Ólafur  Þorláksson
Ólafur Þorláksson
Virðist vera að hefjast nýtt galdrafár, segir Ólafur Þorláksson, til að ná þeim hlunnindum sem bændur kunna að hafa af laxveiði.
Á MIÐÖLDUM afgreiddu menn gjarnan mál, sem þeir höfðu ekki þekkingu á, svo sem veikindi og nátturhamfarir, á þann veg að þau væru verk djöfulsins, og voru umboðsmenn hans, sem voru galdramennirnir, í mörgum tilfellum sendir beint á bálið án mikilla réttarhalda. Á öllum tímum hafa verið uppi miklir öfgamenn sérstaklega í stjórnmálum og trúmálum. Áður fórnuðu þessir menn gjarnan lífi sínu fyrir og létu jafnvel krossfesta sig fyrir sannfæringu sína. Nútíma öfgamenn hætta gjarnan að skera hár sitt og skegg til að leggja áherslu á sannfæringu sína. Á mínum yngri árum vann ég með manni, sem var svo mikill aðdáandi Stalíns sáluga, að hann taldi Stalín jafnvel fremri Guði almáttugum og svo mikill var sannfæringarkraftur þessa manns, að ég hefði sennilega tekið trú þarna, hefði ekki Morgunblaðslygin (sem síðar reyndist sönn) aftrað mér frá því.

Í röðum stangveiðimanna munu vera allmargir, sem falla undir framangreinda lýsingu. Þeir kenna oftast netum og netaveiðimönnum um þau mistök og vonbrigði, sem þeir hafa orðið fyrir í áhugamáli sínu, fiskirækt, og myndu kannske helst vilja nota aðferð Þorleifs Kortssonar, gagnvart þeim. Við þessa menn þýðir ekki að ræða. Það væri eins gott að ætla að brjóta stein með berum hnefa.

Vegna þeirrar umræðu, sem verið hefur að undanförnu um veiðimál, langar undirritaðan að leggja þar orð í belg og minna á nokkrar staðreyndir, hvernig hefur tekist til í ræktunarmálum á vatnafiski.

Fram undir 1920 mun óhemju magn hafa gengið af laxi í Elliðavatn. Allt var veitt í net og laxakistur. Grafarvogur var fullur af laxi, þar veiddi síðast Gísli Gíslason, sem kallaður var silfursmiður. Veitt var líka ótæpilega í sjó að Viðey. Ekkert lát virtist á veiðinni fyrr en byggðin óx og borgin stækkaði og árnar voru virkjaðar undir 1920. Þá fór veiðin að minnka. Til að stemma stigu við minnkandi veiði var bönnuð netaveiði í Grafarvogi, en veiðin hélt áfram að minnka, þá var brugðið á það ráð að kaupa upp sjávarveiði við Viðey. Árangurinn af þessu brambolti sjá allir í dag.

Varmá í Ölfusi var ein gjöfulasta sjóbirtingsá á landinu fram til 1930. Þar veiddu bændur ótæpilega í net og ádrátt og Reykjabóndi sætti lagi þegar lítið var í ánni að draga á í hylnum undir Reykjafossi. En upp úr 1930 þegar byggð tók að vaxa í Hveragerði tók að halla undan fæti með fiskgengd í ánni. Byggð var rafstöð ofan við fossinn, sem hindraði göngu fisks. Hleypt var vatni úr borholu í ána, sem drap allt líf í henni á löngum kafla. Afrennsli frá ullarþvottastöð var hleypt óhreinsuðu beint í ána og allt skolp hefur fram á þennan dag farið óhreinsað í ána. Enda er hún ekki svipuð því sem áður var og furðulegt að þó skuli vera þetta líf í henni.

Fyrir nokkrum árum var keypt upp öll netaveiði í Hvítá í Borgarfirði. Ekki hefi ég heyrt talað um neina veiðiaukningu í þverám hennar.

Fyrir tveimur árum voru keyptar upp netalagnir í Hvalfirði vegna Laxár í Kjós (fyrir 50 milljónir, sagði einhver mér.) Enginn sjáanlegur árangur er enn kominn.

Fyrir nokkrum árum tókst Orra Vigfússyni að afla fjár til að kaupa upp netalagnir fyrir lax í N-Atlantshafi. Sjálfur hafði undirritaður talsverða trú á þessu fyrirtæki, enda gengu ljótar sögur um ofveiði fiskimanna. Að vísu misstu nokkur hundruð sjómenn atvinnu sína. Ekki mun enn sjáanlegur árangur af þessu framtaki Orra.

1938 voru bændur í Árnessýslu, sem áttu land að vatnasvæði Ölfusár og Hvítár, narraðir af nokkrum stangveiðimönnum, að láta af hendi öll veiðiréttindi um 20 ára tímabil. Munu nokkru hafa ráðið þar um tröllasögur af veiði á Eyrarbakka. Skyldi nú bara veitt á stöng. Öllum sel skyldi útrýmt úr ánni og hún bókstaflega troðfyllt af laxi. Þess má geta að á þessum árum gerði eitt kópaskinn jafn mikið og 5-6 dilkar. Eigendur selveiði fengu 300 kr. í bætur á ári, sem fljótlega urðu einskis virði. Laxveiðibændur fengu engar bætur, en urðu samt sem áður að greiða skatta og skyldur af þessum hlunnindum. Eftir Þessi 20 ár var að vísu ágæt veiði í ánni og ekki minnkaði stangveiði neitt í henni með tilkomu netanna. En með lækkandi verði á laxi í kjölfar mikils framboðs á ódýrum eldislaxi hefir dregið stórlega úr netaveiði í ánni. Er nú svo komið að aðeins lítill hluti bænda nýtir sér þessi hlunnindi. Ekki er sjáanlegt að stangveiði hafi vaxið fyrir það, eins og sjá má á línuriti sem fylgir ágætri grein sem Þorfinnur Snorrason skrifaði í Morgunbl. 29/10 sl. þrátt fyrir þessar staðreyndir virðist vera að hefjast nýtt galdrafár til að ná þeim hlunnindum sem bændur kunna að hafa af laxveiði.

Ég tel mig hafa fært hér nokkur rök fyrir því, að netaveiði sé ekki sá ógnvaldur gagnvart veiði í ánni, sem af er látið. Læt ég þessu spjalli þá lokið að sinni. Í annarri grein mun ég fjalla um aðra orsakavalda fyrir minnkandi veiði í sumum ám.

Höfundur er bóndi og netaveiðimaður.