Öld er liðin frá fæðingu Þorsteins Þ. Víglundssonar, sem kom til Vestmannaeyja frá Norðfirði og var af sumum talinn heldur vafasöm sending, en Þorsteinn varð með tímanum heiðursborgari í Vestmannaeyjum. Hann hóf feril sinn þar sem "barnafræðari", síðan varð hann skólastjóri Gagnfræðaskólans, stofnandi Sparisjóðsins og Byggðasafnsins, óþreytandi til hinstu stundar að vinna að bættu mannlífi.
HUGSJÓNAMAÐUR Í
LANDI TÆKIFÆRANNAEFTIR ÞÓR SIGFÚSSON
Öld er liðin frá fæðingu Þorsteins Þ. Víglundssonar, sem kom til Vestmannaeyja frá Norðfirði og var af sumum talinn heldur vafasöm sending, en Þorsteinn varð með tímanum heiðursborgari í Vestmannaeyjum. Hann hóf feril sinn þar sem "barnafræðari", síðan varð hann skólastjóri Gagnfræðaskólans, stofnandi Sparisjóðsins og Byggðasafnsins, óþreytandi til hinstu stundar að vinna að bættu mannlífi.
HAUSTIÐ 1927 stigu á skipsfjöl nýgift hjón, Þorsteinn Þ. Víglundsson 28 ára gamall nýútskrifaður kennari og Ingigerður Jóhannsdóttir sem þá var 25 ára. Ferðinni var heitið til Vestmannaeyja. Þau höfðu aldrei áður komið til Eyja en hann hafði verið skipaður í starf skólastjóra Unglingaskóla Vestmannaeyja.
Það hafði spurst út meðal áhrifamanna í Eyjum að von væri á nýjum skólastjóra við Unglingaskólann. Þeir vissu að þessi ungi maður kom frá Norðfirði en það þótti ekki veita á gott í því pólitíska landslagi sem var í Eyjum á þessum tíma. Meira vissu þeir samt ekki og örugglega gerði enginn sér í hugarlund hversu mikill styr átti eftir að standa um hugsjónir og lífsstarf Þorsteins Þ. Víglundssonar í Vestmannaeyjum næstu 40 árin þar á eftir.
Nýi skólastjórinn hafði fengið um það bréf frá barnaskólastjóranum í Eyjum að Unglingaskólinn væri starfræktur fimm mánuði á ári og að hér væri aðeins um vísi að skóla að ræða "og við vonum að með tímanum takist að gera úr honum skóla á tryggum grundvelli." Þorsteinn vissi þá reyndar ekki að tveir ágætir menn höfðu áður reynt að auka veg Unglingaskólans í Eyjum með litlum árangri þó. Þegar hann kom til vinnu daginn eftir komuna til Eyja voru einungis þrír dagar í skólasetningu. Þá höfðu 9 nemendur skráð sig í skólann en á annað hundrað unglingar á aldrinum 1417 ára voru í Vestmannaeyjum á þessum tíma. Nýi skólastjórinn hélt strax á fund sóknarprestsins sr. Sigurjóns Árnasonar og kom þeim saman um að Þorsteinn mætti á fund hjá Verkamannafélaginu Drífanda og hjá bindindisstúkunni Báru og kynnti fyrirhugað starf Unglingaskólans. Þremur dögum síðar voru 22 nemendur mættir í kennslu í Unglingaskóla Vestmannaeyja.
Skólinn var aðeins starfræktur í fimm mánuði en þessi tími var vel nýttur. Á daginn fór fram kennsla en á kvöldin var félagsstarf í umsjá skólastjórans. Þegar leið á fyrsta misserið hófu nemendur undirskriftasöfnun og óskuðu eftir því við bæjaryfirvöld að námið yrði framlengt um 1 mánuð. Það fékkst samþykkt og var aldrei eftir þetta rætt um að skólinn starfaði skemur en 6 mánuði á ári. Laun skólastjóra Unglingaskólans voru lág og til að drýgja tekjurnar hóf Þorsteinn að kenna við barnaskólann. Fljótlega varð hann var við að ekki var óalgengt að slorlyktina legði af drengjunum í barnaskólanum. "Þá varð ég líka þess áskynja, hvers kyns ljósu blettirnir voru, sem sáust á boðöngum og krögum drengjanna. Þetta voru sem sé slormengaðar minjar eftir að hafa hrært í slorkörum og slógstömpum á morgnana í leit að lifrarbroddum, áður en farið var í skólann." Annars var kannski ekki að vænta í litlu fiskiþorpi en að allir legðu hönd á plóg til verðmætasköpunar en skólamaðurinn fann snemma fyrir því að áhugi fyrir skólamálum var takmarkaður; það var viðhorf margra að alþýða manna þyrfti ekki á lestrar- eða reikningskunnáttu að halda til að vinna allflest störf í verstöðinni Vestmannaeyjum. Þessi viðhorf voru ekki bundin við Vestmannaeyjar heldur ríktu þau víða um land um þessar mundir.
Land tækifæranna
Nýi skólastjórinn vann ýmis verkamannastörf stærstan hluta ársins og gekk þá meðal annars í Verkamannafélagið Drífanda. Grunsemdir áhrifamanna um að pólitískar skoðanir unga skólastjórans væru andstæðar þeirra eigin reyndust þá á rökum reistar! Árið 1929 var haldinn opinn þingmálafundur í Eyjum. Þá stóð upp ungi skólastjórinn. Hann var snyrtilega klæddur, í hvítri skyrtu með stífum kraga og í jakkafötum með samlitu vesti. Þetta var í fyrsta skipti sem hann stóð upp á opnum fundi í Eyjum. Í ræðu sinni lét hann m.a. "nokkur hlýleg orð falla um samvinnuhreyfinguna og nauðsyn þess, að sjómenn og verkafólk um land allt stæði saman, tæki höndum saman til eflingar verslunarsamtökum almennings í landinu og um leið til styrktar sínum eigin hagsmunum." Það var timburgólf í fundarsalnum og stappið í fundarmönnum og óp yfirgnæfðu unga skólamanninn. Hann fékk að ljúka máli sínu og settist á meðal fundarmanna. Þá stóð upp þingmaður Eyjanna og lýsti því yfir að þessi "barnafræðari", væri greinilega "útsendari" dómsmálaráðherrans, sem einnig var þá kennslumálaráðherra. Strax eftir fundinn barst Unglingaskólanum bréf þar sem foreldri sagðist taka barnið sitt úr skólanum og litlu síðar birtist pistill í Víði þar sem stóð skrifað: "Bolsaklíkan getur hrósað happi yfir því að hafa nú fengið þennan afdankaða leiðtoga af Norðfirði til þess að flónskast hér á opinberum fundum." Uppnefnin voru helst "barnafræðari" eða "unglingafræðari" en í þeim titlum átti að felast spottið og fyrirlitningin sem lýsti ríkjandi viðhorfum.
Í þessari orrahríð hlaut að brjótast í ungu hjónunum frá Norðfirði hvort þau væru á röngum stað og hvort nýi skólastjórinn ætti að kjósa friðinn og ef til vill þar með skólanum gæfu og gengi. Áhugi áhrifamanna fyrir barnaskólanum var reyndar afar lítill þrátt fyrir að barnaskólastjórinn væri hvorki frá Norðfirði né talinn handbendi Jónasar frá Hriflu. Átti nýi skólastjórinn að þola þennan mótbyr eða halda upp á land að nýju og byrja í raun að nýju á lífsstarfinu? Þorsteinn segir sjálfur svo frá: "Smám saman fann ég það æ glöggar, að leynd áhrif hins mennilega æskuheimilis míns orkuðu á viljann og hugsunina. Þar ríkti alltaf trúarhiti án alls þröngsýnis eða ofstækis. ... Aldrei að víkja frá góðum málstað." Hann varð þess líka áskynja að foreldrar vildu mennta börn sín, hann hafði eignast trausta vini í Eyjum og hann vildi ekki gefast upp, þetta var hans fyrsta starf og ef þau flýðu af hólmi var óvíst hvort jafngóð tækifæri biðu þeirra.
Á þessum fyrstu árum starfsævinnar varð þeim hjónum ljóst að þrátt fyrir mótbyr var þetta land tækifæranna fyrir hugsjóna- og skólamanninn, þarna var mikið verk að vinna. Starfsskilyrði skólans voru mjög léleg og fáir nemendur sóttu námið, bókasafn bæjarins var einn mygluhaugur og menningarverðmæti fóru í súginn. Bindindismál voru Þorsteini einnig mikið hjartansmál og áfengisneysla í Eyjum hafði farið vaxandi. Næstu ár gátu falið í sér gullin tækifæri fyrir miðlun þekkingar og menningar Vestmannaeyja en þau gátu líka orðið ár hinna glötuðu tækifæra þar sem afturhald og þröngsýni réðu ríkjum.
Skólamál í öndvegi
Starf Unglingaskólans gekk vel fyrstu árin. Árið 1930 voru nemendurnir orðnir 47 talsins, félagsstarf var öflugt og tæpur helmingur nemenda tók þátt í bindindisstarfi í Eyjum. Þá hafði skólastjórinn fengið nemendur til liðs við sig í söfnun gamalla muna en hann hafði fengið þá hugdettu eftir að hafa kynnst byggðasöfnum í Noregi á skólaárum sínum. Það var fullt að gera og vaxandi kraftur í skólastarfinu. Þá var lögum breytt og Unglingaskólinn gerður að Gagnfræðaskóla. Árið 1931 skyldi auglýsa stöðu skólastjóra hins nýja Gagnfræðaskóla sem var gert. Duglega Norðfirðinginn átti ekki að styðja. Skólanefndin fékk guðfræðikandídat til að sækja um stöðuna og fór svo að ungi skólastjórinn fékk aðeins eitt atkvæði í skólanefnd, sr. Sigurjóns Árnasonar prests. Kennslumálaráðherrann, Jónas Jónsson frá Hriflu, skipaði hins vegar Þorstein Þ. Víglundsson skólastjóra Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja. Hjá andstæðingum skólastjórans var þetta kallað "hneykslismál" og vísbending um það að Þorsteinn væri handbendi ráðherrans. Þorsteinn var hins vegar á þessum árum alþýðuflokksmaður en ekki framsóknarmaður eins og Jónas. Hins vegar átti hann sér traustan fylgismann sem var Ásgeir Ásgeirsson, fræðslumálastjóri og fyrrverandi kennari Þorsteins í Kennaraskólanum, en hann hafði beitt sér fyrir því að Þorsteinn fengi stöðuna.
Árásir á skólastjórann héldu áfram. Í blaðagrein einni árið 1933 var fullyrt að íslenskukennsla í Gagnfræðaskólanum væri mjög léleg, "...og svo verður aumingja bæjarsjóður að standa straum af þessum skóla." Ungi skólastjórinn sat agndofa á heimili sínu yfir þessari níðgrein en fátt hefur sært hann meira en efasemdir um getu hans til að kenna móðurmálið. Nú eins og oft síðar reyndi á eiginkonuna, Ingigerði, sem þá var rétt þrítug. Hún taldi kjark í eiginmann sinn en sá til þess um leið að þrátt fyrir að gustaði um persónu hans úti fyrir þá ríkti eining og friður á heimilinu. Heimilið varð griðastaður hugsjónamannsins og þangað skyldu ekki flutt inn öll deiluefni líðandi stundar í Eyjum. Ungu hjónin ákváðu að láta ekki bugast. Eftir þessi skrif reyndust nemendur hans aldrei betri og ljúfari í samvinnu. "Þetta var reynsla mín yfirleitt af Eyjafólki, þegar á reyndi," sagði Þorsteinn síðar í grein. Nokkru síðar voru birtar niðurstöður úr landsprófi þar sem nemendur úr Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja fengu hæstu meðaleinkunn á landsvísu.
Skólinn efldist og félagslíf var í miklum blóma. Mikið hafði safnast af munum í Byggðasafn Vestmannaeyja sem hafði ekkert húsnæði. Hafin var útgáfa á blaði Málfundafélags Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum sem nefnt var Blik. Á skrifum Þorsteins í Blik mátti sjá hversu hann kappkostaði að ungt fólk setti sér lífsreglur. "Spakur maður hefir sagt, að gleggstu einkenni frjálsa sjálfstæða mannsins væru þau, að hann gerði hiklaust, það sem samviska segði honum, að væri satt og rétt, hvað sem það kostaði hann." Þá fjallaði hann einnig mikið um bindindismál. Hann eignaðist trausta vini sem sameinuðust í bindindisstarfinu og tengdust órjúfanlegum vináttuböndum sem áttu eftir að styrkja Þorstein í hugsjónastarfi á öðrum sviðum. Þetta voru m.a. þeir sr. Jes A. Gíslason og Magnús Guðmundsson bóndi á Vesturhúsum.
Árið 1942 hittust Þorsteinn og Jóhann Sigfússon útgerðarmaður og forstjóri Vinnslustöðvarinnar á tröppum Tangaverslunarinnar. "Þorsteinn", sagði Jóhann, "við eigum að stofna sparisjóð hérna í kaupstaðnum." "Mæltu manna heilastur. Þetta skulum við gera." Þorsteinn hóf söfnun undirskrifta og sinnti öðrum undirbúningi. Ári síðar var Sparisjóður Vestmannaeyja stofnaður og sparisjóðsstjóri varð Þorsteinn Þ. Víglundsson. Sparisjóðurinn var fyrst og fremst settur á stofn í þágu heimilanna í Eyjum. Hann skyldi lána til húsbygginga og treysta hag heimilanna. Stofnun Sparisjóðsins átti eftir að verða meiri lyftistöng fyrir menningu í Eyjum en nokkurn óraði fyrir og átti það ekki síst við um uppbyggingu Gagnfræðaskólans sem var skólastjóranum mikið kappsmál.
Í upphafi voru lítil innlegg í Sparisjóðinn enda lítið um sparifé fólks. Á fyrstu mánuðum Sparisjóðsins fékk sparisjóðsstjórinn lánaða reikningsvél hjá einum af ábyrgðarmönnum sparisjóðsins, hún fékkst að láni að morgni og átti að skila henni aftur að kvöldi. Þrátt fyrir lítið fé í upphafi fór sparifé smám saman að streyma inn og Sparisjóðurinn jók útlán til heimila í Vestmannaeyjum.
Tveimur árum síðar, árið 1944, voru tíu ár síðan Þorsteinn hafði fengið fyrstu tillögur að útliti byggingar fyrir Gagnfræðaskólann frá Ólafi Kristjánssyni sem hafði stundað húsateikningar í Eyjum að loknu iðnskólanámi. Þá var samþykkt í bæjarstjórn Vestmannaeyja tillaga Páls V.G. Kolka læknis að kaupa land suður af Landakirkju þar sem skólinn skyldi standa. Þá birtist grein í blaði í Eyjum þar sem því var lýst yfir að aldrei yrði byggt nýtt Gagnfræðaskólahús í Eyjum ef skólinn yrði undir stjórn Þorsteins Þ. Víglundssonar.
Árið 1946 komust samflokksmenn Þorsteins til valda í bæjarstjórn Vestmannaeyja og flest snerist Gagnfræðaskólanum í vil. Nú var hafist handa um byggingarframkvæmdir. Á þessum haftatímum var skortur á flestum innflutningsvörum þ.á m. sementi og því varð byggingarsagan skrautlegri og lengri en til stóð í fyrstu. Illa gekk að fá leyfi til innflutnings á sementi í bygginguna og einnig voru fjármunir af skornum skammti. Sparisjóður Vestmannaeyja lánaði til framkvæmdanna en aðrir bankar vildu ekki lána í bygginguna. Reyndar keypti Landsbankinn víxil af Gagnfræðaskólanum en skólastjórinn gekk í ábyrgð fyrir hann. Það fannst honum skrýtið enda átti hann lítið annað en hálfklárað hús við Kirkjubæjarbraut í Vestmannaeyjum.
Árið 1948 hittust Ólafur Kristjánsson bæjarstjóri og Þorsteinn og tjáði bæjarstjóri honum að hann hefði látið leggja til hliðar 60 lestir af sementi fyrir bygginguna. "Án allra leyfa?" spurði Þorsteinn. "Já," svaraði bæjarstjóri. "Hvað kostar það okkur báða?" "Aldrei meira en tugthús," svaraði bæjarstjórinn og brosti. Byggingarframkvæmdir hófust og steyptar voru undirstöður. Byrja átti að steypa undirstöður fimleikahússins sumarið 1949 en fyrst þurfti að grafa fyrir grunni byggingarinnar. Síldarvertíð var hafin og engan mann að fá, sem inna vildi þetta verk af hendi. Það varð því að ráði, að skólastjórinn gróf sjálfur fyrir grunninum ásamt þrekmiklum unglingi, Guðmundi Guðmundssyni. Byggingarframkvæmdir voru því hafnar en 7 ár voru þó í það að byggingin kláraðist.
Eftir 14 ára uppbyggingarstarf tók Þorsteinn sér ársleyfi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þau hjón héldu til Noregs í því skyni að kynna land og þjóð í um 50 byggðum Noregs. Að lokinni ferðinni skoruðu ýmsir Norðmenn á hann að taka saman norsk-íslenska orðabók. Hann tók þessari áskorun og hóf þegar vinnu við undirbúning verksins.
Þegar heim kom tók hann af auknum krafti þátt í bæjarmálum. Hann lagði fram frumtillögu um rafkapal milli lands og Eyja á bæjarstjórnarfundi og beitti sér fyrir bættum mjólkurflutningum milli lands og Eyja. Það sem þótti eftirtektarverðast í bæjarmálapólitíkinni á þessum árum var að Norðfirðingurinn og bolsévíkinn, eins og andstæðingarnir höfðu kallað hann, fylgdi sannfæringu sinni og studdi tillögu sjálfstæðismanna um að selja togara bæjarútgerðarinnar úr bænum. Þessi ákvörðun reyndist farsæl fyrir bæjarfélagið sem var skuldum vafið um þetta leyti.
En bygging Gagnfræðaskólans átti hug hans allan. Ekki var lokið píslargöngu milli stofnana í Reykjavík til þess að kría út tilskilin leyfi og fjármunir höfðu gengið til þurrðar. Enn var það Sparisjóðurinn sem hljóp undir bagga með Gagnfræðaskólanum. Þá lögðu nemendur, starfsmenn og skólastjórinn fram ómælda vinnu við byggingu skólans. Þó vann skólastjórinn aldrei við bygginguna nema til klukkan þrjú á daginn, því að klukkan fjögur varð hann að sinna skyldustörfum sínum sem sparisjóðsstjóri. Árið 1956 var þetta 8.500 rúmmetra skólahús að mestu fullbúið. Í lokatörninni hafði skólastjórinn notið aðstoðar þáverandi menntamálaráðherra Bjarna Benediktssonar sem hann sagði sjálfur að hefði verið sinn besti yfirmaður. Gagnfræðaskólabyggingin reyndist ein hlutfallslega ódýrasta bygging sem reist hafði verið á vegum hins opinbera árin 19471956.
Safn og saga
Um 25 ár liðu frá því Þorsteinn kynnti hugmyndir um nýja byggingu Gagnfræðaskólahússins þar til hún var fullkláruð. Með þrautseigju hafði nú ein hugsjónin ræst en skólastjórinn var kominn á besta aldur, rétt undir sextugt, og áhugi hans á söfnun og varðveislu gamalla muna og sögu Vestmannaeyja hafði farið vaxandi. Hanabjálkinn í Gagnfræðaskólahúsinu og í Goðasteini, íbúðarhúsi þeirra hjóna, geymdu hluti sem flestir höfðu talið einskis virði. Á hanabjálkanum í Goðasteini voru m.a. geymdar ljósmyndaplötur hver upp af annarri, bátsbjalla, björgunarhringur frá þýskum kafbáti, fiskdráttarkrókur, rautt siglingaljósker og heljarmikið bátsstýri af v/b Skuld VE. Efst uppi í hanabjálkanum héngu draugaleg sjóklæði og við hlið þeirra hákarla- og hnísuskutlar.
Þá var líka geymdur á háaloftinu fagurlega rauðlitaður skjöldur skreyttur með hakakrossi nasista. Einhver fyrrverandi meðlima nasistahreyfingarinnar í Eyjum hafði sett skjöldinn fyrir framan útidyrnar á Goðasteini fljótlega eftir lok seinna stríðs. Kannski vildi gefandinn spauga með skólastjórann, sem hafði verið einn harðasti andstæðingur nasista og bolsévíka í Eyjum, eða þá að hann vildi að skjöldurinn mætti varðveitast í Byggðasafni Eyjanna, kannski til varnaðar komandi kynslóðum.
Alla þessa muni þurfti að skrá og segja sögu þeirra. Þá þurfti að finna gott húsnæði fyrir safnið. Enn á ný studdi ein hugsjónin aðra. Þegar Sparisjóðurinn reisti nýtt hús við Bárugötu fékk Byggðasafn Vestmannaeyja lánaða 3. hæð hússins undir starfsemi sína. Sama ár og Þorsteinn hætti skólastjórn Gagnfræðaskólans árið 1963 flutti Byggðasafnið í nýju húsakynnin og sparisjóðsstjórinn gat nú flutt sig milli hæða og sinnt þannig ólíkum hlutverkum í sömu byggingunni.
Nú var fræðimaðurinn Þorsteinn kominn á mikið flug og Blik, ársrit Vestmannaeyja, kom út í bókarformi. Ritið var 2400 síður og kom út annað hvert ár. Þá var norsk- íslenska orðabókin komin vel á veg en hana varð Þorsteinn að skrifa utan hefðbundins vinnutíma. "Það var vetrarríki og skammdegi. Frammi í stofunni sem var óupphituð að næturlagi sat Þorsteinn í þykkri Gefjunarúlpu með penna og púlt að vinna að kaflanum um upphafsstafinn S." Norsk-íslenska orðabókin kom út í Björgvin í Noregi árið 1967. Þar lauk fimmtán ára starfi.
Eftir því sem árin liðu fór að verða ljóst að gömlu munirnir sem legið höfðu lengst af upp á hanabjálka voru orðnir eitt yfirgripsmesta safn gamalla muna frá sjávarsíðunni á Íslandi. Það var einnig orðið býsna þröngt um safnið í húsakynnum Sparisjóðsins við Bárugötu. Það var þó ljóst að tímarnir höfðu breyst. Nú þurfti ekki þrekmikinn ungling og aldraðan byggðasafnsvörð til að grafa grunn nýs safnahúss því vélskóflur voru komnar til skjalanna og viðhorf til varðveislu menningarverðmæta og menntunar voru önnur en þegar "barnafræðarinn" sté á land í Eyjum árið 1927. Ákveðið var að reisa nýtt safnahús í Vestmannaeyjum og nú nægði fyrir stofnanda Byggðasafnsins að taka fyrstu skóflustungu árið 1969.
Siglt að nýju
Um miðja nótt í janúarmánuði 1973, 46 árum eftir komuna til Eyja, héldu hjónin, Þorsteinn Þ. Víglundsson, 74 ára gamall, og Ingigerður Jóhannsdóttir, 71 árs, til skips á leið til lands. Hafið var eldgos á eyjunni. Þau kvöddu nú þennan stað eftir tæprar hálfrar aldar veru. Í Vestmannaeyjum höfðu þau alið upp sín fjögur börn og mikið lífsstarf lá eftir þessi samtaka hjón. Vestmannaeyjakaupstaður var ríkt bæjarfélag. Bærinn átti eitt merkasta byggðasafn á landinu með um 1.400 munum; Gagnfræðaskóla sem hafði fengið viðurkenningar fyrir góðan námsárangur nemenda; nokkur þúsund blaðsíður af varðveittri þekkingu um sögu Eyjanna og öflugan sparisjóð sem hafði veitt vel á annað þúsund húsnæðislán og var með 73 milljónir í innborgað sparifé. Þessu sparifé forðaði nú sparisjóðsstjórinn frá yfirvofandi hættu og hafði um borð með sér á skipið.
Sparifé Eyjamanna var komið í hendur Seðlabanka Íslands árla morguns hinn 24. janúar. Í Goðasteini, íbúðarhúsi þeirra hjóna sem staðsett var á hættusvæði, voru hins vegar ennþá geymdar miklar gersemar. Þar var í geymslu listaverkasafn Eyjanna, 34 Kjarvalsverk sem Sigfús M. Johnsen hafði gefið bænum, bóka- og skjalasafn Byggðasafnsins, allt ljósmyndaplötusafn Vestmannaeyjakaupstaðar, á annan tug þúsunda af ljósmyndum. Eftir hádegi hinn 25. janúar var Þorsteinn kominn að nýju til Eyja og hélt strax í Goðastein. Glóandi gjósku- og vikurregn gaus yfir Kirkjubæjarbrautina. Hann gekk inn í hús sitt og hófst þegar handa við að pakka niður verðmætum. Þegar hann var í miðju kafi sá hann hvar tvö íbúðarhús vina hans við Kirkjubæjarbraut stóðu í björtu báli. Glóandi gjallsteinar komust inn um glugga og þök. Það var orðið myrkvað í Goðasteini þar sem glóandi steinn hafði rofið heimleiðsluna. Þá fann hann þrjú jólakerti sem lýstu síðan upp "betri stofuna", þar sem hann athafnaði sig. Þegar leið á morguninn var allt tilbúið til flutnings enda ekki seinna vænna. Tvær rúður voru brotnar í húsinu og mildi að ekki hafði þegar kviknað í því. Ryðja þurfti gjóskudyngjur á Kirkjubæjarbrautinni til að koma flutningabíl að húsinu. Gjallhaugarnir voru eins háir og snjóskaflar beggja vegna götunnar en milli þessara hauga silaðist flutningabíllinn með hólpin þjóðarverðmæti.
Gullaldarskeið
Það veit enginn um tilurð gullaldarskeiða samfélaga þótt margar getgátur séu á lofti um það. Það hefur stundum verið sagt að sundrung einkenni gullaldarskeið. Þá takist á ólík öfl, "gamli tíminn" og "nýi tíminn" og þessi átök séu í raun forsenda kraftmikilla tíma. Þetta tímabil hafði sannarlega verið gullaldarskeið í Eyjum og vissulega hafði gustað í kringum lífsstarf Þorsteins Þ. Víglundssonar.
Í smásögu Jeans Gionos "Maður skógarins" segir frá fjárhirði sem ræktaði skóg á einskis manns landi. Smám saman breytti landið um svip, í fornum árfarvegum runnu ár á ný og fólkið fluttist til þessa Kanaanslands mitt í auðninni. En fjárhirðirinn var látinn og enginn vissi um þetta lífsstarf hans. Síðan komu nefndir frá borginni til að rannsaka þennan sjálfsprottna skóg!
Gullöld Eyjanna í athafna-, skóla- og menningarlífi var ekki fremur sjálfsprottin en í sögu Gionos. Við vitum sem betur fer ekki uppskriftina að þessu eða öðrum gullaldarskeiðum en við vitum þó að margir komu þar við sögu og þar á meðal skólamaðurinn Þorsteinn Þ. Víglundsson. En gullöld Eyjanna má fyrst og fremst þakka Eyjamönnum sjálfum sem m.a. leynt og ljóst studdu hugsjónamenn úr sínum röðum til uppbyggingar atvinnu og menningar í Vestmannaeyjum.
Þorsteinn hélt áfram skrifum sínum og uppbyggingu Byggðasafnsins. Nýtt húsnæði Byggðasafnsins var vígt árið 1981 og þá hlaut Þorsteinn heiðursborgaranafnbót Vestmannaeyjakaupstaðar. Litlu síðar hlaut hann St. Olavs orðuna frá Ólafi Noregskonungi fyrir vináttu við Noreg.
Þorsteinn Þ. Víglundsson lést í Reykjavík árið 1984 þá 85 ára að aldri. Eiginkona hans, Ingigerður Jóhannsdóttir, lést níu árum síðar í Hafnarfirði þá 91 árs að aldri.
Höfundur er svæðisstjóri íslands hjá Norræna Fjárfestingabankanum.
Þorsteinn Víglundsson
Við opnun Byggðasafns Vestmannaeyja í október 1979. Við það tækifæri var Þorsteinn gerður að heiðursborgara Vestmannaeyjakaupstaðar. Við hlið hans á myndinni er kona hans, Ingigerður Jóhannsdóttir.
Ljósmynd: Sigurgeir.
Þorsteinn Víglundsson tekur fyrstu skóflustunguna að Safnahúsi Vestmannaeyja sumarið 1969.
Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum. Áhugi á skólamálum í fiskveiðabænum var takmarkaður um það leyti sem Þorsteinn tók við starfi skólastjóra Unglingaskólans. Smám saman jókst skilningur á gildi menntunar, unga fólkið lærði réttu tökin og framundan var blómaskeið atvinnu og menningar.
Hér duga engin vettlingatök. Þorsteinn Víglundsson forðar sparisjóðnum undan gosinu. Teikning eftir Halldór Pétursson.
Sundnámskeið við sundskálann á Eiðinu. Jóhann Gunnar Ólafsson sundkennari heldur á rólu, sem var hjálpartæki fyrir byrjendur í sundi.
Kennarar og nemendur Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum sækja sand norður fyrir Eiði til múrhúðunar innan húss.