JÓHANN Smári Sævarsson bassasöngvari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari halda tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju í Reykjanesbæ í dag, laugardaginn 16. október og hefjst þeir kl. 15. Þau flytja svo sömu efnisskrá á tónleikum á Sal Tónlistarskólans á Akureyri á mánudagskvöld, 18. október kl. 20.30.
Tónleikar í Ytri-Njarðvíkurkirkju og á Akureyri
JÓHANN Smári Sævarsson bassasöngvari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari halda tónleika í
Ytri-Njarðvíkurkirkju í Reykjanesbæ í dag, laugardaginn 16. október og hefjst þeir kl. 15. Þau flytja svo sömu efnisskrá á tónleikum á Sal Tónlistarskólans á Akureyri á mánudagskvöld, 18. október kl. 20.30.Helga Bryndís stundaði fyrst tónlistarnám í Vestmannaeyjum og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Jónasi Ingimundarsyni. Árið 1987 útskrifaðist hún sem píanókennari og einleikari. Framhaldsnám stundaði hún í Vínarborg og Helsinki hjá Leoinid Brumber, Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Helga Bryndís hefur starfaði við Tónlistarskólann á Akureyri frá því hún lauk prófi. Hún hefur haldið fjölda tónleika, heima og erlendis, bæði ein og með öðrum og er meðlimur í Caput-hópnum. Í vetur mun hún koma fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonsertum eftir Poulenc og Brahms.
Jóhann Smári er fæddur og uppalinn í Keflavík og þar hóf hann sitt tónlistarnám, en hélt svo til Reykajvíkur og nam hjá Sigurði Dementz um fjögurra ára skeið. Að því loknu var hann við framhaldsnám við Royal Collage og Royal Academi í London þaðan sem hann brautskráðist með einsöngvara- og óperusöngvarapróf árið 1995. Á námsárunum í London söng Jóhann Smári með Lundúnarfílharmoníunni undir stjórn Bernard Haiting, tók þátt í hljóðprufutónleikum í nýja Glyndbourn óperuhúsinu og söng með BBC-hljómsveitinni í Royal Albert Hall.
Rússneskir galatónleikar
Þá kom hann fram á rússneskum galatónleikum í St. James Palace, en hann hljóp á síðustu stundu í skarðið fyrir þekktan rússneskan söngvara. "Ég kunni þrjú rússnesk lög, en þeir vildu að ég yrði með svona tíu lög og báðu mig því að læra í snarheitum sjö til viðbótar þeim sem ég kunni. Ég sagði þeim að ég gæti ekki lært þau á rússnesku á svo skömmum tíma og var þá sagt að það gerði ekkert til, það myndi enginn í salnum skilja neitt. Rétt fyrir tónleikana var ég kynntur fyrir rússneska sendiherranum í London og hann sagði við mig eftir tónleikana að ég hefði sungið prýðilega vel og tjáningin verið í lagi, en honum fannst ég þurfa að vinna textana aðeins betur!"
Að loknu námi í Bretlandi fór Jóhann Smári á samning hjá óperustúdíói Kölnaróperunnar og eftir þriggja mánaða veru þar var hann orðinn einn af einsöngvurum óperunnar, en vaninn er að söngvarar séu sem lærlingar þar í tvö ár. "Ég söng þrettán hlutverk við óperuna á þremur árum og var með í yfir 300 sýningum," sagði Jóhann Smári. Hann var einnig gestasöngvari við óperurnar í Bonn og Nurnberg og söng á tónleikum með W.D.R. útvarpshljómsveitinni en henni stjórnaði Kent Nagano.
Frá Kölnaróperunni til Akureyrar
Forsvarsmenn Kölnaróperunnar vildu framlengja samninginn við Jóhann Smára til ársins 2000, en hann sá fram á að syngja mikið til sömu hlutverkin og áður og afréð því að segja samningunum upp og leita annarra miða. Ákveðið var að flytjast aftur heim til Íslands og leyfa börnunum að kynnast íslensku þjóðfélagi og var hugmyndin að setjast að í Reykjavík. Jóhann Smári hafði gestasamninga við ýmis óperuhúsi í útlöndum og ætlaði hann að fljúga á milli. Mitt í þessum vangaveltum sá Jóhann Smári auglýsta lausa stöðu deildarstjóra söngdeildar Tónlistarskólans á Akureyri og eftir viðtal við Atla Guðlaugsson skólastjóra ákáðu þau hjónin að flytja til Akureyrar. Jóhann Smári hefur nú stjórnað deildinni á annað ár og starfað jafnframt sem gestasöngvari, m.a tók hann þátt í Brúðkaupi Fígarós í Bregenz í Austurríki í fyrrahaust og hefur verið ráðinn til að syngja í Toscu við sama óperuhús nú í vetur.
"Það kom mér skemmtilega á óvart hversu mikill efniviður er á Akureyri," sagði Jóhann Smári um söngdeildarnema, en af því tilefni var ráðist í að setja upp Brúðkaup Fígarós síðastliðið vor og verður haldið áfram á sömu braut í vetur. Ætlunin er að flytja á vordögum tvo einþáttunga eftir Puccini úr Il trittico.
Uppáhaldslögin okkar
Á tónleikunum í Reykjanesbæ og Akureyri flytja þau Jóhann Smári og Helga Bryndís íslensk og erlend sönglög. Fyrir hlé verða flutt lög eftir Brahms og Schumann auk íslenskra laga, en eftir hlé verða fluttir tveir ljóðaflokkar eftir Maurice Ravel efnisskránni lýkur á Söngvum og dönsum dauðans eftir rússneska tónskáldið Mussorgsky.
"Yfirskrift þessara tónleika ætti eiginlega að vera uppáhaldslögin okkar Helgu Bryndísar," sagði Jóhann Smári. "Við flytjum þarna blíðar og fallegar perlur, eins og Enn ertu fögur og Rósin og líka kátari lög eins og Nirfillinn og Tengdamæðurnar og endum svo á rússneskri hádramatík þegar við flytjum fjögur lög um dauðann frá misjöfnu sjónrhorni. Þetta er mjög öflug tónlist, maður fær bókstaflega gæsahúð." Jóhann Smári vonast til að geta kynnt löndum sínum meira af rússneskri tónlist, en rödd hans er sem sniðin fyrir flutning slíkrar tónlistar. "Ég þarf bara að opna munninn," sagði hann. "Ég heillaðist strax af þessari tónlist en söngþjálfari minn úti í London var rússnesk kona og þar kynntist ég þessari tónlist. Hún benti mér á að þarna væri ég búinn að finna mitt svið."
Jóhann Smári Sævarsson bassasöngvari og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari koma fram á tónleikum í Yri- Njarðvíkurkirkju í dag, laugardag og á Akureyri á mánudagskvöld.