Svæðisframkvæmdastjóri alþjóðadeildar Lloyd's Ibex kýs ekki að starfa á Íslandi JAMES Walmsley, svæðisframkvæmdastjóri hjá alþjóðadeild Lloyd's Insurance í London, segir að Lloyd's hafi haft heimild til vátryggingastarfsemi hér á landi síðan 1996, m.ö.o. verið skráður vátryggjandi hér á landi.
Svæðisframkvæmdastjóri alþjóðadeildar Lloyd's Ibex kýs ekki að starfa á Íslandi

JAMES Walmsley, svæðisframkvæmdastjóri hjá alþjóðadeild Lloyd's Insurance í London, segir að Lloyd's hafi haft heimild til vátryggingastarfsemi hér á landi síðan 1996, m.ö.o. verið skráður vátryggjandi hér á landi. Ökutækjatryggingar Lloyd's á Íslandi hafi hins vegar verið í nafni Ibex Motor Policies innan Lloyd's.

"Ibex kýs ekki lengur að starfa á Íslandi og annar vátryggjendahópur mun taka við af honum. Við erum í raun að taka til í stjórnunarlegum skilningi með því að því gera Lloyd's aðila að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi í stað Ibex. Það hefur í för með sér að í framtíðinni geta aðrir vátryggjendahópar innan Lloyd's bæst í hópinn," segir Walmsley.

Walmsley segir að ökutækjatryggingar Alþjóðlegrar miðlunar verði í nafni Octavian vátryggjendahópsins hjá Lloyd's. Hann segir að þessi háttur sé jafnan hafður á hjá Lloyd's. Tryggingasamningar séu ekki gerðir í nafni Lloyd's. Walmsley segir að Lloyd's sé ekki kunnugt um að fleiri vátryggjendahópar hafi lýst yfir áhuga á því að slást í hópinn með Octavian. Það sé þó ekki útilokað að það gerist í framtíðinni og þegar og ef það gerist myndi Lloyd's upplýsa Fjármálaeftirlitið á Íslandi um það. Walmsley kvaðst ekki geta upplýst hvaða ástæður lægju að baki því að Ibex hættir starfsemi hérlendis. Hann gæti heldur ekki tjáð sig um hvaða augum vátryggjendahópar innan Lloyd's litu markað á Íslandi fyrir ökutækjatryggingar.

"Við hjá alþjóðadeild Lloyd's sinnum einkum málarekstri sem lýtur að reglugerðum til að tryggja að vátryggjendahópar hafi heimild til að reka sína starfsemi. Við gerum ekki athuganir á arðsemi starfseminnar," segir Walmsley.

Hann sagði að Lloyd's hefði átt samskipti við Fjármálaeftirlitið á Íslandi og Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi í tengslum við þetta mál. "Það hefur reynst dálítið erfitt að útskýra nákvæmlega fyrir málsaðilum ferli málsins en það hafa þó ekki risið upp af því mikil vandamál. Þetta er það sem gerist oft hjá Lloyd's um allan heim þegar einn vátryggjendahópur tekur við af öðrum," segir Walmsley.

Aðspurður hvers vegna íslenskum stjórnvöldum hefði verið tilkynnt að vátryggjendahópurinn DP Mann tæki við af Ibex hérlendis segir Walmsley að augsýnilega hafi sú staða komið upp, að þegar fregnir bárust af því að Ibex hygðist hætta starfseminni, hefðu aðrir vátryggjendahópar leitað hófanna á markaði Lloyd's. DP Mann hefði sýnt málinu áhuga en síðan dregið sig í hlé. Fjölmargar ástæður gætu legið að baki ákvörðun DP Mann.