Jóhann Þorvaldsson Þegar við systkinin fréttum að afi á Sigló væri dáinn þá fannst okkur lífið ósanngjarnt og hart en þegar við náðum áttum aftur gerðum við okkur grein fyrir því að afi var búinn að lifa góðu, löngu og hamingjusömu lífi og við vissum að hann var sjálfur tilbúinn að kveðja þennan heim, lífsverki hans var lokið. Veikindi og hár aldur höfðu valdið því að þessi athafnamikli maður gat ekki lengur hugsað um sig sjálfur. Nú hvílir hann á himnum og vakir yfir okkur öllum.

Við höfum verið svo lánsöm að hafa kynnst báðum öfum okkar og fyrir það erum við þakklát en það eru ekki allir sem njóta þess. Bæði afi á Sigló og afi í Vogunum kenndu okkur að bera virðingu fyrir trjánum og gróðrinum. Við munum eftir afa í skógræktinni á Siglufirði með trjáklippurnar í annarri hendi og límband í hinni þar sem hann gekk og hlúði að trjánum og það lá við að við heyrðum þegar trén þökkuðu honum fyrir. Rétt eins og við þá stækkuðu trén og þar er nú hinn fallegasti skógur. Við fórum oftsinnis í skógræktina ásamt afa, pabba og mömmu og alltaf vorum við með nesti sem amma hafði útbúið handa okkur og við borðuðum með bestu lyst við fossinn og seinna líka í Jóhannslundi. Amma lét okkur alltaf hafa nóg að borða og nestiskarfan var ávallt full af heimatilbúnum vínarbrauðum, kleinum, pönnukökum og brauði. Við munum þegar við lékum okkur við árbakkann, buslandi og í ímynduðum veiðileik þar sem við notuðum gamlar trjágreinar sem veiðistangir. Það er kannski skrítið til þess að hugsa, og þó, að allar minningar okkar úr skógræktinni segja okkur að það hafi verið sól, það var aldrei rigning.

Afi og amma bjuggu lengst af á Hverfisgötu 4. Það hús hefur alla tíð heillað okkur. Þau bjuggu á fyrstu og þriðju hæð og það eitt út af fyrir sig var sérstakt. Til þess að fara upp á þriðju hæð varð maður að fara fram hjá þvottahúsinu, upp þröngar tröppur, í gegnum annarra manna heimili (það var spennandi þegar við vorum yngri) og síðan upp enn fleiri tröppur þangað til komið var að hurðinni að íbúð afa og ömmu. Þar fyrir innan var margt að finna, m.a. gömul og ný blöð Æskunnar sem við skoðuðum og lásum.

Við systkinin höfum haldið sambandi við afa og ömmu að hluta til með bréfaskriftum þar sem langt var á milli okkar í kílómetrum talið. Þetta voru kannski ekki löng bréf en þau sögðu þeim mun meira. Þar sögðum við aðeins frá daglegu lífi okkar, einkunnum, hvernig okkur gengi í skólanum og teiknuðum myndir. Þessi bréf eru nú komin til okkar aftur og geyma dýrmætar minningar.

Fyrr á þessu ári tók ég (Hrönn) viðtal við afa vegna verkefnis í Háskólanum sem átti að fjalla um mannlegu hliðarnar á lífinu. Afi hafði ákveðið að gefa út sína fyrstu ljóðabók á 90 ára afmæli sínu en hún hafði verið í smíðum í fjórtán ár. Bókin er lífshlaup afa. Ég man að hann sagði að það hefði ekki hvarflað að sér að yrkja ljóð áður fyrr enda enginn tími fyrir slíkt. Afi sagði mér svo frá þeim störfum sem hann hafði gegnt um ævina og sagði að líklega ætti orðið þúsundþjalasmiður best við um sig. Það var sem sagt þegar líkaminn bilaði sem hann tók að yrkja en flest ljóðin eru samin eftir að hann varð 85 ára. Það er engin ljót hugsun sem kemur fram í bókinni enda sagði afi að við lestur hennar gætu margir haldið að hann hefði ekki reynt neitt misjafnt í lífinu en fyrir honum væri það einfaldlega svo að orðin svartsýni, bölsýni og vantrú væru hreinlega ekki til, raunveruleikinn væri allt annar. Afi skrifaði mikið og margt var prentað eftir hann á lífsleiðinni. Höndin var hans vopn. Hann sagði mér að lífshyggju sína væri að finna í einu ljóðanna í ljóðabók sinni en þar segir:

Að gefa og þiggja er gæfunnar leið,

að gefa og þiggja er ævinnar skeið.

Þá ræður máttur þess góða sem mannlífið þráir

og mannelskan sjálf alltaf mjög dáir.Að lifa þannig um ævinnar skeið

er öllum mönnum hin farsæla leið.

Þá lífið færir oss gott að gera

og ævikvöldið á þannig að vera.

Við biðjum Guð að blessa minningu afa og styrkja ömmu sem og okkur öll í sorginni.

Hrönn og Ívar Örn.