Jóhann Þorvaldsson
Fyrstu kynni okkar Jóhanns urðu
þegar ég fékk sumarvinnu við gróðursetningu á trjáplöntum í Hólsdal í Siglufirði undir strangri og öruggri stjórn Jóhanns. Ég man að það voru ekki margir sem trúðu á að hægt væri að rækta skóg á Siglufirði aðrir en hann og hann fylgdi sannfæringu sinni í þessu sem öðru. Ég og margir aðrir munum minnast Jóhanns þegar rætt er um skógræktina í Hólsdal vegna hans fórnfúsa og óeigingjarna starfs sem hann vann þar fyrir Siglufjörð.
Næst lágu leiðir okkar saman í barnaskólanum á Siglufirði þar sem hann var fyrst kennari og síðan skólastjóri og hélt að sjálfsögðu uppi röð og reglu þar sem annars staðar. Jóhann neytti aldrei áfengra drykkja og gerði sitt til þess að forða börnum frá því böli og starfrækti meðal annars barnastúkuna Eyrarrós á Siglufirði í algjörri sjálfboðavinnu. Hann var æðstitemplar stúkunnar Framsóknar og gerður að heiðursfélaga í Stórstúku Íslands. Hann var einnig ritstjóri Regins, blaðs templara á Íslandi. Hinn 17. júní 1983 var Jóhanni veitt fálkaorðan fyrir störf sín við kennslu og skógrækt.
Ennþá lágu leiðir okkar saman með hugsjónum okkar um störf og stefnu framsóknarflokksins. Jóhann var mikill framsóknarmaður alla sína tíð. Hann var afar sannfærandi í sínum málflutningi og hlutu þeir sem á hlýddu mikinn innblástur um þau málefni sem hann ræddi um á hverjum tíma. Jóhann var ritstjóri Einherja (blað framsóknarmanna á N-vestra) til fjölda ára.
Jóhann var mikill bridgemaður og spilaði í áraraðir með félögum sínum í Bridgefélagi Siglufjarðar. Bridge er íþrótt sem reynir mjög á skoðanaskipti milli makkera. Hann var rökfastur við græna borðið eins og víðar og því erfitt að sannfæra hann um annað en það sem hann taldi rétt á hverjum tíma.
Þegar Jóhann lauk starfsferli sínum fluttist hann í Skálarhlíð sem eru leiguíbúðir fyrir aldraða. Þar sem skrifstofa mín er á jarðhæð þess húss áttum við Jóhann margar rökræður um lífið og tilveruna. Hann var starfssamur maður eins og fram hefur komið og til þess að gera eitthvað á sínum efri árum fór hann að semja ljóð við hin ýmsu tækifæri og gaf að lokum út ljóðabókina "Lífsferðarljóð" sem gefin var út og gefin vinum og kunningjum á 90 ára afmæli hans.
Síðustu árin þjáðist Jóhann af erfiðum sjúkdómi og dvaldi lengi á heimili Sigríðar dóttur sinnar og eiginmanns hennar, sem önnuðust hann af mikilli alúð og óeigingirni. Síðustu mánuðina dvaldi hann í Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði. Þrátt fyrir mikil veikindi hélt Jóhann alla tíð reisn sinni og verður hans minnst sem eins af fórnfúsustu mönnum sem Siglufjörður hefur átt. Í ávarpi sínu á 90 ára afmæli sínu sagði hann að hugurinn væri ávallt á Siglufirði og þá sérstaklega í skógræktinni og þegar hann yrði allur myndi hann horfa yfir fjörðinn fagra og að hann myndi fylgjast vel með velferð Siglufjarðar.
Ég votta eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð á þessari stund en veit að ljúfar minningar um mikilfenglegan mann munu verða sorginni sterkari í tímans rás.
Jón Sigurbjörnsson.