Hálf öld er nú síðan friðun og trjárækt hófst á Heiðmörk í landi Elliðavatns og árangurinn er undraverður. Þarna var áður beitarland sem búið var að ganga svo nærri að uppblástur var næsta þróunarskref.
Hálf öld er nú síðan friðun og trjárækt hófst á Heiðmörk í landi Elliðavatns og árangurinn er undraverður. Þarna var áður beitarland sem búið var að ganga svo nærri að uppblástur var næsta þróunarskref.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elliðavatn varð á allra vörum 1860 þegar Benedikt Sveinsson dómstjóri flutti þangað og ætlaði að koma upp fyrirmyndarbúskap og prentsmiðju. Hvorttveggja mistókst. Vatnið var stækkað um meira en helming með stíflu 1924, búskap var hætt á jörðinni 1941 og síðar var hún lögð undir friðlandið á Heiðmörk. Eftir hálfa öld má segja að draumur um útivistarparadís höfuðborgarinnar hafi ræzt.

ÁRIÐ 1860 beinist kastljósið í fásinni hins íslenzka bændaþjóðfélags í svo ríkum mæli að Elliðavatni, að staðurinn verður á hvers manns vörum. Benedikt Sveinsson, alþingismaður og yfirdómari í Reykjavík, kaupir þá jörðina af ekkjunni Guðrúnu Jónsdóttur með það fyrir augum að gera hana að stærstu bújörð á Íslandi; jafnvel að þar yrði "fyrirmyndarbýli" eins og Benedikt orðaði það í bréfi til Jóns Sigurðssonar: "Eg skal gjöra Elliðavatnið að Mönstergaard..."

Benedikt var stórhuga maður, forframaður úr laganámi í Kaupmannahöfn og þótti höfðinglegra að búa á fallegri jörð en í hinni hálfdönsku Reykjavík, enda sagði hann: "...ég vil heldur láta dysja mig lifandi niður í grænan hól en svelta og kafna hérna á mölinni þar sem enginn kraftur, líkamlegur eða andlegur þrífst."

Kaupverðið var 3.000 ríkisdalir, mikið fé fyrir mann sem var fremur skuldugur en auðugur. Þessu var þó hægt að koma í kring með því að Katrín kona Benedikts, skagfirzk höfðingjadóttir, fékk fyrirfram greiddan arf frá foreldrum sínum á Reynistað. Fyrir utan rúmlega 2.000 ríkisdali gat Katrín lagt með sér til búsins fjórar mjólkandi kýr, 15 fullorðna sauði, 50 veturgamlar gimbrar, 4 hesta með reiðingum, 20 lömb og þar að auki sængur og kodda.

Eitt var víst: Hafi sá áratugar gamli torfbær, sem heldur vafasöm teikning sýnir að hafi staðið á Elliðavatni, þá ætlaði assessorinn ekki að flytja í hann. Úti í Kaupmannahöfn hafði hann kynnst Sverri Runólfssyni steinhöggvara, sem síðar byggði Þingeyrakirkju í Húnaþingi og Íþöku, bókhlöðu Lærða skólans í Reykjavík. Benedikt linnti ekki látum fyrr en hann fékk Sverri til að flytjast heim frá Danmörku; borgaði farið og hét honum ríflegum árslaunum. Það urðu þó vanefndir á launagreiðslunum og Sverrir fór í fússi frá verkinu áður en húsið var risið. Það er því ekki hægt að telja Elliðavatnshúsið eitt af verkum Sverris, en það er engu að síður eitt af elztu steinhlöðnu húsunum á landinu. Eins og fram kom í fyrri greininni var þetta ekki steinbær með burstum, heldur hús með venjulegu lagi og fjórum gluggum á suðurhlið, 50 fermetrar að stærð, kjallari, hæð og loft. Þetta hús stendur enn á Elliðavatni, bárujárnsklætt að vísu og búið að byggja við það. (Sjá forsíðumynd).

Á árinu 1861 er assesorinn fluttur að Elliðavatni með fjölskyldu sína og bústofninn er þá 200 fjár, 8 kýr og 7 hestar. Í heimili eru 16 manns með vinnukonum og vinnumönnum, en frú Katrín flutti hálfnauðug uppeftir og leið eins og hún væri í fangelsi. Það hafa líka verið mikil viðbrigði fyrir hana að láta af sínu hógværa yfirstéttarlífi í Reykjavík og fara að stýra búi. Það hefur hún orðið að gera því húsbóndinn fór ríðandi til vinnu sinnar í Reykjavík að morgni og það sem verra var: Hann kom oft seint heim og var þá drukkinn.

Benedikt Sveinssyni var margt vel gefið. En í aðra röndina var hann eins og bandvitlaus maður. Áföllin létu heldur ekki á sér standa á Elliðavatni. Fjárkláði tók sig upp og það var reiðarslag. Benedikt misstri trú á lækningum og gerðist ákafur niðurskurðarsinni. En fjárbú sitt missti hann og í framhaldi af því lét hann eins og óður maður og réðist ákaflega á stjórnvöld í blaði sínu, Íslendingi.

Heimatilbúinn ófriður magnaðist þegar Benedikt hugðist bæta Elliðavatnsengjar með áveitu. Hann lét stífla Dimmu og Bugðu og Elliðaárnar þornuðu. Það gat hann vitað fyrirfram og þar með að Thomsen kaupmaður, sem átti laxveiðiréttinn, biði stórtjón. Af þessu spratt langvarandi málaþras.

Elliðavatnsbóndinn herti á drykkjunni samfara öllu þessu. Myrkfælni hans var fræg. Bágt átti hann með að ríða upp að Elliðavatni á kvöldin eftir að dimmt var orðið; varð jafnvel að drekka í sig kjark til þess. Menn höfðu orðið úti á þessum slóðum, illa búnir í vetrarveðrum. Til dæmis rakst ég á heimild um að langalangafi minn, Eyvindur bóndi í Miðdalskoti í Laugardal, hafði drukknað í Bugðu í marzmánuði 1823. Ekki sýnist Bugða þó vera neitt skaðræðis vatnsfall.

Á fyrstu búskaparárum Benedikts og Katrínar á Elliðavatni varð Magnús nokkur frá Lækjarbotnum úti við vatnið. Líkið var látið standa uppi í Elliðavatnsbænum og var því um kennt að mikill reimleiki fór að gera vart við sig. Hafði fólk stundum ekki svefnfrið vikum saman fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Ýmsan annan óskunda gerði þessi afturganga Magnúsar, til að mynda sligaði hún tvö hross. Mest sótti þessi draugur þó að vinnumanninum Erlendi, sem verið hafði drykkjufélagi Magnúsar.

Eftir að Erlendur fór frá Vatni færði draugurinn sig í beitarhús og loks út í mýri þar sem Magnús hafði orðið úti. Var hann eftir það nefndur Mýrardraugurinn. Átti hann sinn þátt í því að Benedikt bjóst sífellt við því að mæta draugi á leiðinni upp að Vatni.

Gæfan varð ekki samferða þessari fjölskyldu að Elliðavatni. Það voru líkt og álög talsvert löngu síðar, 1. júní 1900, þegar sonur þeirra hjóna, efnismaðurinn Ólafur Sveinar Haukur, þá 28 ára gamall, átti leið heim að Elliðavatni til að vera viðstaddur úttekt á jörðinni fyrir hönd erfingja.

Þetta var greið og hættulaus leið ef farið er sunnan vatnsins, en norðan megin þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn milli Elliða- og Hellisvatns. Þeim megin fór Ólafur Sveinar og kallaði á ferju við álinn, en fékk ekki svar. Hann ákvað að sundríða, klæddur þungri kápu og skjöl tók hann úr hnakktösku og stakk inn á sig. En eitthvað óvænt kom fyrir; hesturinn steyptist í álinn og flæktist í taumnum. Ólafur varð undir og þótt hann væri vel syndur dugði það ekki; hann sökk og drukknaði.

Gæfan brosti hinsvegar við þeim Elliðavatnshjónum 31. október 1864 þegar frú Katrín varð léttari löngu fyrir tímann og drengur fæddist. Hann var skírður Einar og varð á fullorðinsárum svo frægur og umtalaður með þjóð sinni sem stórskáld og ævintýramaður, að núna, 60 árum eftir að hann lézt, selst ævisaga hans eins og heitar lummur. Nútíminn hefur ekki lengur ljóðin hans á hraðbergi eins og menn höfðu á fyrri hluta 20. aldarinnar, en hann dáist að skáldinu og manninum sem lifði eins og greifi í útlöndum á því að stofna hlutafélög og gera út á vonir og bjartsýni. Svo segjum við núna: Sem betur fer sluppu hinir fögru fossar okkar frá þessu óskaddaðir.

Sama ár og þjóðskáldið tilvonandi fæddist varð assessorinn á Elliðavatni þingmaður Árnesinga. Samtímis átti hann að sinna störfum sínum í húsi Landsyfirdóms við Austurstræti. Uppi á Elliðavatni mátti frú Katrín una með börnin þeirra; stolt höfðingskona með eigin reikning í verzluninni Glasgow. Það var í hæsta máta óvenjulegt. Þar kom að eyðslusemi hennar gekk fram af húsbóndanum og þóttist hann til neyddur að loka fyrir úttektir frúarinnar á munaðarvöru.

En um hlöðin á Elliðavatni vappaði Einar litli; þar liggja bernskuspor hans og ugglaust niðri við vatnið sem ævinlega hefur mikið aðdráttarafl á unga sveina með ævintýrahug. Hann var þriggja ára þegar hann eignaðist systurina Kristínu, en ári síðar kom dauðinn og sótti Svein litla bróður hans, sem þá var bara 6 ára. Það voru bæði skin og skúrir á Elliðavatni.

Það sem næst bar til tíðinda á Vatni var að hingað til lands kom danskur áveitumeistari, Niels Jörgensen, árið 1869. Næsti draumur í draumalandinu var að hann kæmi á stórkostlegri áveitu; nú skyldu Elliðavatnsengjar bættar svo um munaði. Þá voru 60 menn ráðnir í vinnu við að hlaða kílómetra langan stíflugarð sem náði þvert yfir Dimmu, útrennslið úr Elliðavatni. Með því vannst tvennt: Assessorinn gat veitt vatni á engjarnar og haft vatnsrennslið í Elliðaánum á valdi sínu. Honum þóknaðist að skrúfa fyrir um leið og laxveiðitíminn hófst sumarið 1869 og allt varð vitlaust. Áður en lögbanni hafði verið komið á hleypti Benedikt úr stíflunni og vatnsflóðið sópaði laxakistunum burt. Þá hefur verið gaman á Elliðavatni.

En ekki til langframa. Reiðarslagið dundi yfir 19. ágúst 1870 þegar Benedikt Sveinsson var sviptur embætti fyrirvaralaust. Ugglaust var það ekki að ástæðulausu og ekki fékk hann góða einkunn hjá Jóni Sigurðssyni: "Bensi var efnilegur, en hann er strax grunnskemmdur, - og svo er það fylleríið!"

Næsti draumur á Elliðavatni snerist um prentsmiðju og blaðaútgáfu. En til þess vantaði fé og næst var Elliðavatnsbóndinn önnum kafinn við fjársöfnun í þessu augnamiði. Sumir gamlir samherjar töldu hann nú genginn af göflunum og ekki var það fjarri sanni, því sjálfur hirti hann hluta þess fjár sem tókst að skrapa saman.

Blaðið Þjóðólfur birti þá frétt 9. marz 1872 að leturstokkar og pressa væru í smíðum á Elliðavatni, en von væri á pappír, letri og svertu með næsta skipi. Meinið var, að leyfi þurfti til prentsmiðjureksturs og slíkt leyfi hafði Elliðavatnsbóndinn ekki.

Heima á Vatni beið prentari verkefnalaus og fór að verða óþolinmóður. Hann fór að prenta ýmislegt smálegt í leyfisleysi, sem varð til þess eins að sýslumaðurinn kom og innsiglaði græjurnar. Leyfið fékkst aldrei.

Bensi var sagður þrotinn að kröftum eftir þetta, en þó ekki meir en svo að sumarið 1872 fæddist þeim hjónum sonurinn Ólafur Sveinar Haukur sem áður er frá sagt. Um haustið hafði frú Katrín fengið nóg og flutti til Reykjavíkur með tvö börn sín og varð þar með hálfgerð betlikerling. En mælirinn var fullur og formlega var gengið frá skilnaði þeirra hjóna í desember 1872. Einsi litli varð eftir hjá hinum galna föður sínum á Elliðavatni.

Nú var fátt um fína drætti í steinhúsinu á Elliðavatni. Búskapurinn hafði drabbast niður og slægjur á hinum rómuðu engjum voru leigðar út til manna í Reykjavík. Sárast hefur verið að húsmóðurina vantaði. Hjón voru fengin til að sjá um heimilishald, en voru ekki vandanum vaxin og sóðaskapurin gekk út yfir allan þjófabálk. Einar litli undi hag sínum illa, enda varð afleiðingin af sóðaskapnum sú að hann fékk sull. Faðir hans unni honum mjög, en hann var út og suður á ferðalögum og gat ekki sinnt börnunum, Einari og Kristínu. Sjálfsagt hefur það bjargað Einsa litla að hann var um tíma sendur í fóstur til Gríms Thomsens, skálds og bónda á Bessastöðum. En það var ekki til frambúðar.

Þjóðhátíðarsumarið 1874 ferðbjuggust þeir feðgar frá Elliðavatni og riðu yfir fjöll og firnindi norður í land, því Benedikt hafði verið skipaður sýslumaður Þingeyinga. Búið á Elliðavatni fól hann í hendur Jóni bróður sínum. Svo fór eftir mikið þras, að hann hélt ekki Elliðavatninu lengur, enda hafði hann slegið lán fyrir stærstu, gjaldföllnu veðskuldunum og ekki staðið í skilum með afborganir.

Haustið 1876 urðu eigendaskipti þegar lánveitandinn, Sæmundur Sæmundsson í Reykjakoti í Ölfusi, fékk landshöfðingjaritarann til að ljúka málinu.

Hljóðnar um Elliðavatn

Kastljós fréttanna hafði oft beinzt að Elliðavatni í hálfan annan áratug. Nú komu þeir tímar að Elliðavatnsbændur voru ekki fréttaefni. Um 1907 keypti Páll Stefánsson Elliðavatn fyrir andvirði nokkurra jarða sem hann hafði erft. En honum búnaðist ekki þar; hann seldi jörðina og flutti að Ásólfsstöðum í Gnúpverjahreppi árið 1917 og varð vel metinn sunnlenzkur höfðingi með hökutopp.Á ljósmynd sem Pétur Brynjólfsson tók af Elliðavatnsbænum 1910 má sjá að búið er að byggja timburhús vestan við steinhúsið og má gera ráð fyrir að Páll hafi byggt það. Líklega hefur steinhúsið verið kalt, enda var þá ekki um neina góða einangrun að ræða, helzt að mór væri notaður til þess eða moð.

Timburhúsið sem sést á myndinni frá 1910 stendur ennþá, en annað hús var byggt vestan við það 1946, einnig úr timbri. Þá var sett upp kúabú, sem kann að virðast undarleg ráðstöfun á túnalausri jörð, en tilgangurinn var sá að koma á fót vistheimili fyrir vinnuhæfa sjúklinga af Kleppsspítala. Þeir unnu við búið og sú starfsemi stóð til 1960.

Á ljósmynd Péturs Brynjólfssonar má sjá skúr niðri við vatnið, sem greinilega hefur verið búið í, en menn vita ekki lengur deili á honum. Þarna sést steinbrú sem notuð var til að stikla yfir álinn og auðvelda mönnum að komast á engjarnar. Þar sést einnig bátur á leið yfir álinn; fínir menn og spariklæddir á ferð.

Rafmagnsveita Reykjavíkur eignast Elliðavatn

Síðasti ábúandinn á Elliðavatni, sem bjó þar á hefðbundinn hátt, hætti 1941. Þá hafði verið kippt grundvelli undan þeim búskap á jörðinni, sem reistur var á engjaheyskap og túnið var eftir sem áður afar lítið. Þessi umskipti urðu með því að Rafmagnsveita Reykjavíkur keypti jörðina á árunum 1923-´28 af Kristjáni Ziemsen, bæjarstjóra í Reykjavík, Þórði Sveinssyni, lækni á Kleppi, og Emil Rockstad, sem var norskur verzlunarmaður. Ugglaust hefur þessi þrenning verið með einhverjar fyrirætlanir um nýtingu á jörðinni - eða vatninu, en ekki er vitað hverjar þær voru. Þeir fengu hver um sig að halda eftir einum hektara lands.

En hversvegna sóttist Rafveitan eftir Elliðavatni? Forsaga þess er virkjun Elliðaánna, sem hafði verið á döfinni frá 1914, en fram að þeim tíma hafði gas orðið ofaná sem ljósgjafi. Elliðaárnar voru virkjaðar 1920, en veruleg óþægindi urðu á næstu árum af völdum ísmyndunar í ánum annarsvegar og hinsvegar af vatnsskorti yfir sumartímann. Lausnin var vatnsmiðlun með stíflu við Elliðavatn og stækkun vatnsins um helming. Fyrsta tilraun í þessa veru var 600 metra langur torfgarður uppi á Elliðavatnsengjum, en 1928 var gerð jarðvegsstífla með timburþili og grjótvörn. Síðar var stíflan steypt og hækkuð og þá hafði vatnsborð Elliðavatns hækkað um heilan metra og ekkert eftir ofan vatns af engjunum.

Frá beitilandi til friðlands

Sigurður Guðmundsson málari var um margt á undan sinni samtíð og hafði fyrstur manna viðrað hugmynd í Kveldfélaginu í Reykjavík 1870 um ráðstafanir til þess að Reykvíkingar gætu notið útivistar í geðfelldu umhverfi. Það þurfti þó 65 ár til þess að eitthvað gerðist og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri á heiðurinn af því. Hann varð fyrstur til að kynna opinberlega hugmynd um útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga á því svæði ofan Elliðavatns þar sem nú heitir Heiðmörk.

Sumarið 1935 fór Hákon ríðandi ásamt Einari G. E. Sæmundsen, síðar framkvæmdastjóra Skógræktarfélagsins, upp fyrir Elliðavatn til þess að kynna sér hvernig komið væri fyrir kjarrinu. Ekki reyndist það mjög hávaxið, mannhæð þar sem það var hæst, en afar þétt. Öldum saman hafði þessu landi verið spillt með ofbeit og auk þess var skóginum eytt þegar gert var til kola. Á fyrstu áratugum 20. aldar var svo komið að víða voru moldarbörð og uppblástur, en birkið kræklótt og nagað af sauðfjárbeit, það litla sem eftir var. Hákon taldi þó framfarir á því sjáanlegar árið 1935, enda hafði þá mjög dregið úr fjárbeit frá Elliðavatni og næstu bæjum.

Hugmynd um útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga austan- og sunnanvert við Elliðavatn fór að þróast uppúr þessu. Stjórn Skógræktarfélagsins sendi bæjarráði bréf haustið 1938 um friðun skógarleifa í landi Elliðavatns og hluta jarðanna Vatnsenda og Hólms. Þar var viðruð hugmynd um "allsherjarskemmtistað" eða "þjóðgarð" fyrir íbúa Reykjavíkur.

Þeirri hugmynd var vel tekið, en skömmu síðar var landið hernumið og er óhætt að segja að þá færi flest uppá rönd. Hugmyndinni var samt haldið vakandi, til dæmis með bæklingi Skógræktarfélagsins 1941 og á sama ári var hugmyndin kynnt í útvarpinu með sérstakri kvöldvöku, þar sem Sigurður Nordal prófessor hélt erindi. Hann var manna kunnugastur svæðinu eftir ótal gönguferðir. Þar sagði hann meðal annars:

"Heiðmörk er fornt heiti á einu fylkinu í Upplöndum í Noregi. Mörk er skógur. Allir finna, hversu vel það fer í nöfnum eins og Þórsmörk og Þelamörk. Í því er fólginn draumur vor um að klæða landið aftur íturvöxnum trjágróðri. Heiður er bjartur, og Heiðmörk: hið bjarta skóglendi, - er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum."

Í framhaldi af þessu var Elliðavatnsjörðin losuð úr ábúð 1941 og ári síðar fékk ríkið lagaheimild til þess að selja Reykjavíkurbæ þjóðjörðina Hólm. Framkvæmdir á Heiðmörk hófust 1948; landið var þá girt, alls um 1.350 ha, en gróðursetning trjáplantna hófst vorið 1949 með því að settar voru niður um 5 þúsund plöntur í reit sem nefndur var Undanfari.

Til voru þeir sem sýndu þessu framtaki fullan fjandskap; unnu skemmdarverk á girðingum og töldu að gengið væri á rétt sauðfjár. Ugglaust voru þeir þó öllu fremur með rétt sauðfjárbænda í huga, sem sumum finnst núna, hálfri öld síðar, að sé helgur og nægir að minna á orð Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra, sem sagði að það væru mannréttindi á Íslandi að geta átt sauðfé.

Með samningi frá 1949 var gengið frá því að Heiðmörk skyldi vera opin almenningi, en Valtýr Stefánsson átti hugmynd að þeirri skipan sem síðan varð og fólst í að landinu var ráðstafað til félaga og samtaka með gróðursetningu fyrir augum. Formlega var Heiðmörk opnuð almenningi 25. júní 1950 og verður haldið uppá 50 ára afmælið þann dag í sumar. Heiðmörk var stækkuð í tveim áföngum, fyrst 1956 með hluta úr landi Vífilsstaða og Garðakirkju, og síðan 1961 með Rauðhólasvæðinu og heimalandi Elliðavatns. Rauðhólasvæðið var þá um leið friðlýst sem náttúruvætti, en sem fólkvangur 1974.

Kleppsspítali hafði húsin á Elliðavatni til umráða til 1960, en eftir það stóðu þau auð um tíma. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi verið umsjónar- og framkvæmdaaðili fyrir borgina og haft húsin á Elliðavatni til umráða frá 1963. Vignir Sigurðsson hefur verið umsjónarmaður og staðarhaldari síðan 1977 og býr hann í húsinu.

Enn eru breytingar á döfinni á Elliðavatni. Hugmyndin er að nýta gamla steinhúsið hans Benedikts Sveinssonar og varðveita það, segir Vignir. Til bráðabirgða er búið að klæða það að utanverðu með bárujárni, en hleðslusteinninn sést að innanverðu. Þar var upphaflega þiljað en síðar meir var húsið einungis notað sem hlaða og þá hafa klæðningarnar verið teknar niður.

Steinhúsið var kjallari, hæð og ris, en ætlunin er að þar verði einungis kjallari og hæð. Á neðri hæð gæti orðið aðstaða til fyrirlestra, muna- og myndasýninga. Fjósið, sem er viðbygging við steinhúsið, verður innréttað. Bæði þar og í steinhúsinu er fyrirhuguð náttúru- og fræðslustofa. Þar verður hægt að sjá Heiðmörk í máli og myndum og verður tekið á öllum þáttum með upplýsingum um fuglalíf, vatnsöflun, skógrækt og sérstaklega verður fjallað um sögustaðinn Þingnes.

Yfir sumarið eru 100-150 unglingar við allskonar störf á Heiðmörk og upp í 500 hefur sú tala komizt. Gróðurfarið hefur tekið stakkaskiptum frá dögum rányrkjunnar; í Elliðavatnslandi eru nú 150 tegundir plantna og yfir 60 trjátegundir. Gróðursetning hefur hinsvegar dregizt saman vegna þess að farið er að ganga á það land sem hægt er og æskilegt að gróðursetja í.

Á fallegum sumardegi má sjá fólk með nestispakka og veiðistengur á bökkunum framan við Elliðavatnsbæinn. Veiðifélag Elliðavatns var stofnað 1962 og meðal verkefna umsjónarmannsins er að selja veiðileyfi. Veiðin er góð í vatninu, bæði urriði og bleikja, reyndar einnig lax á leiðinni upp í árnar síðsumars.

Það hljóðnar og breytist allur bragur á staðnum þegar haustar og unglingavinnan hættir. Umferð um Heiðmörk heldur þó áfram og hún er ótrúlega mikil á öllum árstímum. Árið 1998 var umferðin talin og eðlilega var hún mest yfir sumarmánuðina; 25.877 gestir í maí, 33.390 í júní og 27.160 í júlí. Það kemur þó jafnvel enn meira á óvart að í janúar komu þangað 9.456 gestir, 7.910 í febrúar og 9.021 í marz, enda eru troðnar skíðagöngubrautir þegar snjór er á Heiðmörk.

Fæðingarstaður þjóðskáldsins Einars Benediktssonar hefur áreiðanlega staðið honum lifandi fyrir hugskotssjónum alla ævina, þótt ekki ætti hann að öllu leyti ánægjulega æskudaga þar. Viðskilnaðurinn við móðurina hefur verið sár, því þau voru lík mæðginin. Einar hefur erft skáldskapargáfuna frá henni; það sést á því eina ljóðakyns, sem ég veit til að sé varðveitt eftir frú Katrínu. Hún orti svo til sonar síns:

Ef að þótti þinn er stór,

þá er von að minn sé nokkur.

Blóðið sama er í okkur,

dropar tveir en sami sjór.

Hún hefur þózt sjá að sonurinn væri dálítið þóttafullur og áreiðanlega var það einn af eðlisþáttum hans. Ég sé þennan dreng fyrir mér á vatnsbakkanum framan við Elliðavatnsbæinn með lítinn, frumstæðan bát sem hann hefur smíðað. Ég sé hann ýta honum á flot og horfa á eftir honum. Löngu síðar minntist hann móður sinnar í ljóði sem hefst á orðunum: Móðir, ég sigli minn sjó...

Það gerði hann sannarlega. En hann dreymdi ekki um búskap á Elliðavatni; draumar hans voru stærri en svo að þeir gætu snúizt um afrakstur af búi á einni jörð. Þeir draumar föður hans sem snerust um stór framfaraspor í búskap, prentsmiðju og útgáfu á Elliðavatni rættust ekki. Fjárræktartilraunin á 18. öld varð stórslys. Og Benedikt Sveinsson varð að gefast upp, "lítt sár en ákaflega móður".

Hinsvegar rættist draumur Sigurðar málara og Hákonar Bjarnasonar um fólkvang og friðland í Elliðavatnslandi.

Helztu heimildir: Kjalnesinga saga, Landnáma, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Saga Íslands, 1. bindi, eftir Jakob Benediktsson, Reykjavík - sögustaður við Sund. Árbók Ferðafélags Íslands 1985. Ævisaga Einars Benediktssonar eftir Jónas Jónsson. Ævisaga Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936. Elliðaárdalur, land og saga. Árni Óla: Reykjavík fyrri tíma III.