ÞUNGAROKKKLÚBBURINN Rándýrið er samansafn af "sveittum rokkurum" sem fá útrás fyrir villidýrið í sér nokkrum sinnum á ári og á næstunni heldur félagsskapurinn upp á fimm ára afmæli. Þeir tóku forskot á sæluna síðastliðinn miðvikudag þegar sveitirnar The Iron Maidens og Kiss tróðu upp á Gauknum. Vakti athygli að stífmálaðir meðlimir Kossins fóru hamförum, bæði í tali og framkomu.
Kiss með óvænta uppákomu á Gauknum

Rándýrið gengur laust

ÞUNGAROKKKLÚBBURINN Rándýrið er samansafn af "sveittum rokkurum" sem fá útrás fyrir villidýrið í sér nokkrum sinnum á ári og á næstunni heldur félagsskapurinn upp á fimm ára afmæli. Þeir tóku forskot á sæluna síðastliðinn miðvikudag þegar sveitirnar The Iron Maidens og Kiss tróðu upp á Gauknum. Vakti athygli að stífmálaðir meðlimir Kossins fóru hamförum, bæði í tali og framkomu. Fremst í flokki fór stjarnan, eða í það minnsta maðurinn með stjörnuna, Paul Stanley, og er Vilhjálmur Goði einkar góður vinur hans. Blaðamaður sló á þráðinn til hans. "Ertu að taka þetta upp," segir Vilhjálmur. "Ég vil ekkert segja um þetta opinberlega," flýtir hann sér að bæta við.

Vakning þungarokksins

Eftir stutt samtal sem algjör leynd hvílir yfir fellst hann á að segja aðeins frá aðdraganda kvöldsins. "Ég og Sveinn Þórir Geirsson leikari hittumst fyrir nokkrum árum og fórum að ræða um Kiss," segir Vilhjálmur. "Okkur fannst frábær hugmynd að halda Kiss-kvöld hérlendis og eftir þó nokkra tilburði í þá áttina datt það upp fyrir vegna kostnaðar, annríkis og skorts á staðfestu. Það var því kærkomið þegar Undirtónar og Rándýrið höfðu samband við okkur og hvöttu okkur til þess að taka þátt í þessari rokkvakningu, - enda alltof mikið af einhæfu poppi sem tröllríður samfélaginu."

Tilefnið kom þegar efnt var til forsýningar á kvikmynd sem Kiss framleiddi og fjallar um fjóra stráka á leið á Kiss-tónleika árið 1978. "Þetta er algjör strákamynd sem okkur fannst stórskemmtileg," segir Vilhjálmur sem ákvað að kýla á Kiss-tónleika í kjölfarið. "Kiss er náttúrlega besta leiðin til þess að vekja athygli á Kiss," segir hann. "Þú ferð ekki að mynda stemmningu fyrir Kiss og hafa ekkert Kiss. Það væri eins og að selja snúða án þess að hafa snúða."

Vitum hvernig þeir hugsa

Vilhjálmur Goði segist þekkja best til Pauls Stanleys af meðlimum Kiss. "Ég get sungið svipað og hann þegar bærilega liggur á," segir hann kæruleysislega. "Sveinn Þórir er sálufélagi Ace Frahley og Bergur Geirsson vinur minn þekkir Gene Simmons vel og nær við hann góðu andlegu sambandi. Gene er svona maður sem sýnir stundum smávegis af tungunni en undir niðri liðast tunguferlíki sem er beintengt við skrambann sjálfan. Svo þekkjum við líka trommuleikarana Peter Chris og Eric Carr. Hannes vinur minn, sem er trymbill Dead Sea Apple, þekkir vel til þeirra. Þannig að við í vinahópnum þekkjum þessa menn og vitum hvernig þeir hugsa."

Að sögn Vilhjálms á hljómsveit eins og Kiss heima á mörg þúsund manna tónleikum en er samt alltaf til í að gera undantekningar til að komast í gömlu góðu klúbbastemmninguna. "Á fyrstu tónleikum sem þeir héldu leigðu þeir risasal, limmósínu og síðasti aurinn fór í bensínið á glæsivagninn. Þeir máluðu sig og höfðu ekki einu sinni efni á hreinsikremi. En þetta skilaði sér í því að allir héldu að þeir væru frægir og þeir hafa eiginlega verið frægir síðan."

Enn að jafna sig...

Aðspurður um hvenær megi vænta næstu heimsóknar frá Kiss segir Vilhjálmur að þeir séu enn að jafna sig eftir Íslandsferðina. "Paul Stanley er nefnilega með ofnæmi fyrir hitaveituvatni. Þeir fóru í Bláa lónið og hárið á þeim varð svo hart að þeir voru alveg í rusli. En það lagaði geðheilsuna svolítið þegar þeir fóru í snjósleðaferð á Mýrdalsjökul með gellum aftaná sem voru í bikiníi. Þannig að þeir lifa í minningunni um góða rokktónleika og fáklæddar konur og eiga sjálfsagt eftir að koma aftur. Ég held þeir hafi verið að spá í að spila einu sinni í nóvember, einu sinni í desember og einu sinni í janúar. Þeir hringja bara - í mesta lagi með þriggja daga fyrirvara - og svo verður bara flogið hingað á einkaþotunni."

En af hverju eru þeir að mála sig? "Þetta er bara leikhúspæling," segir Vilhjálmur Goði viss í sinni sök. "Tónleikar eru þegar allt kemur til alls skemmtanabransi eins og leikhús. Gene Simmons minnir mig t.d. á ævaforna japanska leikhúshefð og menn hljóta að vera að gera eitthvað rétt þegar þeir halda velli í mörg þúsund ár. Skýrar persónur sem breytast ekkert. Höfða sterklega til fólks. Svo er ákveðin dulúðleiki yfir þessu; að bera alltaf sömu andlitin, - þráum við ekki öll ódauðleika?"

Morgunblaðið/Halldór

Stífmálaðir kyssilegir þungarokkarar úr sveitinni Kiss.

Djöfulgangur var kennimerki eitilharðrar The Iron Maidens.

Áhorfendur voru vel með á þungarokksnótunum.

Paul Stanley er stjarna í bókstaflegri merkingu.