Tryggvi Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið á skotskónum með norska úrvalsdeildarfélaginu Tromsø að undanförnu. Hann gerði sitt fjórða mark í þremur leikjum er liðið lék gegn Króatíu Zagreb í æfingaleik á La Manga á Spáni í gær.
Tryggvi Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið á skotskónum með norska úrvalsdeildarfélaginu Tromsø að undanförnu. Hann gerði sitt fjórða mark í þremur leikjum er liðið lék gegn Króatíu Zagreb í æfingaleik á La Manga á Spáni í gær. Mark Tryggva kom 14 mínútum fyrir leikslok en það þótti sérlega glæsilegt. Tryggvi fékk knöttinn við vítateig og skoraði með föstu skoti. Robert Prosinecki hafði áður komið Zagreb yfir í leiknum en Tryggvi og félagar misnotuðu mörg góð færi í leiknum áður en þeim tókst að jafna. Tryggvi hefur einnig skorað í 2:1-sigri gegn Molde og 2:5-tapi gegn Bodø/Glimt. Terje Skarsfjord, þjálfari Tromsø, sagði í samtali við dagblaðið Nordlys að samvinna framherja liðsins væri einstaklega góð en hann óttaðist að hann fengi ekki notið krafta Tryggva allt næsta tímabilið og að hann yrði seldur frá félaginu áður en því lyki í haust.