20. janúar 2000 | Viðskiptafréttir | 829 orð

Nær til 90% þjóðarinnar

ÍSLANDSPÓSTUR hóf í gær heimakstur á pökkum og ábyrgðarbréfum án aukagjalds. Í þessari nýju þjónustu Íslandspósts er sendingum ekið til fyrirtækja á daginn, og heim að dyrum til einstaklinga milli klukkan 17 og 22 á kvöldin.
ÍSLANDSPÓSTUR hóf í gær heimakstur á pökkum og ábyrgðarbréfum án aukagjalds. Í þessari nýju þjónustu Íslandspósts er sendingum ekið til fyrirtækja á daginn, og heim að dyrum til einstaklinga milli klukkan 17 og 22 á kvöldin. Þjónustan mun standa til boða 90% þjóðarinnar strax frá upphafi.

Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var í gær í nýrri póstmiðstöð Íslandspósts á Stórhöfða, að þessi nýjung endurspeglaði að Íslandspóstur ætlaði að vera framsækið fyrirtæki á sviði dreifingar á bréfum og smærri sendingum, ekki síst heim til einstaklinga, sem væri sá grunnur sem starfsemi fyrirtækisins hvíldi á.

Einnig endurspeglaði þessi nýja þjónusta fyrirtækisins þá miklu trú sem forráðamenn Íslandspósts hafa á framtíð netverslunar, með tilheyrandi pakkasendingum heim til kaupenda.

Einar sagði að í umræðu manna á milli hefði oft verið sagt að bréfið væri á undanhaldi. "Sendingar á bréfum eru þó enn í lítilshátta vexti, en sá vöxtur fer minnkandi. Hinn hluti dreifingarstarfseminnar sem tengist bögglapósti og pökkum fer hins vegar ört vaxandi, og öll umræða um netverslun, sem nefnd hefur verið "viðskipti 21. aldarinnar" er í miklum hávegum.

Við höfum upplifað hér hjá Íslandspósti að til að þróa þennan hluta viðskiptalífisins nánar hefur vantað ákveðna þætti í flutningakerfið sem við rekum. Nú erum við því að setja af stað þjónustu með flutningakerfi sem á að taka að sér þetta hlutverk, til að þessi tegund verslunar, og þá sérstaklega vöruverslunin, eigi möguleika á að starfa. Við höfum kallað þetta byltingu í póstþjónustu," sagði Einar Þorsteinsson.

Setur Ísland í forystu meðal nágrannaþjóða

Örn V. Skúlason, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Íslandspósts, sagði m.a. á fundinum að fyrirtækið hefði upplifað miklar breytingar á viðskiptaumhverfi fyrirtækisins. Þar væru meðal annars að aukast kröfur um þjónustu, hraða og minna lagerhald hjá fyrirtækjum. "Við sjáum fyrir okkur í flutningastarfsemi að sendingar muni minnka og að Netið muni opna ný tækifæri fyrir póstþjónustuna.

Við höfum tekið upp nýtt dreifikerfi fyrir pakka, sem við nefnum nýtt grunn dreifikerfi fyrir pakkaflutninga. Þetta kerfi setur Íslandspóst í forystu meðal nágrannaþjóða í útvíkkun á þjónustu. Í nágrannalöndum okkar hafa verið tilraunir í þessa átt, en Ísland er með fyrstu löndum til að hefja heimakstur á öllum pökkum. Sú breyting er hin byltingarkennda í þessari þjónustu," sagði Örn.

Í máli hans kom fram að breytingin á afhendingarferlinu fæli í sér að áður hefðu bréfberar og pósthús verið lykilhlekkir í þeirra vörustjórnunarkeðju. "Það sem við erum að gera er að við erum að færa ákveðnar sendingar sem hafa hingað til verið afhentar á pósthúsinu yfir á þetta nýja dreifingarkerfi. Um leið erum við að færa áherslur í rekstri Íslandspósts af pósthúsunum og yfir á heimakstur. Við sjáum gríðarleg tækifæri í því," sagði Örn.

Hann sagði að þetta dreifingarkerfi mundi taka til ábyrgðarbréfa, allra pakka innanlands og einnig til pakka sem koma erlendis frá, svo framarlega sem tollameðhöndlun sé einföld. "Almennt er markmiðið að koma sem mestu af pökkum inn í þetta kerfi."

Heimkeyrslan án aukagjalds

Hann sagði að hingað til hefðum við boðið upp á heimkeyrslu sem greiða þyrfti aukalega fyrir. "En nú verður aðeins ein þjónustulína í stað þriggja. Allir pakkar verða því keyrðir heim og greiðir viðskiptavinurinn ekki aukalega fyrir það," sagði Örn.

Hann sagði einnig að tilraunir hefðu leitt í ljós að þeim hefði tekist að koma um 80% af pökkum til skila í fyrstu tilraun. "Ef viðkomandi er ekki heima skiljum við eftir tilkynningu um að pakki bíði móttakandans á pósthúsinu."

Örn sagði að það væri Íslandspósti sérstakt ánægjuefni að fyrirtækið gæti boðið upp á þessa þjónustu til um 90% af þjóðinni í upphafi. "Það eru örfáir smærri bæir sem ekki njóta þessarar þjónustu í fyrsta áfanga. En við erum sérstaklega stoltir af hve okkur tekst að hafa þetta kerfi víðtækt strax í upphafi," sagði Örn. Hann sagði að pakkar yrðu keyrðir heim til 85% þjóðarinnar fimm daga vikunnar, til um 5% einu sinni í viku. "Síðan eru staðir sem njóta landpóstaþjónustu, og hins vegar staðir þar sem þjónustan verður fyrst um sinn óbreytt," sagði Örn.

Starfsmenn í útkeyrslu með "posa" fyrir greiðslukort

Hann sagði einnig að umgjörð þjónustunnar hefði verið tekin til sérstakrar skoðunar, og væri betra að rekja hvaðan varan kæmi eftir uppsetningu kerfis sem Örn sagði að mætti nefna "rekja og finna". Með því fær hver sending sitt númer og sitt strikamerki, og munu sendendur og móttakendur því geta fylgst með því hvar sending er stödd í kerfinu gegnum heimasíðu Íslandspósts, www.postur.is. "Þetta kerfi er í mótun og við munum opna fyrir það á allra næstu vikum," sagði Örn.

Hann sagði að annað atriði markaði tímamót, og það væri að flestir starfsmanna í heimkeyrslu mundu verða með "posa" fyrir greiðslukort. "Þá verða því engin vandkvæði að taka á móti greiðslum með debetkorti, þegar viðskiptavinir vilja fá vörusendingu heim og staðgreiða fyrir hana. Þetta er eitt af því sem við lítum á sem lykilatriði til að hlúa að heimaverslun."

Örn sagði það vera ljóst að Ísland væri með þessu að komast í forystu meðal þjóða á því sviði að byggja upp sérstakt kerfi fyrir netverslanir og heimaverslanir. Við erum hér að opna kerfi sem er tvímælalaust bylting," sagði Örn V. Skúlason.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.