REKSTRARFORSENDUR stærsta hluta smábátaflotans bresta, nái lög um veiðar þeirra óbreytt fram að ganga á næsta fiskveiðiári. Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda fór fram á það við stjórnvöld að lögunum verði frestað en fundi sambandsins lauk í gær.
Aðalfundi LS lauk í gær
Vilja frestun laga umveiðar smábáta
REKSTRARFORSENDUR stærsta hluta smábátaflotans bresta, nái lög um veiðar þeirra óbreytt fram að ganga á næsta fiskveiðiári. Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda fór fram á það við stjórnvöld að lögunum verði frestað en fundi sambandsins lauk í gær.
Í ályktun aðalfundarins segir að smábátaeigendur hafi orðið að búa við hverja skammtímalausnina á fætur annarri og undantekningarlaust með þeim fylgifisk að hluti flotans sé skilinn eftir í algeru uppnámi með öll framtíðaráform. Vegur smábátaflotans hafi engu síður aukist á undanförnum árum en gangi núgildandi lög óbreytt eftir, dyljist engum að stór hluti smábátaflotans verði sviptur rekstrarlegum forsendum frá og með 1. september árið 2000. Helstu viðbrögð stjórnvalda við kvótadómi Hæstaréttar hafi verið að þeim bæri skylda til að vernda atvinnurétt smábátaeigenda. Eina leiðin til þess væri að breyta lögunum með þeim sem þau gerðu, þ.e. að kvótasetja helftina af þeim sem litla eða enga veiðireynslu hafa og læsa þá sem eftir standa inni í sóknardagakerfi, sem í senn býður upp á vonlaust rekstrarumhverfi og er stórhættulegt frá öryggissjónarmiðum.
Áfram segir í ályktuninni: "Með slíkum gjörningum er síst verið að nálgast sátt um veiðikerfið, að ekki sé minnst á þau gífurlegu verðmæti sem fara samtímis forgörðum í formi verðlausra atvinnutækja, ónýtts mannafla og mannvirkja. Sú spurning hlýtur að vakna hvort stjórnvöldum sé heimilt að breyta þannig leikreglum að atvinnutæki þeirra sem inn í greinina hafa komið á fullkomlega löglegum forsendum og aðilar fjárfest í með gildandi lög í huga, verði á svipstundu verðlaus vegna lagabreytinga.
Þá ítrekaði fundurinn nauðsyn þss að rannsökuð verði umhverfisáhrif veiðarfæra. Ekki nægi að sátt sé milli manna um veiðarnar, heldur þurfi enn frekar að ríkja sátt milli manns og náttúru. Höfuðmarkmiðið sé að vernda og nýta í senn. Því beri löggjafanum skylda til að fella inn í stjórnkerfi fiskveiða hvatningu til notkunar umhverfisvænna veiðarfæra, orkusparnaðar og ekki síst verðlaun fyrir alla viðleitni til hámörkunar þeirra verðmæta sem fást fyrir sjávaraflann.
Morgunblaðið/Golli
Frá aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem lauk í gær.