Skilgreining á því hvað sé stórt tré er samkvæmt byggingarreglugerð frá 1. júlí 1998 öll tré yfir 4 metrar á hæð. En stórt tré er ekki bara stórt tré. Í litlum garði getur hvaða tré sem er yfir 2 metrar talist stórt tré. Á stórum opnum svæðum vítt og breitt um borgina myndi enginn segja að 2 metra tré væri stórt og ekki heldur 4 metra tré.
BLÓM VIKUNNAR Umsj.: Sigríður Hjartar

Númer 423

Stór tré og klippingar Skilgreining á því hvað sé stórt tré er samkvæmt byggingarreglugerð frá 1. júlí 1998 öll tré yfir 4 metrar á hæð. En stórt tré er ekki bara stórt tré. Í litlum garði getur hvaða tré sem er yfir 2 metrar talist stórt tré. Á stórum opnum svæðum vítt og breitt um borgina myndi enginn segja að 2 metra tré væri stórt og ekki heldur 4 metra tré. Hvergi nema á Íslandi er til opinber skilgreining á háum trjám, hvað þá að 4 metra tré sé hátt og megi ekki fella nema með leyfi byggingaryfirvalda. Sá trjágróður sem mest er notaður í útplöntun hér á landi einkennist af grófgerðum og harðgerðum tegundum sem best henta á stór opin svæði og til skjóls á nýbyggingarsvæðum. Fyrir 30 árum eða svo voru lóðir í íbúðarhverfum töluvert stærri en lóðir eru í dag. Algeng lóðarstærð var 1000­1500 m , en í dag er algeng lóðarstærð um 500­700 m . Fyrir þann tíma voru lóðirnar litlar, eða á bilinu 500­700 m . Það má einnig segja að í tæplega 1500 m lóðir þarf talsvert meiri gróður og stærri tré en í 500 m lóðir. Nú er kominn tími til að grisja og laga til í görðum sem gerðir voru fyrir 20­30 árum. Fæstir sjá fyrir sér hvernig lóðirnar sem þeir plöntuðu í fyrir 20­30 árum myndu líta út eftir jafnlangan tíma. Sumir garðeigendur hafa fylgst með framvindu gróðursins og fellt og endurgróðursett, aðrir hafa ekkert gert umfram klippingu limgerða. Oft á tíðum er ástand garðs sem svo er komið fyrir ekki til fyrirmyndar, nema hugmyndin hafi verið að íbúar hússins ætluðu að búa í skógi. En dimmur garður leiðir einnig af sér dimm híbýli og er líka oftast orsökin fyrir að garðeigendur fara í hár saman við nágranna sína. Önnur hlið á málinu er "níska" garðeigandans, sem tímir hreinlega ekki að klippa grein af trjánum sem hann plantaði fyrir 20­30 árum og hlúð hefur að þeim öll þessi ár. Þar sem mikið er af slíkum gróðursetningum, jafnvel heilu hverfin, þá koma oft upp deilumál meðal nágranna um birtuna á sólpallinn eða ljós fyrir grasið. Það er ekkert óalgengt að finna 8­10 metra há sitkagrenitré og alaskaaspir í lóðum sem eru aðeins um 500­700 m2 að flatarmáli. Við getum bara rétt ímyndað okkur hve miklum skugga þessi tré varpa á nánasta nágrenni og sér í lagi suðurhluta nágrannalóðarinnar. Aftur á móti er ekkert sem mælir á móti því að planta stórvöxnum trjám á norðurmörk lóða við enda byggðar og á jöðrum úthverfa þar sem þau skyggja ekki á suðurmörk neins af nágrönnunum. En er ekki hægt að læra af reynslu undanfarinna ára og hætta að planta þessum trjám sem verða 8­10 metra há á nokkrum árum? Með því mætti fyrirbyggja samskiptavandamál milli nágranna. Það er ennþá verið að planta sitkagreni og alaskaösp í litlar lóðir þótt fyrir séu á markaðnum tré sem eru lágvaxnari og ná þessari hæð ekki á tveimur áratugum. Margir hugsa eflaust sem svo að trén verði ekki vandamál fyrr en þeir eru allir, en þá er það ekki þeirra höfuðverkur. Algengustu deilumál sem Húseigendafélagið fær eru deilur um trjágróður á lóðamörkum. Fyrir slíkar deilur má auðvelda komast með breyttu plöntuvali og leiðbeiningum til garðeigenda um trjáklippingar. Allar trjátegundir þola klippingar. Sumar þola að vera skornar niður að rót eins og víðitegundirnar og endurnýja sig á þann hátt. Hægt er að tefja lengdarvöxtinn með því að klippa toppana ofan af trjánum eins og hægt er að gera við furur. Stórvöxnum trjám í litlum lóðum má auðveldlega halda litlum með reglulegum klippingum og snyrtingum. Japanir hafa mörg hundruð ára reynslu af slíkum klippingum og er þá talað um "Bonsai"-tré. Limgerði úr birki eða reyniviði, sem algengt var að planta á lóðamörk fyrir nokkrum áratugum, má lækka niður í 2 metra og fá fallegt og þétt hekk eftir 2­3 ár. Eins má klippa selju og alaskaösp til og fá fallegar og þéttar krónur. Birkitré má klippa og forma í keilur og kúlur, allt eftir hugmyndaflugi. Það er útbreiddur misskilningur að stór tré þoli ekki klippingu, og eins virðast ríkja ákveðnir fordómar um lögun trjáa. Birki á helst að vera hátt og beinvaxið, en ekki lágt og kræklótt eins og íslenska birkið er, svo dæmi sé nefnt. Það sem hentar í skógrækt hentar ekki í litlar íbúðarhúsalóðir og verður að skilja á milli trjáræktar í litlum görðum og á stórum opnum svæðum. Heppilegasti tíminn til trjáklippinga er að vetrinum (eða snemma vors) þegar laufið er fallið af trjánum og forðanæring þeirra er komin inn í stofn og niður í rætur. Þá sést einnig lögun þeirra vel og auðvelt er að forma tréð/limgerðið á réttan hátt. Yfir sumarið er síðan vetrarklippingunni haldið við og tréð/limgerðið fær fljótlega þá lögun sem því var upphaflega ætlað með formuninni. Með því að klippa tré og limgerði er hægt að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar frá 1. júlí 1998 um hæð á trjágróðri á lóðamörkum og fá lítil tré í litla garða. Heiðrún Guðmundsdóttir líffræðingur.

3­4 metra gömul viðja var söguð niður og gefur nú garðinum japanskt útlit.