Hefja verður framkvæmdir í réttu efnahagsástandi
Hvaða áhrif munu fyrirhugaðar stórframkvæmdir á Austurlandi, bygging álvers á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun hafa á þjóðhagsspá, þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við virkjunina á miðju næsta ári? Morgunblaðið leitaði svara við þeirri spurningu hjá forstjóra Þjóðhagsstofnunar og aðalhagfræðingi Seðlabanka Íslands.
ÞJÓÐHAGSSPÁ gerir ráð fyrir 2,7% hagvexti á næsta ári og um 2% hagvexti að jafnaði á árunum 20012004. Spáin miðar við "mjúklendingu" hagkerfisins miðað við þá þenslu sem einkennir hagkerfið í dag. Ein af meginforsendum þessarar spár er að ekki verði ráðist í aðrar stóriðjuframkvæmdir á tímabilinu en þær sem þegar hefur verið samið um, þ.e. stækkun Norðuráls um 30 þúsund tonn og framkvæmdir henni tengdar, t.d. Vatnsfellsvirkjun.
Að sögn Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar og formanns samráðsnefndar íslenskra stjórnvalda, íslenskra fjárfesta, Landsvirkjunar og Hydro Aluminium, verður tekin ákvörðun í byrjun júní á næsta ári hvort ráðist verður í framkvæmdir álvers á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun.
Ef af framkvæmdunum verður munu þær hefjast skömmu síðar, eða þá um sumarið, sem er forsenda fyrir því að virkjunin geti verið tilbúin fyrir lok árs 2003 þegar álverið á að hefja rekstur. Árið 2000 hefjast framkvæmdir fyrst og fremst við jarðgöng virkjunarinnar, sem eiga að vera um rúmlega 30 km löng en reiknað er með að framkvæmdir hefjist að fullu bæði við virkjunina og álverið árið 2001.
Hafa veruleg þjóðhagsleg áhrif á framkvæmdatíma
"Fljótsdalsvirkjun og álver á Reyðarfirði eru ekki inni í þjóðhagsáætlun vegna þess að það hefur ekki verið tekin ákvörðun um byggingu álversins á Reyðarfirði og ekki er ætlunin að undirrita samning þess efnis fyrr en í byrjun júní á næsta ári. Framkvæmdirnar skipta hins vegar mjög litlu máli fyrir árið 2000 vegna þess að þær hefjast ekki nema að mjög litlu leyti á því ári og kostnaður við þær verða innan við milljarð króna svo það hefur mjög lítil áhrif í þjóðhagslegu samhengi," segir Þórður.
Árið 2001 má hins vegar búast við verulegum þjóðhagslegum áhrifum af framkvæmdunum, verði af þeim, segir Þórður. Hann segir að standist þjóðhagsáætlun, en hún gerir ráð fyrir 2% hagvexti á framkvæmdatímanum, árin 20012004, muni framkvæmdirnar væntanlega auka hagvöxt um 1% á þeim árum.
"3% hagvöxtur er líklega nálægt því að vera jafnvægishagvöxtur í íslenska hagkerfinu þannig að það ætti að vera svigrúm fyrir slíkan hagvöxt og slíkar framkvæmdir miðað við að þjóðhagsáætlun standist. Þensluhættan ætti að vera liðin hjá á þeim tíma ef þjóðhagsspá gengur eftir," segir Þórður.
Aðspurður segir hann að gangi þjóðhagsspá ekki eftir og meiri þensla verði í þjóðfélaginu en spáin geri ráð fyrir, sé mikilvægt að hafa efnahagsástandið í huga þegar ákvörðun verður tekin um framkvæmdirnar í júní á næsta ári.
Best að hefja framkvæmdir í slaka
Már Guðmundsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að tímasetning jafnstórra framkvæmda og um ræðir skipti verulegu máli. "Við vitum ekki hvert ástandið í íslenskum efnahagsmálum verður árið 2001. Auðvitað hafa menn efasemdir um að það hægi jafnmikið á hagvextinum árið 2000 og Þjóðhagsstofnun er að spá, en við vonum að það hægi eitthvað á honum. Það er verið að herða að hér í peningamálum og í ríkisfjármálum og það getur smám saman farið að skila sér í minni hagvexti sérstaklega á árinu 2001. Þá þarf það ekki að vera slæmur tími til að fara út í svona framkvæmd," segir Már.
Hann segir að besti tíminn til að hefja svo miklar framkvæmdir sé þegar slaki er á hagkerfinu. "Það er alls ekki slaki í ár, ólíklegt að svo verði á næsta ári nema miklar breytingar verði á ástandinu á næstu vikum eða mánuðum, og við vitum ekki hvernig ástandið mun verða árið 2001." Már segir að verst sé að hefja slíkar framkvæmdir þegar mikil þensla sé í þjóðfélaginu og skortur á vinnuafli.