13. febrúar 2000 | Sunnudagsblað | 1600 orð | 4 myndir

Smíðaði fyrstu íslensku flugvélina

Gunnar Jónasson við málverk af flugvélinni Ögn.
Gunnar Jónasson við málverk af flugvélinni Ögn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SUMARDAG einn árið 1928 var ungur maður á gangi í miðbæ Reykjavíkur.
SUMARDAG einn árið 1928 var ungur maður á gangi í miðbæ Reykjavíkur.

Þá vindur sér að honum maður og spyr hann hvort hann geti hugsað sér að hjálpa Þjóðverjum að draga sjóflugvél á land, vél þessi var önnur tveggja flugvéla sem fyrstar voru hafðar í farþegaflutningum hér við land. Ungi maðurinn sem var heitir Gunnar Jónasson og er nú 92 ára gamall en man þó þennan atburð eins og hann hafi gerst í gær. Þetta atvik hrinti enda af stað óvæntri atburðarás í lífi Gunnars.

"Ég, sem fæddur var og alinn upp í stórum systkinahópi í Garðshúsum á Eyrarbakka, hafði komið hingað til Reykjavíkur 16 ára til að læra járnsmíði og var nýlega búinn að taka sveinsprófið eftir þriggja ára nám þegar ég var að spásséra þarna í Austurstrætinu rétt hjá Eimskip og fékk þetta tilboð. Aðstæður voru þá öðruvísi en þær eru í dag, plan var austan við Eimskipafélagshúsið og vélin sem hét Súlan var tekin upp á steinbryggjuna.

Maðurinn sem bað mig um að hjálpa Þjóðverjunum við þetta verk hafði sjálfur dregist á að gera það, en einhverra hluta vegna vildi hann losna við verkið og bað mig þess vegna að taka það að mér. Ég hjálpaði þeim Simon flugmanni og Wind flugvirkja að draga Súluna upp á bryggjuna, þetta var vél af gerðinni Junkers F13. Við komum vélinni upp á bryggjuna þar sem henni var gert til góða og þar með var ég kominn inn í flugið," segir Gunnar Jónasson.

Í flugvirkjanám til Berlínar

Æði margt hefur gerst frá því hann var að rogast með sjóflugvélina Súluna upp á steinbryggjuna hjá Eimskip ásamt þeim Simon og Wind. Í millitíðinni hefur heil mannsævi liðið, breytingarnar á íslensku samfélagi eru ótrúlegar og flugið sem var nýr og lítt reyndur ferðamáti þá er nú orðinn stór þáttur í lífi allra Íslendinga hvað snertir bæði inn- og útflutning og ferðalög. Fljótlega eftir að Gunnar gerðist aðstoðarmaður Þjóðverjanna Simon og Wind lærði hann ásamt tveimur öðrum Íslendingum flugvirkjun í Þýskalandi og voru þeir fyrstir Íslendinga til að leggja stund á það nám. Gunnar staðfestist þó ekki í flugvirkjastarfinu enda varla hægt að lifa af þeirri vinnu einvörðungu þegar þarna var komið sögu.

Stofnaði fyrirtækið Stálhúsgögn

Ásamt félaga sínu Birni Olsen stofnaði Gunnar árið 1933 fyrirtækið Stálhúsgögn sem sonur hans rekur í dag. Gunnar lét af stjórn fyrirtækis síns fyrir aldurs sakir fyrir nokkrum árum og á nú náðuga daga á heimili sínu við Langagerði í Reykjavík.

Þar býr hann ásamt konu sinni Önnu Jónsdóttur. Á einum vegg heimilisins hangir mynd af flugvél sem ber nafnið Ögn. Þetta er sögufræg vél, hún er fyrsta flugvélin sem smíðuð var af Íslendingum og hangir nú uppi í Leifsstöð til minningar um áræðni og framtak þeirra Gunnars Jónassonar og fyrrnefnds Björns Olsens, hann stundaði flugvirkjanámið ásamt Gunnari veturinn 1928-29 og saman hófu þeir að smíða umrædda flugvél laust fyrir áramótin 1931-32. Þá voru þeir fyrir nokkru komnir heim frá flugvirkjanáminu. "Við lærðum hjá Lufthansa í Berlín. Aðdragandinn að því að ég fór í flugvirkjanámið var að Flugfélag Íslands II auglýsti eftir mönnum til þess að læra flugvirkjun í Þýskalandi. Ég sótti um og það gerði 31 auk mín. Við vorum valdir þrír járnsmiðir úr hópnum, ég, Björn Olsen og Jóhann Þorláksson. Vegna þess að við höfðum sveinspróf í járnsmíði var námstími okkar fremur stuttur - eða rúmlega eitt ár.

Það var dr. Alexander Jóhannesson sem auglýsti nám þetta í Morgunblaðinu," segir Gunnar.

Ný viðreisnaröld er í vændum!

Alexander Jóhannesson var menntaður í Þýskalandi og hafði brennandi áhuga á að Íslendingar gætu hagnýtt sér hinn nýja ferðamáta flugið. "Ný viðreisnaröld er í vændum, aukin framleiðsla til lands og sjávar og endurbættar samgöngur. Flugvélar á Íslandi verða einn þáttur í þessu starfi," sagði hann í grein í Lesbók Morgunblaðsins 15. nóvember 1925. Í framhaldi af þessu fékk Alexander ásamt fleirum leigða flugvél hjá Lufthansa til þess að fljúga á Íslandi.

Til þess að þetta mætti fram ganga stofnaði hann Flugfélag Íslands II í Kaupþingssalnum hinn 1. maí 1928. Stofnendur voru 25 og framlagt hlutafé var 20.000 krónur. Markmiðið var að hafa innlenda starfsmenn og í framhaldi af því voru þeir Gunnar, Björn og Jóhann sendir til Berlín í flugvirkjanám. Ekki lætur Gunnar mikið af erfiðleikum í sambandi við námið. "Þetta var eiginlega í okkar fagi, að skrúfa rær og þess háttar. Við fórum með Lýru út til Bergen og þaðan með járnbraut til Þýskalands. Ég leigði herbergi með manni sem Christiansen hét. Við bjuggum saman á námstímanum. Þeir Björn og Jóhann leigðu aftur saman herbergi."

Smíðaði húsgögn í Hressingarskálann

"Eftir námið kom ég heim og þá var fengin flugvél frá Lufthansa og var flugmaður Sigurður Jónsson, Siggi flug sem kallaður var.

Þá þurfti flugvirkinn að fylgja flugmanninum á ferðum hans, bæði í síldarleit og í farþegaflutningum.

Yfirleitt var lent á höfninni, þetta var sjóflugvél og enginn flugvöllur var kominn hér þá. Björn Olsen vann sem flugvirki líka og Björn Eiríksson var flugmaður auk Sigurðar. Flogið var með farþega út um allt land og lent á sjónum fyrir framan þorpin. Allt gekk vel, engin slys urðu á mönnum meðan við vorum við þetta. Ég hætti í fluginu þegar fleiri menn komu með flugvirkjamenntun.

Þegar við járnsmiðirnir, ég og Björn Olsen, stofnuðum saman fyrirtækið Stálhúsgögn, sem enn er starfandi, var slík smíði nýlunda. Það gekk hins vegar vel að koma þessu fyrirtæki á fót. Við vorum nýbúnir að opna þegar til okkar kom maður sem var að stofna "restration" í miðbænum og hann pantaði hjá okkur húsgögn," segir Gunnar. "Hann var að opna Hressingarskálann," skýtur Anna kona hans inn í, hún situr hjá okkur í stofunni og hlýðir á samtalið. "Mikið rétt, það fyrsta sem við smíðuðum voru sem sagt stólar og borð í Hressingarskálann við Austurstræti," segir Gunnar og brosir. Þau hjón eiga sannarlega margar sameiginlegar minningar, þau eru búin að vera í hjónabandi hátt í sjötíu ár og eiga saman fjögur börn. "Við kynntumst bara í Reykjavík," segir Gunnar og vill greinilega ekki upplýsa mig meira en þörf er á um aðdraganda hjónabandsins.

"Þetta hefur verið blessunarríkt samband," bætir Anna hægversklega við. Hún hefur aldrei unnið utan heimilis. "Þegar ég var ung tíðkaðist slíkt varla." Anna fæddist í Reykjavík 25. febrúar 1910 en ólst upp eftir átta ára aldur á Hornafirði hjá frændfólki sínu. Ung að árum kom hún aftur til Reykjavíkur og var að læra þar saumaskap um það leyti sem þau Gunnar kynntust.

Ég vík talinu aftur að sögu fyrirtækisins Stálhúsgagna.

Í upphafi ráku þeir Gunnar og Björn Olsen hið nýja fyrirtæki í kjallaranum hjá dr. Alexander Jóhannessyni en fljótlega fengu þeir lóð við Skúlagötu og hófu byggingarframkvæmdir. "Við vorum að grafa grunninn undir verksmiðjuhús þegar Björn veiktist og dó. Ég ákvað að halda áfram með bygginguna og fyrirtækið og það gekk vel. Fyrirmyndina að stálhúsgagnasmíðinni fékk ég í Þýskalandi. Það var fyrirtæki í Austurríki sem byrjaði með stálhúsgögn og ég sá framleiðsluna frá þeim," segir Gunnar.

Smíðuðu flugvél eftir leiðbeiningarbæklingi

Ég spyr næst út í smíði flugvélarinnar Agnar, sem hangir eins og fyrr sagði í Leifsstöð núna. "Við smíðuðum hana samkvæmt leiðbeiningum úr bæklingi sem við höfðum orðið okkur úti um.

Skrokkurinn er úr timbri og járni en mótorinn þurftum við að flytja inn," segir Gunnar.

Örn Johnsen reynsluflaug þessari vél. Eftir fyrsta flugið þurfti ýmislegt að laga. Eftir það var vélinni flogið um tíma en svo komu Bretarnir og þeir bönnuðu að vélinni væri flogið, sögðu að það truflaði flug hjá hernum. Okkur var gert að taka vélina í sundur og það gerðum við. Ég geymdi hana á verkstæðinu á Skúlagötunni. Hún var ekki sett saman aftur fyrr en löngu síðar. Við Björn ákváðum að smíða vélina vegna þess að við vildum stuðla að flugi á Íslandi. Verkinu lukum við 12. júní 1932. Þann dag var vélin, er nefnd var Ögnin, til sýnis í KR-húsinu.

Hreyfil vantaði þá og hann fékkst ekki fyrr en eftir allmörg ár.

Flugvélinni var loks reynsluflogið 23. nóbember 1940. Fyrst þurfti að útbúa flugbraut fyrir vélina. Það var gert upp undir Öskjuhlíð, grjót var sprengt og dregið á brott og gerð smáflugbraut þar sem Ögnin var gangsett. Í bók um sögu flugvirkjunar á Íslandi segir Lýður Björnsson að þeir Gunnar Jónasson og Björn Olsen hafi verið brautryðjendur í flugvélasmíði á Íslandi og hafi ekki átt marga sporgöngumenn.

Þær vélar eru ekki í tísku lengur

Eftir að Gunnar stofnaði fyrirtækið Stálhúsgögn hætti hann störfum sem flugvirki eins og áður er nefnt en eigi að síður var hann viðloðandi flugið lengi á eftir.

"Það var leitað til mín stundum til þess að skoða flugvélar, m.a. fór ég með Jóhannesi Snorrasyni til Kanada til að skoða Catalínu-flugbát sem til stóð að kaupa. Það var snjór þegar við komum svo vélin var alsnjóug en ég hafði heyrt að það ætti að rigna daginn eftir svo ég bað um dagsfrest og fékk hann - þá gat ég skoðað vélina almennilega og það endaði með því að hún var keypt. Þær vélar eru nú ekki í tísku í dag," segir Gunnar og brosir. Víst er að margt hefur breyst í flugheiminum frá því Gunnar var á ferð í Kanada að skoða Catalínu-flugbáta, hvað þá síðan hann var að smíða Ögnina ásamt félaga sínum Birni Olsen. Það sem hins vegar hefur ekki breyst er þörf manna fyrir þá samgöngutækni sem flugið er. Á nýhafinni hátækniöld er ekki úr vegi að líta um öxl til frumherjanna sem af áræðni og þolgæði tóku sér slík verk fyrir hendur sem að smíða á ófullkomnu verkstæði uppi á Íslandi flugvél úr timbri og járni og ryðja svo sjálfir litla flugbraut svo hægt væri að gangsetja smíðisgripinn. Það er fyrir verk manna af þessari gerð sem við fljúgum nú hvert á land sem er á skömmum tíma.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.