Helga Lovísa Jónsdóttir var fædd að Blöndudalshólum í Hjaltadal í Húnavatnssýslu 9. júní 1912. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 25. febrúar síðastliðinn. Það voru átta systkini sem komust á legg. Á lífi eru Soffía, Hólmfríður, Guðrún, Jens Jóhannes og Róar. Látin eru Sigríður sem var elst og Jón sem var yngstur.

Hinn 7. maí 1936 giftist Helga Arnþóri Árnasyni frá Garði í Mývatnssveit, f. 28.10. 1904, d. 19.10. 1988. Þeim varð fjögurra barna auðið og komust þrjú á legg. 1) Ásrún Björg, f. 26.3. 1938, hennar maður var, Hálfdán Ágúst Jónsson, f. 12.2. 1933. Börn þeirra eru Ágústa Björg og Arnþór Helgi, f. 17.8. 1957, Gunnhildur, f. 11.11. 1958, Jón Víkingur, f. 24.6. 1961 og Anna Margrét, f. 28.10. 1962. Þau skildu. Núverandi eiginmaður Ásrúnar er Sigmundur Indriði Júlíusson, f. 30.9. 1934. 2) Árni Jón, f. 4.7.1944, kona hans er Ragnhildur Ásmundsdóttir, f. 20.3. 1948, þeirra barn er Helga Þóra, f. 19.2. 1969 og barn Ragnhildar Ásmundur, f. 28.7. 1965. 3) Óskírður drengur, f. 31.8. 1949, d. 2.9. 1949. 4) Helga, f. 12.9. 1952, hennar maður er Bjarni Sigurðsson, f. 11.4. 1956. Þeirra börn eru Rakel Ýr, f. 12.2. 1979, og Rebekka, f. 2.1. 1987.

Útför Helgu Lovísu fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 6. mars, og hefst athöfnin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Skútustaðakirkjugarði.

Hún amma er þá loksins komin aftur til afa, hún saknaði hans mikið þau ár sem hún var ein. Ég mun ætíð minnast hennar ömmu sem gömlu konunnar sem alltaf var svo góð, alltaf tilbúin að tala við mig um hvað sem var, átti alltaf heitar lummur eða pönnukökur í síðdegiskaffinu á Sogaveginum. Amma átti fjársjóð, hún kunni öll ljóð og allar vísur. Þegar ég kom sem drengur og þurfti að læra utanbókar úr skólaljóðum gat ég alltaf leitað til hennar, við þuldum ljóðið saman og þegar ég þurfti svo að endursegja ljóðið í skólanum var oft eins og hún væri hjá mér og minnti mig á hvaða ljóðlína kæmi næst. Í ófá skipti tókum við í spil öll systkinin og amma, spiluðum Svarta Pétur eða Kasínu. Svo þegar ég eignaðist mín börn fann ég fyrir sömu hlýju straumunum sem ég upplifði í æsku, í heimsóknum okkar til hennar á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar var oft tekið í spil eða langamma kenndi börnunum vísur. Hún lifði fyrir minningar sínar, oft fór hún með þessa vísu með okkur:

Í Hlíðarendakoti.

Fyrr var oft í koti kátt,

krakkar léku saman,

þar var löngum hlegið hátt,

hent að mörgu gaman.

Úti' um stéttar urðu þar

einatt skrítnar sögur,

þegar saman safnast var

sumarkvöldin fögur.

Eins við brugðum okkur þá

oft á milli bæja

til að kankast eitthvað á

eða til að hlæja.

Margt eitt kvöld og margan dag

máttum við í næði

æfa saman eitthvert lag

eða syngja kvæði.

Bænum mínum heima hjá

Hlíðar brekkum undir

er svo margt að minnast á,

margar glaðar stundir.

Því vill hvarfla hugurinn,

heillavinir góðir,

heim í gamla hópinn minn,

heim á fornar slóðir.

(Þorst. Erl.)

Amma mín, elsku langamma, þín bíður hann afi, elsku langafi okkar og þið verðið saman á ný til eilífðar umvafin ljósi og hlýju.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.)

Við þökkum allt, hvíl í friði.

Jón Víkingur,

Sigríður Erlendsdóttir, Þórkatla Eva

og Þórir Björn.