.

Kvaðst hann telja að hið sama gilti um byggðarlög sem byggðust á málmbræðslu. "Ef t.d. vegna breyttrar tækni eða hráefnisskorts, eða af öðrum ástæðum, dregur úr framleiðslu snögglega þá skapast auðvitað mikill vandi."

Páll vildi hins vegar ekki samþykkja það mat Kolbrúnar að fyrst og fremst yrði um hefðbundin karlastörf ef álbræðsla risi á Austfjörðum. Minnti hann í því sambandi á að álverið í Straumsvík hefði fengið sérstaka viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir tveimur árum. Það væri ennfremur hans mat að íbúum Austurlands mætti alveg fjölga.

Kom síðan fram í lokaorðum félagsmálaráðherra að ráðgjafarfyrirtæki væri nú að vinna viðamikla könnun um áhrif á Reyðarfjörð. Skýrslan væri væntanleg og hann myndi að sjálfsögðu fylgjast vel með niðurstöðum hennar.