Anders Monrad Møller, Henrik Dethlefsen og Hans Chr. Johansen: Sejl og damp. Dansk søfarts historie 5. 1870­1920. København 1998. 268 bls., myndir, kort, línurit. TÍMABILIÐ frá því um 1870 og fram yfir lok fyrri heimsstyrjaldar er eitt hið áhugaverðasta í siglingasögu síðari alda.
(yfir)ERLENDAR BÆKUR

DÖNSK SIGLINGASAGA V

Anders Monrad Møller, Henrik Dethlefsen og Hans Chr. Johansen: Sejl og damp. Dansk søfarts historie 5. 1870­1920.

København 1998.

268 bls., myndir, kort, línurit.

TÍMABILIÐ frá því um 1870 og fram yfir lok fyrri heimsstyrjaldar er eitt hið áhugaverðasta í siglingasögu síðari alda. Þetta var skeið umbrota og breytinga, er gufuskip leystu seglskipin að mestu af hólmi í siglingum um heimshöfin, og undir lok tímabilsins komu fyrstu vélskipin, knúin dísilolíu, til sögunnar. Þau voru dönsk smíð, en tóku ekki að ryðja gufuskipunum úr vegi, svo heitið gæti, fyrr en á millistríðsárunum og þó enn frekar eftir síðari heimsstyrjöld. Má með miklum rétti líta á tímabilið frá því um 1870, og þó sérstaklega frá því um 1890, og fram yfir 1920 sem blómaskeið gufuskipa í heimssiglingum.

Danir voru allt þetta tímabil í fararbroddi meðal siglingaþjóða heimsins og dönsk siglingasaga endurspeglar í flestum meginatriðum þróunina, sem átti sér stað í kaupskipaútgerð þeirra Evrópuþjóða, sem fremstar fóru á þessu sviði. Við upphaf tímabilsins voru seglskip, stór og smá, liðlega 93% danska kaupskipaflotans, í tonnum talið. Þau héldu uppi siglingum um heimshöfin sjö, en voru af mörgum og ólíkum gerðum. Stór og glæsileg barkskip sigldu til fjarlægra landa og álfa og fluttu dýrmætan varning, en sum þeirra komu næsta sjaldan til heimahafnar. Öll voru þau gerð út frá dönskum höfnum og áttu flest heimahöfn í Kaupmannahöfn, en allnokkur voru þó gerð út frá minni stöðum, t.d. eyjunni Fanø við vesturströnd Jótlands. Öll voru þessi skip gerð út af dönskum fyrirtækjum, þau voru að langmestu leyti mönnuð dönskum sjómönnum og voru undantekningarlítið undir stjórn danskra skipstjóra.

Þessi stóru og glæstu skip voru um flest ólík þeim skipum, er sigldu á milli hafna í Danmörku og á hinum skemmri leiðum á Eystrasalti og Norðursjó og til hafna á Íslandi og í Noregi. Þau skip voru af ýmsum gerðum en flest lítil og mörg þeirra voru komin til ára sinna árið 1870, hin elstu um og yfir eitt hundrað ára gömul. Flest þessara skipa voru gerð út af smáfyrirtækjum eða einstaklingum, oft skipstjórunum sjálfum. Siglingar þeirra voru lítt reglubundnar, þau sigldu þegar farm var að fá og héldu þangað, sem senda þurfti vöru hverju sinni. Ólíkt stóru skipunum, sem voru í langsiglingum með fjölmennar áhafnir, voru skipverjar á litlu skipunum fáir, stundum aðeins þrír til sex og allir frá útgerðarstaðnum, jafnvel allir úr einni og sömu fjölskyldu.

Um 1920 voru gufuskip um 66% danska kaupskipaflotans og þá hafði allt fyrirkomulag útgerðarinnar einnig breyst verulega frá því sem var um 1870. Stórfyrirtæki á borð við DFDS og ØK voru komin til sögunnar og gerðu út mörg skip hvert. Fyrir þessi fyrirtæki, sem mörg voru stofnuð á síðustu tveimur áratugum 19. aldar, skipti mestu máli að halda sem bestri reglu á siglingunum og því héldu mörg þeirra uppi áætlunarsiglingum og/eða föstum reglubundnum siglingum á milli hafna í Evrópu, yfir Atlantshaf, á Miðjarðarhafi og austur til Asíu. Fyrsta blómaskeið þessara fyrirtækja var tímabilið frá því um 1890 og fram til 1914. Heimsstyrjöldin olli mörgum þeirra þungum búsifjum en margir útgerðarmenn græddu líka á tá og fingri á stríðsárunum.

Í 5. bindi siglingasögu Dana segir gjörla af þróun danskrar kaupskipaútgerðar og útgerðarhátta á tímabilinu 1870­1920. Auk útgerðarsögunnar sjálfrar eru í bókinni fræðandi og áhugaverðir kaflar um líf og starf sjómanna, kjör þeirra og kjarabaráttu, um breytingar og þróun í siglingatækni og hafnargerð, um samkeppni útgerðarfélaga og járnbrautarfyrirtækja og skemmtilegir þættir eru um einstaklinga, sem mótuðu söguna og settu svip á hana um lengri eða skemmri tíma. Í bókarlok er svo einkar athyglisverður kafli um stöðu rannsókna á danskri siglingasögu.

Eins og önnur bindi í þessari ritröð er þessi bók ágætlega skrifuð og prýdd miklum fjölda mynda, korta og línurita. Margar myndanna hafa sjálfstætt heimildagildi og miklum fróðleik er fyrirkomið í myndatextum. Í bókarlok er að finna allar nauðsynlegar og hefðbundnar skrár.

Lítið sem ekkert er í þessari bók fjallað um Íslandssiglingar Dana á tímabilinu, og munu þær þó hafa verið meiri og tíðari á þessum árum en nokkru sinni fyrr. Þögn höfunda um þennan þátt stafar þó ekki af neins konar tómlæti, en segir á hinn bóginn mikið um þróun mála í danskri kaupskipaútgerð. Þegar hér var komið sögu, voru Danir orðnir svo umsvifamiklir í heimssiglingum að siglingar til Íslands skiptu æ minna máli fyrir útgerð þeirra. Breytti þá engu þótt ferðum hingað til lands fjölgaði ár frá ári og flutningar ykjust.

Jón Þ. ÞórThingvalla hét þetta stolta, danska fley og hljóp af stokkunum hjá Burmeister & Wain 1874. Skipið var í förum til ársins 1900, en þá selt til Noregs þar sem það eyðilagðist.