UV Ray er trommuleikari sveitarinnar Soul Coughing sem spilar á tónleikunum í Flugskýli 4 í dag. Hildur Loftsdóttir talaði við hann um hitt og þetta.
UV Ray á Airwaves-tónleikunum í Flugskýli 4 Eru dansskórnir á vísum stað?

UV Ray er trommuleikari sveitarinnar Soul Coughing sem spilar á tónleikunum í Flugskýli 4 í dag. Hildur Loftsdóttir talaði við hann um hitt og þetta.

Í DAG munu Flugleiðir og EMI Music Publishing standa fyrir tónleikum í Flugskýli 4 sem bera nafið Airwaves, og er fjöldi fulltrúa útgáfufyrirtækja mættir til landsins til að kynna sér íslenskar hljómsveitir.

Gus Gus leikur á tónleikunum auk þriggja annarra íslenskra hljómsveita, þeirra Quarashi, Ensími og Toy Machine frá Akureyri. Einnig koma tvær erlendar hljómsveitir fram; Thievery Corporation og UV Ray, öðru nafni Yuval Gabay, sem ásamt tveimur félögum sínum skipar hljómsveitina Soul Coughing, en Yuval er trommuleikari sveitarinnar.

Yuval þessi hefur unnið með mörgum ólíkum tónlistarmönnum eins og Tchad Blake, Mono Puff og Suzanne Vega, auk þess sem hann var mikið í frjálsum djassi The Knitting Factory á sínum tíma. Blaðamaður hringdi í trymbilinn til að fá nánari upplýsingar um tónlistina sem hann og félagar hans ætla að flytja fyrir Íslendinga.

Lifandi tónlist og af skífum

"Ég er eiginlega í annarri hljómsveit samhliða Soul Coughing sem heitir UV Ray og við sem komum til Íslands erum sérstök útgáfa af henni," segir trommuleikarinn Yuval. "Þetta eru bassaleikarinn Tony Manoni sem kemur með mér og annar úr hljómsveitinni sem heitir CX. Við leikum lifandi drum'n'bass- tónlist, hreina danstónlist. Svo ætla ég líka að þeyta skífum inni á milli laga hjá okkur.

Við höfum verið í þessari hljómsveit í rúm tvö ár, en þar sem Soul Coughing hefur haft svo mikið fyrir stafni höfum við ekki getað spilað á mörgum tónleikum. En af og til höldum við almennileg drum'n'bass-kvöld, fáum í lið með okkur nokkra plötusnúða og höldum gott teiti."

­ Hefur UV Ray gefið út plötur?

"Nei, en þær koma út í náinni framtíð. Við erum að vinna að upptökum í augnablikinu, en erum ekki komnir með neitt á band ennþá."

Þekkir nokkra Íslendinga

­ Hlakkar þú til að koma til Íslands?

"Já, mjög mikið. Ég hef aldrei komið þangað, svo ég lít á þetta sem frábært tækifæri og mér er sagt að þetta eigi eftir að verða mjög skemmtilegt."

­ Þekkir þú hljómsveitina Gus Gus?

"Já, ég sá hana á tónleikum í Chicago einu sinni þegar við vorum líka með tónleika þar og og mér finnst hún góð. Svo þekki ég líka Skúla Sverrisson bassaleikara sem býr hér í New York. Og í síðasta laginu sem við í Soul Coughing tókum upp var aðstoðarupptökustjórinn íslenskur, frá Reykjavík. Já, ég þekki nokkra Íslendinga og mun kynnast enn fleiri um næstu helgi. Þetta verður mjög skemmtilegt."

­ Eigum við líka að hlakka til?

"Já, ef allir mæta í dansskónum verður frábært hjá okkur."

Morgunblaðið/Golli