Jóhann Þorvaldsson Látinn er rúmlega níræður Jóhann Þorvaldsson fyrrv. skólastjóri á Siglufirði. Langri og starfsamri ævi er lokið.

Hann var mikill félagsmálamaður sem lagði fram krafta sína á hinum ýmsu sviðum og mætti þar margt til nefna. Ekki verður það samt tíundað hér en minnst þeirra starfa sem áttu kannski hug hans öðru fremur og sem hann vann að af eldlegum áhuga alla tíð. Skógræktin var þetta heillandi viðfangsefni sem hann varð svo gagntekinn af.

Hann hefði þó getað fundið auðveldari stað en Siglufjörð til að stunda sitt ræktunarstarf. Það er hinsvegar ekki háttur hugsjónamanna og eldhuga að láta erfiðleikana smækka sig eða draga úr sér kjarkinn. Fyrstu tilraunir til skógræktar í Siglufirði gengu illa og margir töldu dæmið næsta vonlaust ­ þetta þýddi ekki neitt, væri bara sóun á tíma og kröftum. Ekki voru þó allir sáttir við slíkt og allra síst Jóhann Þorvaldsson. Hann tók við stjórn Skógræktarfélags Siglufjarðar 1948 og tveimur árum síðar fékkst nýtt land til skógræktar í Skarðdalslandi. Þar var hafist handa af miklum dugnaði og ekki fengist um það þótt margir yrðu til að hrista höfuðið. Menn höfðu líka flestir um nokkuð annað að hugsa í þá daga þegar "Síldarævintýrið" var í algleymingi. Í þetta sinn gekk hinsvegar "skógræktarævintýrið" upp.

Það kostaði mikla vinnu og fyrirhöfn ­ trén uxu hægt og þau urðu fyrir áföllum vegna fannfergis og harðrar veðráttu. Jafnt og þétt uxu þessi tré ­ það tók bara sinn tíma ­ þetta var semsagt hægt og það var einmitt það sem skipti öllu máli. Jóhann lifði það að sjá þetta "fósturbarn" vaxa og dafna við harðan kost til þess sem það er í dag ­ fallegt og skemmtilegt útivistarsvæði þar sem hæstu tré ná nú 10­11 m hæð. Lagðir hafa verið göngustígar um nokkurn hluta svæðisins þannig að auðvelt er að komast um það enda fjölgar þeim stöðugt sem heimsækja skógræktina í Skarðdal. Hún er sannarlega lifandi minnismerki um einstaka elju og þrautseigju við óblíðar aðstæður. Hann gat glaðst yfir þeim árangri sem náðist ­ hann var stoltur af þessu verki enda full ástæða til. Meðal skógræktarmanna var hann þekktur og virtur fyrir störf sín og framgöngu. Að verðleikum hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir sín margvíslegu störf og þar á meðal skógrækt. Hann varð heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Íslands fyrir allnokkrum árum og sömuleiðis að sjálfsögðu í sínu félagi, Skógræktarfélagi Siglufjarðar. Nú að leiðarlokum viljum við félagar hans og samherjar þakka honum fyrir ómetanlegt starf hans í þágu skógræktar í Siglufirði og sér í lagi fyrir seigluna sem þurfti til að standast erfiðleikana.

Guð blessi minningu Jóhanns Þorvaldssonar.

F.h. Skógræktarfélags Siglufjarðar,

Anton V. Jóhannsson.