Tony Blair þjarmar
að Lionel Jospin
Tampere. Reuters.
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði Lionel Jospin, frönskum starfsbróður sínum, í gær, að
Bretar væru mjög reiðir Frökkum fyrir að leyfa ekki sölu á bresku nautakjöti. Gaf hann í skyn, að farið yrði með þetta mál fyrir dómstóla ef bannið yrði ekki afnumið og Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hótaði því einnig í gær.
Blair tók Jospin á eintal við upphaf leiðtogafundar Evrópusambandsríkjanna í Tampere í Finnlandi og sagði honum, að breska ríkisstjórnin, bændur og allur almenningur í Bretlandi litu nautakjötsmálið mjög alvarlegum augum. Sagði talsmaður Blairs síðar, að nú væri "ljóst hvað gera þyrfti og því fyrr, því betra". Sagði hann, að Bretar væru mjög reiðir Frökkum fyrir að hunsa ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB í ágúst en þá var þriggja ára bann við innflutningi bresks nautakjöts afnumið. Var það sett á er kúariðan kom upp í breskum nautgripum.
Vísindanefndin sker úr
Öll ríki innan ESB nema Frakkland og Þýskaland hafa afnumið bannið á breska nautakjötinu og Þjóðverjar ætla að gera það fljótlega. Frakkar segjast hafa nýjar sannanir fyrir því, að ekki sé óhætt að leyfa sölu á kjötinu en vísindanefnd ESB hefur ekki lagt blessun sína yfir þær. Kemur hún aftur saman síðar í mánuðinum og mun þá taka af skarið um mótbárur Frakka.
Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í gær, að féllist vísindanefndin ekki á afstöðu Frakka, myndi framkvæmdastjórnin draga frönsku stjórnina fyrir dóm.