"Fólk er fast í þessari hugmynd um að mannslíf sé heilagt. Ég efast um það. Þessi hugmynd er síðan á miðöldum, frá því fyrir Upplýsinguna."

Hugmyndir hafa afleiðingar ef þeim er sleppt lausum í mannheimum. Sagan hefur sýnt oftar en einu sinni að það sem er fagurt og fínt í huga manns, rökrétt, samfellt öllum til hagsbóta, reynist oft, er því er hrint í framkvæmd, óvinnandi, óvinsælt og jafnvel ómannúðlegt.

En menn eru samt ennþá að fá hugmyndir og þær ekki allar venjulegar. Heimspekingurinn Peter Singer er einn þessara manna sem hafa fengið hugmyndir sem ekki eru í samræmi við hefðbundinn þankagang. Ein kenninga hans er sú, að það sé siðferðislega réttlætanlegt að deyða fötluð börn við eða skömmu eftir fæðingu.

Helstu rök hans fyrir þessari hugmynd eru þau, að þessi börn hafi ekki nægilega miklar andlegar gáfur til að geta talist skyni gæddar verur. Því sé betra að barn, sem fæðist alvarlega fatlað, deyi frekar en að lifa ömurlegu lífi, jafnvel fullkomlega án vitundar, foreldrum sínum og samfélaginu til byrði.

Í ljósi þessa þarf varla að taka fram að Singer er fylgjandi frjálsum fóstureyðingum, tilraunum með fósturvísa og líknardrápum á þeim sem það vilja sjálfir. "Fólk er fast í þessari hugmynd um að mannslíf sé heilagt. Ég efast um það. Þessi hugmynd er síðan á miðöldum, frá því fyrir Upplýsinguna," sagði Singer í viðtali við kanadíska blaðið National Post nýverið.

Það er ekki ólíklegt að einhverjum detti í hug að það sé alveg spurning hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt að fá svona hugmyndir, hvað þá að bera þær á borð fyrir fólk og ætlast til að það taki eitthvert mark á manni.

Singer er sérfræðingur í lífsiðfræði við Princetonháskóla í Bandaríkjunum, og má reikna með að hann kenni nemendum sínum þessar hugmyndir. Er maðurinn þá ekki hættulegur? Nógu mörgum hefur fundist það, og hann hefur verið uppnefndur prófessor Dauði. Póstsendingar til hans eru gegnumlýstar ef ske kynni að einhver yrði sannfærður um að Singer væri það hættulegur að réttlætanlegt væri að senda honum drápspóst.

Hann er nýlega byrjaður að kenna í Bandaríkjunum, þar sem frægir prófessorar geta fengið svimandi há laun. Singer er Ástrali og starfaði lengst af við háskóla í heimaborg sinni, Melbourne. Hann er fyrir löngu þekktur innan fræðigreinarinnar fyrir hugmyndir sínar, en það var ekki fyrr en hann kom til Bandaríkjanna að ýmis samtök fóru að láta í sér heyra og mótmæla. Jafnvel með aðgerðum.

"Þetta er mjög hættulegur maður," var haft eftir formanni samtakanna Ekki dauðir enn, sem eru hagsmunasamtök fatlaðra. En það er lítil hætta á að Singer missi vinnuna, því hann er æviráðinn, eins og algengt er með háskólaprófessora. Það er meira að segja beinlínis tilgangur æviráðningarinnar að koma í veg fyrir að hægt sé að reka þá þótt hugmyndir þeirra séu óvinsælar. Kannski eru menn minnugir þess hvernig fór fyrir erkiheimspekingnum Sókratesi, sem var talinn hafa og kenna svo hættulegar hugmyndir að hann var tekinn af lífi.

En Singer er ekki hættulegur, frekar en aðrir sem hugsa í skjóli háskólaveggja. Auðvitað má halda því fram að hugmyndir þeirra rati út fyrir þessa veggi þar eð nemendur gleypa þær í sig og bera þær út. En þá er því til að svara, að flestir þessara nemenda gera sér þess fulla grein, að það sem þeir heyra í fyrirlestrarsölum er líkast viðkvæmri gróðurhúsajurt sem fölnar og deyr ef hún er borin út í kuldann.

Aðrir háskólamenn eru yfir sig hrifnir af Singer. Haft var eftir heimspekiprófessor við New York-háskóla að Singer væri "virtasti prófessor" sem komið hefði frá Ástralíu. En það sama á ekki við annan háskólamann með undarlegar hugmyndir, kanadíska sálfræðinginn Philippe Rushton. Hann hefur nýlega gefið út stytta útgáfu af bók, sem hann gaf fyrst út fyrir fimm árum, þar sem hann heldur því fram að tengsl séu á milli kynþáttar og heilastærðar, gáfnafars, glæpatíðni, mökunartíðni og getnaðarlimsstærðar. Segir hann fólk af asískum uppruna hafa stærsta heilann og mestu gáfurnar, en fólk af afrískum uppruna er á hinum endanum. Hvítt fólk er þarna á milli, samkvæmt kenningunni.

Rushton hefur verið sakaður um kynþáttahatur, ekki bara af fólki utan veggja háskólans, heldur einnig af kollegum sínum bæði í Bandaríkjunum og Kanada. Segja þeir vísindi hans kynda undir hatri og hefur meira að segja verið veist að útgefandanum. Rushton sjálfur segir viðbrögðin til marks um hversu langt pólitísk rétthugsun sé gengin.

Líkt og Singer er Rushton æviráðinn og verður ekki rekinn þótt hugmyndir hans séu ekki vinsælar. Og hann er varla hættulegur frekar en Singer, því ekki er líklegt að kenning hans muni verða meira en orð á bók. Það er samt ekki nema von að manni verði á að spyrja sem svo, hvað komi mönnunum til að halda svona hugmyndum fram.

Kannski eru þeir bara fastir í neti háskólaveraldarinnar, þar sem menn verða að hafa ákveðnar hugmyndir og helst einhliða til að eftir þeim sé tekið og bækurnar þeirra seljist. Svona eins og menn verða að geta haldið háa c-inu þegar kemur á óperusviðið. En fyrir utan óperuhúsið vill fólk aftur á móti síður heyra þann tón.

Það væri því ekki alveg út í hött að halda því fram, að það sem reki virðulega háskólaprófessora til að viðra langsóttar hugmyndir af mikilli alvöru sé aðallega athyglisþörf, fremur en að þeir telji þessar hugmyndir raunhæfar.

Kristján G. Arngrímsson