ÞAÐ VERÐUR vafalaust líf og fjör í Flugskýli 4 við Reykjavíkurflugvöll í kvöld þegar fjöldi hljómsveita, innlendra sem erlendra, treður upp frammi fyrir hópi gesta frá erlendum fjölmiðlum og útgáfufyrirtækjum auk óbrotinna áhorfenda.
Airwaves-tónleikarnir í kvöld Viljum ekki skilgreina tónlist okkar

ÞAÐ VERÐUR vafalaust líf og fjör í Flugskýli 4 við Reykjavíkurflugvöll í kvöld þegar fjöldi hljómsveita, innlendra sem erlendra, treður upp frammi fyrir hópi gesta frá erlendum fjölmiðlum og útgáfufyrirtækjum auk óbrotinna áhorfenda. Tónleikar þessir eru haldnir í samstarfi Flugleiða, Flugfélags Íslands og EMI-útgáfurisans og er bæði ætlað að koma á framfæri hæfileikaríkum og efnilegum íslenskum hljómsveitum og einnig að kveikja áhuga ungs fólks um allan heim á Íslandi.

Meðal þeirra erlendu sveita sem koma fram í kvöld eru félagarnir Eric Hilton og Rob Garza í bandarísku sveitinni Thievery Corporation en lög þeirra "33 45" og "Lebanese blond" hafa verið vinsæl á öldum ljósvakans hérlendis að undanförnu. Eigið hljóðver

"Við erum mjög ánægðir með að vera komnir til Íslands," segja þeir Rob og Eric glaðbeittir á svip. "Við flugum beint hingað frá Washington DC sem var löng en skemmtileg flugferð," bætir Eric við hlæjandi.

Thievery Corporation eiga sitt eigið hljóðver og útgáfufyrirtæki og segja það einkar hentugt fyrir hljómsveitir sem leika neðanjarðartónlist. "Með þessum hætti fáum við að ráða öllu ferlinu, engir aðrir eru með puttana í því sem við erum að gera," segir Rob. "Ef maður er á samningi hjá stóru útgáfufyrirtæki fá þeir mestan hagnaðinn af plötusölunni en ef maður á sjálfur útgáfuna skilar hagnaðurinn sér beint í eigin vasa," segir Eric. "Það hentar tónlistarmönnum sem selja milljónir platna á hverju ári að vera hjá stórum útgáfufyrirtækjum en ekki listamönnum eins og okkur."

Ný plata í uppsiglingu

Fyrsta breiðskífa sveitarinnar kom út árið 1996 og bar nafnið "Sounds From The Thievery Hi Fi" og vakti strax mikinn áhuga unnenda neðanjarðartónlistar. Síðan þá hafa þeir gefið út tvær aðrar plötur og sú fjórða, og önnur plata þeirra í fullri lengd, er í fæðingu um þessar mundir og væntanleg í verslanir í febrúar á næsta ári. "Við höldum ekki oft tónleika," segir Rob. "En við ætlum að gera meira af því eftir að nýja platan okkar er komin út."

­ En af hverju haldið þið núna tónleika á Íslandi?

"Okkur var boðið hingað," segja þeir í kór og hlæja. "Við þekkjum Magnús Stephensen [markaðsstjóra Flugleiða í Bandaríkjunum] og hann var alltaf að segja okkur að koma til Íslands. Við höfum heyrt svo margt gott um þetta land," segir Rob. "Við skiptum við sama útgáfufyrirtæki í Evrópu og Gus Gus svo að við höfðum næga ástæðu til að koma hingað."

­ Fólki finnst erfitt að flokka tónlist ykkar, en hvernig skilgreinið þið hana sjálfir?

"Við reynum ekkert að skilgreina hana. Við erum mjög ánægðir með að fólki reynist erfitt að setja hana í einhvern flokk," segir Eric. "Ef auðvelt væri að skilgreina hana þýddi það að hún væri lík einhverju sem aðrir eru að gera og það viljum við ekki." Rob tekur undir það og bætir við: "Við viljum bara að hún sé flokkuð sem góð tónlist."

Eiga næturklúbb

Eric á í félagi við aðra næturklúbb í Washington og Rob rekur staðinn. "Það fer ágætlega saman að eiga næturklúbb og vera í hljómsveit," segir Eric. "Plötusnúðarnir á staðnum spila oft okkar efni svo þetta er góð leið til að prófa hvernig tónlistin okkar leggst í áheyrendur og einnig að heyra aðra tónlist."

Með Thievery Corporation eru hér staddir tveir félagar þeirra frá Washington sem sjá m.a. um dansinn á sviðinu. "Það væri ekki við hæfi að við færum að dansa," segir Eric og hlær. "En við ætlum að spila fullt af nýju efni í kvöld og hlökkum til að heyra í hinum hljómsveitunum."

Á döfinni var að bjóða Eric og Rob ásamt öðrum erlendum gestum Airwaves-tónleikanna í flúðasiglingu og voru þeir heldur kvíðnir. "Verður manni ekki hræðilega kalt?" spurði Eric blaðamann og hryllti sig. "Mér verður svo fljótt kalt, ég væri meira til í að flatmaga í Bláa lóninu í dag en ég kemst víst ekki undan þessu," segir hann og brosir. Eftir að blaðamaður hafði lýst eigin upplifun af ævintýraferð um jökullitað straumvatn varð léttara yfir þeim félögum og vottaði jafnvel fyrir spenningi þegar þeir kvöddu og héldu á vit örlaganna.

Morgunblaðið/Golli Thievery Corporation verða í Flugskýli 4 í kvöld.