Guðmundur Hákonarson Kæri vinur og félagi. Í fleygum orðum segir: "Það sem vitur maður ætti að íhuga er ekki hvernig hann á að deyja, heldur hvernig hann á að lifa." Þú kunnir að lifa og njóta lífsins allar þær stundir sem lífið gaf þér. Þrátt fyrir erfið veikindi hin seinni ár var það ekki í þínum anda að kvarta yfir hlutskipti þínu heldur var gleðin og bjartsýnin þar allsráðandi.

Skoðanir þínar á málefnum líðandi stundar mótuðust af þeirri hugsjón sem þú settir þér sem ungur maður og það var engum dulið að þú varst ávallt sannur jafnaðarmaður.

Aldrei var lognmolla í kringum þig, óbilandi eldmóður var áberandi hvar sem þú komst og það var eins og nálægð þinni fylgdi ólýsanlegur drifkraftur sem hreif fólk með sér.

Þú reyndist góður vinur í raun þegar á móti blés hjá félögum þínum. Þá var það hlýtt viðmót þitt og hvatningarorð sem gáfu okkur orku á ný til þess að takast á við viðfangsefni líðandi stundar.

Það er mikil gæfa að fá að vera samferða persónum á lífsleiðinni, sem eru jafn kraftmiklar og gefandi og þú varst og það ber að þakka.

Kveðjustundin kom skyndilega og það er erfitt að trúa því að hvellandi hlátur þinn sé nú þagnaður. Við kveðjum þig með söknuði og trega en minningin lifir um skemmtilegar og eftirminnilegar samverustundir.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Stefaníu, Hákoni Óla, Dóru Fjólu og fjölskyldum þeirra.

Anna Lína og Brynjar.