15. mars 2000 | Minningargreinar | 6964 orð | 1 mynd

JÓN ÚR VÖR

Jón úr Vör Jónsson skáld fæddist á Vatneyri við Patreksfjörð 21. jan. 1917. Hann lést á Landspítalanum 4. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Indriðason skósmiður, f. 20.5. 1884, d. 17.2. 1974, og Jónína Guðrún Jónsdóttir húsmóðir, f. 3.10. 1885, d. 20.3. 1961. Jón úr Vör var á þriðja ári sendur í fóstur hjá Þórði Guðbjartssyni verkamanni á Patreksfirði og konu hans Ólínu Jónsdóttur og ólst upp hjá þeim ásamt fóstursystkinunum Einari, Sigurði, Guðbjarti, Halldóru og Andrési. Systkini Jóns úr Vör voru 13: Sigurður, f. 1905, dó innan árs, Sigurður Kristinn, f. 3.8. 1906, d. 17.11. 1968, Rannveig, f. 28.11. 1908, dó innan árs, Rannveig Lilja, f. 17.1. 1910, d. 17.12. 1950, Marta, f. 14.6. 1911, d. 4.2. 1999, Þorgerður, f. 5.11. 1913, d. 16.6. 1962, Indriði, f. 9.7. 1915, d. 30.4. 1998, Sigrún, f. 8.9. 1918, d. 24.4. 1988, Sólveig, f. 28.11. 1919, Gunnar, f. 9.8. 1922, d. 20.12. 1992, Hafliði, f. 20.10. 1923, Fjóla, f. 8.7. 1925, d. 18.5. 1996, Björgvin, f. 26.8. 1929.

Hinn 7. september 1945 kvæntist Jón Bryndísi Kristjánsdóttur frá Nesi í Fnjóskadal, f. 17. 8. 1922. Foreldrar hennar voru Kristján Jónsson bóndi og búfræðingur, f. 22.3. 1880 Nesi, d. 27.5. 1962, og kona hans Guðrún Stefánsdóttir rjómabústýra frá Selalæk á Rangárvöllum, f. 18.4. 1885, d. 26.11. 1983. Synir Jóns og Bryndísar eru: 1) Karl, f. 9.12. 1948, kvæntur Katrínu Valgerði Karlsdóttur, þeirra börn eru Sigrún Erla, Jón Egill og Fanney Magna, 2) Indriði, f. 5.11. 1950, kvæntur Valgerði Önnu Þórisdóttur, þeirra börn eru Stefán Örn og Bryndís Ylfa, átti áður synina Orra Frey og Þóri Valdimar, sonur Þóris og Maríu Hrundar Guðmundsdóttur sambýliskonu hans er Hafþór Örn, 3) Þórólfur, f. 3.10. 1954, kvæntist Kerstin Almqvist, þeirra dætur eru Helga Guðrún Gerða og Anna Sólveig, skilin, sambýliskona Þórólfs er Lilja Markúsdóttir.

Jón úr Vör stundaði nám við Unglingaskóla Patreksfjarðar, Héraðsskólann á Núpi, Brunnsviks folkhögskola í Svíþjóð og Nordiska folkhögskolan í Genf. Hann var ritstj. Útvarpstíðinda 1941-45 og 52. Hann var starfsmaður Bókaútgáfu Pálma H. Jónssonar 1947-51, sá um útgáfu tímaritsins Stjörnur, ritstj. þess o.fl. Jón var fornbókasali í Rvík 1952-62. Jafnframt bókavörður í Kópavogi frá 1952 og hafði það að aðalstarfi frá 1. okt 1962. Hann átti þátt í stofnun Rithöfundasambands Íslands og var í stjórn þess fyrstu árin. Ljóðabækur: Ég ber að dyrum 1. og 2. útg. 1937 3. útg. 1966, Stund milli stríða 1942, Þorpið 1946, endurskoðuð útg. 1956, 3. útg. 1979, 4. útg. 1999, sænsk þýðing, Isländsk kust 1957, Með hljóðstaf 1951, Með örvalausum boga 1951, Vetrarmávar 1960, Maurildaskógur 1965, 100 kvæði, úrval 1967, Mjallhvítarkistan 1968, Stilt vaker ljoset , ljóðaúrval á norsku 1972, Vinarhús 1972, Blåa natten över havet, ljóðaúrval á sænsku útg. í Finnlandi 1976, Altarisbergið 1978, Regnbogastígur 1981, Gott er að lifa 1984.

Jón var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og hlaut heiðurslaun listamanna frá 1986.

Útför Jóns fór fram í kyrrþey að ósk hans.

Jón úr Vör. - Að vonum man ég ekki hvenær ég heyrði hans fyrst getið. Hann var maður Bryndísar móðursystur minnar og hafði kvænst henni þegar ég var enn í bernsku. Hann varð því snemma hluti af lífsmynd minni; maður með skrýtið nafn, enda skáld, en í minni fjölskyldu var engan slíkan að finna.

Jón og Binna áttu heima fyrir sunnan, í blámóðu fjarlægðarinnar, og fyrstu árin var mynd í útskornum ramma eftir mömmu helsti votturinn um tilvist þeirra: mynd af ungu og fallegu pari, nýgiftu. Binna var litla systir mömmu og augasteinn hinna eldri í fjölskyldunni, og þegar foreldrar mínir minntust á Jón skynjaði maður traust og hlýhug; hann var henni góður og umhyggjusamur, það var þeim efst í huga.

Fyrstu leiftur minninganna um Jón og Bryndísi hefðu kannski haft annan blæ hefði ég fæðst nokkru fyrr. Giftingu þeirra bar að með skjótum hætti en þá hafði Bryndís unnið um hríð sunnan heiða. Eitt haustið fékk hún bróður sinn til að bera fjölskyldunni heima í Fnjóskadal þá fregn að að hún væri búin að gifta sig, eiginmaðurinn héti Jón Jónsson, væri skáld og kallaði sig Jón úr Vör. Þetta hafði engan grunað og þótti næsta sviplegt. Full ástæða var til að leita nánari upplýsinga hjá góðum kunningja sem bjó í höfuðstaðnum og var margfróður, jafnt um andleg mál sem veraldleg. Sitt hvað hafði nú heyrst um ung skáld og listamenn í umróti þeirrar tíðar. "Er hann ekki drykkfelldur?" spurði faðir minn sem var kennari og bindindisfrömuður í sveit sinni. Viðmælandinn svaraði, honum til mikils léttis, að Jón væri traustur reglumaður og vandaður í hvívetna.

Ljóshærða stúlkan að norðan fylgdi skáldinu úr Vör langa ævi og varð ríkari þáttur í lífsláni hans en margan kann að gruna.

Ungu hjónin dvöldu í Svíþjóð um hríð en hófu síðan búskap hér heima á erfiðum tímum laust fyrir 1950. Þau gerðust þá bráðlega frumbyggjar í Kópavogi, við Kársnesbraut utanverða. Þegar þau tóku að reskjast færðu þau sig um set án þess að yfirgefa Kópavog.

Ekki reyni ég að fjalla um þjóðskáldið Jón úr Vör eða kryfja verk hans, það gera aðrir, mér fremri. Sama gildir um annað sem sneri að almenningi, en þar ber einkum að nefna farsæl störf Jóns við uppbyggingu bókasafns í Kópavogi og vörslu þess um fjölda ára. Þá var hann einnig m.a. þekktur fyrir útgáfu á vinsælu tímariti, Útvarpstíðindum, sem hann stóð að ásamt Gunnari M. Magnúss á stríðsárunum.

Þeir sem mér voru eldri í fjölskyldunni kynntust Jóni smám saman eftir heimkomuna frá Svíþjóð, og ég sjálfur er ég óx úr grasi og lagði leið mína suður á bóginn. Það sem fyrst vakti athygli hefur trúlega verið kurteisi hans og snyrtimennska. Heima í Kópavogi var hann mjög samstiga konu sinni í gestrisni og allri umhyggju þegar okkur norðanfólkið bar að garði. Í þessu sambandi má íhuga að við sem komum úr heimahögum Bryndísar vorum á margan hátt frábrugðin Jóni að gerð, skoðunum og hugðarefnum, enda sprottin úr ólíkum jarðvegi. Því hefur eflaust stundum reynt á háttvísi hans og sjálfsaga sem hann bjó yfir í ríkum mæli. Var það þeim mun verðara aðdáunar ef þess er gætt að hann var viðkvæmur og auðsærður að eðlisfari og auk þess löngum þjakaður af húðveiki.

Ekki þurfti að koma á óvart þótt heimafólki mínu gengi treglega að tileinka sér skáldskap Jóns framan af. Þar nefni ég t.d. foreldra mína sem voru sterklega mótuð af formfestu genginna kynslóða. Þau lærðu hins vegar fljótt að meta húmanistann Jón úr Vör og næmleika hans og glöggskyggni á hið mannlega.

Ellin var tekin að sækja að Jóni af nokkru vægðarleysi um það er lauk. Þó gat hann glaðst af ýmsu; hann var hamingjumaður í einkalífi og hafði ánægju af að fylgjast með þroska mannvænlegra afkomenda. Þá hafði honum verið sýndur margvíslegur sómi á liðnum árum, vissulega að makleikum.

Undanfarna daga hef ég hitt fólk, á ýmsum aldri og ólíkrar gerðar, sem eru ljóð hans ofarlega í sinni. Mörg þeirra hafa líka verið þýdd á erlendar tungur og njóta hylli sem slík. Því segir mér svo hugur að þau verði margri annarri list óbrotgjarnari í tíma og rúmi - kannski einmitt af því hversu mjög þau draga dám af sjálfum höfundinum, sönn og heil í látleysi sínu. Þau munu ekki mást að marki þótt aldir renni - fremur en hleinarnar í vörinni hans fyrir vestan.

Við leiðarlok mæli ég fyrir hönd systkina minna frá Víðivöllum og fjölskyldna þeirra - og þó einkum aldraðrar móður okkar sem verður fjarri á skilnaðarstund vegna vanheilsu. Öll kveðjum við Jón úr Vör með einlægri virðingu og þökk fyrir allt sem hann var okkur, fyrr og síðar.

Völundur Jónsson.

Skáldið

og hinn góði lesandi

mætast andartak

á undarlegri strönd

í annarlegum

hljómi,

sem hvorugur veit

hver hefur

slegið.

(Mjallhvítarkistan 1968.)

Bókasafn Kópavogs naut góðs af áhuga og eldmóði Jóns úr Vör. Nýfluttur í Kópavoginn stóð hann ásamt fleira góðu fólki að stofnun Lestrarfélags Kópavogshrepps. Á þeim tíma var Jón með fornbókasölu og hafði bóksalaleyfi. Hann var ráðinn bókavörður að nýstofnuðu Bókasafni Kópavogs árið 1953 og lét hið unga safn njóta góðs af samböndum sínum. Meðal annars stóð hann fyrir bókamarkaði og rann ágóðinn til kaupa á bókum fyrir safnið.

Jón hafði kynnst bókasafnsmálum á Patreksfirði og stofnaði þar ásamt fleiri ungum mönnum bókasafn vegna þess að honum varð snemma ljóst mikilvægt hlutverk almenningsbókasafna; m.a. hafði hann kynnst því er hann var í skóla á Núpi hve gott bókasafn var mikil undirstaða sjálfsnáms og menntunar.

Jón var bæjarbókavörður í Kópavogi frá stofnun Bókasafnsins þar og gegndi því starfi allt til ársins 1977. Með ráðdeild og útsjónarsemi tókst honum að byggja upp góðan safnkost og lagði með starfi sínu grunninn að góðu almenningsbókasafni.

Sársaukinn

er horfinn

og ég man ekki

hvernig hann var.

Ég man það var sárt.

Víst var það sárt.

Ekki lengur.

get ég ekki munað

hverju ég er

búinn að gleyma.

(Gott er að lifa, 1984.)

Eftir að Jón lét af störfum sem bæjarbókavörður árið 1977 hélt hann ávallt tryggð við safnið og okkur starfsfólkið. Hann var tíður gestur og settist með okkur til að spjalla og leita frétta, eins og hann sagði gjarnan. Oft hrutu af vörum hans vísur - enda var hann góður hagyrðingur.

Ýmsir héldu að Jón væri á móti hefðbundnum ljóðum og kærði sig hvorki um höfuðstafi né stuðla. Því fór víðs fjarri. Segja má að viðhorf hans til ljóðagerðar birtist hvað skýrast í þessari vísu hans:

Ekki þarf að gylla gull,

gullið verður ætíð bjart;

alltaf verður bullið bull

þótt búið sé í rímað skart.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Jóni úr Vör.

Í vikunni fyrir andlát hans sýndum við honum upplýsingar um hann sem komið hefur verið fyrir á heimasíðu Bókasafns Kópavogs. Það gladdi hann svo að hann komst við.

Í sömu viku tókst okkur að finna ljóð, sem Jón orti er hann var á Núpsskóla árið 1934 og birtist í blaðinu Vesturland. Hann hafði flutt það á Sólarhátíð þá fyrr um veturinn en hafði aldrei séð það á prenti áður. Það gladdi hann mikið.

Eiginkonu Jóns, Bryndísi Kristjánsdóttur, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra, sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd starfsfólks Bókasafns Kópavogs,

Hrafn A. Harðarson.

Jón úr Vör er ekki lengur á meðal vor. Hann situr trúi ég í öndvegi handan móðunnar miklu, skrafar við fólkið sitt og yrkir um þorpið þar. Því "...þorpið fer með þér alla leið." Ég sit í aprílbjartri sólstofu skáldsins úr Vör sem les fyrir mig úr ljóðum sínum. Fyrir utan heiður himinn, lágur ómur bifreiðanna og blikar á Kópavoginn. Örsmáan hljóðnema hef ég fengið að festa við skyrtubrjóst skáldsins til að hljóðrita röddina sem nú er þögnuð. "Stillt vakir ljósið í stjakans hvítu hönd..." Við gerum hlé á lestrinum og Bryndís ber okkur kaffi og meðlæti. Jón segir mér sitthvað af sjálfum sér, dregur upp myndir af skáldbræðrum og lífinu á árum áður. Steinn Steinarr sprettur ljóslifandi fram í endurminningunni. Svíþjóð, Kaupmannahöfn og Evrópa eftir stríð. Við ræðum um stöðu rithöfunda fyrr og nú, fornbókasölu, útgáfumál, ungskáldin, ellina, gleymskuna, fjölskylduna og hamingjuna. Stofuklukkan slær. Við hljóðritum enn um stund. "Eins og gamall sjómaður geng ég á strönd orðsins ..." Og síðla dags held ég heimleiðis með áritaðan Maurildaskóg.

Félagar í Rithöfundasambandi Íslands kveðja nú aldinn heiðursmann sem átti sinn stóra þátt í formbyltingu íslenskrar ljóðlistar um miðbik tuttugustu aldar. Skáld þorpsins og þjóðarinnar, skáld hins einfalda og óbrotna á strönd orðsins. Eiginkonu og fjölskyldu sendum við samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.

Kveðja frá Barðstrendingafélaginu

Í einu ljóða sinna í Þorpinu segir Jón úr Vör:

Enginn slítur þau bönd,

sem hann er bundinn átthögum sínum. Móðir þín

fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í heiminn

en þorpið fer með þér alla leið.

Þetta eru orð að sönnu, það þekkjum við sem höfum flutt brott úr átthögunum. Það voru þessi átthagabönd sem voru þess valdandi að nokkrir menn úr Barðastrandarsýslu komu saman fyrir réttum 56 árum og unnu að stofnun átthagafélags, Barðstrendingafélagsins. Einn þessara manna var Jón úr Vör og var hann strax við undirbúning valinn ritari hópsins. Á stofnfundinum var hann kosinn í stjórn félagsins og varð ritari. Gegndi hann því starfi nokkur fyrstu ár félagsins. Eru hans fundargerðir ritaðar með góðri rithönd og á góðri og hnitmiðaðri íslensku þar sem öllu sem koma þarf fram eru gerð góð skil og ekkert er hægt að misskilja sem svo oft kemur fyrir í fundargjörðum félaga. Jón dró sig út úr stjórninni eftir stuttan tíma, hann hafði ekki ástæður til að sinna stjórnarstörfum eins og hann vildi, m.a. vegna dvalar erlendis. Engu að síður fylgdist hann alltaf með störfum félagsins og þótti vænt um það.

Jón var ekki mikið fyrir að láta á sér bera, hann var hógvær og dulur og kannski hefur hann einnig dregið sig úr stjórn Barðstrendingafélagsins vegna þess að á fyrstu árum þess voru stjórnarmenn mikið áberandi og mikið var umleikis.

Á fimmtíu ára afmæli félagsins var haldið mikið hóf og þar voru ýmsir heiðraðir fyrir vel unnin störf eins og oft er gert á tímamótum. Jón úr Vör var gerður að heiðursfélaga. Í hófinu var lesið upp úr verkum hans og hann ávarpaði samkomugesti, upplýsti ýmislegt um ljóðin sem ekki hafði áður verið sagt frá. Þessi stund er öllum ógleymanleg sem þar voru.

Ég held að segja megi að enginn hafi reist sínu þorpi og sínum átthögum jafn merkan minnisvarða og Jón gerði með útgáfu Þorpsins. Það er minnisvarði sem veður, vindar og tími fá aldrei máð. Verður Jóni aldrei fullþakkað það að gera þorpi okkar, Patreksfirði, svo merkileg skil. Næmi hans fyrir öllu, mönnum, málleysingjum, húsum og umhverfi er einstakt og þannig sett fram að allir geta lifað sig inn í þann anda sem ríkti í plássinu á þeim tíma.

Nú gnæfa Brellurnar þungar og hnípnar.

Fyrir hönd Barðstrendingafélagsins flyt ég fjölskyldu Jóns úr Vör innilegustu samúðarkveðjur.

Daníel Hansen.

Um miðjan fjórða áratuginn ferðaðist Halldór Kiljan um Vestfirði og var að afla sér staðkunnáttu við undirbúninginn að Ljósvíkingnum.

Á Patreksfirði barst honum til eyrna, að unglingspilturinn Jón, sonur Jóns skóara, hefði áhuga á bókaramennt og væri að fást við skáldskap. Halldór var ekki seinn á sér að hafa tal af þessum strák, og stóð sú viðræða lengi dags, með göngum um plássið og bollaleggingum um kreppuástandið og heimsbókmenntirnar. Það var ekki lítil upphefð fyrir piltinn að sjást í för með öðrum eins manni, þótt umdeildur væri.

Varla var ár liðið, er sonur skóarans var horfinn suður til Reykjavíkur, farinn að birta ljóð á prenti í dagblöðum, tekinn til við innheimtu, en varði flestum frístundum í lestrarsal Landsbókasafnsins. Fyrr en varði hafði hann m.a.s. sent frá sér ljóðakver, "Ég ber að dyrum".

Og það var einmitt í hátíðlegri kyrrð Landsbókasafnsins, að fundum okkar Jóns bar fyrst saman. Ég, þrettán vetra sveinstauli, leyfði mér að taka þennan vestfirzka rauðhaus tali og trúa honum fyrir því, að einnig ég væri stundum að yrkja. Og ég mun ekki gleyma því, hvað hann tók mér af mikilli ljúfmennsku og grandvörum skilningi. Frá þeirri stund hef ég talið Jón úr Vör til beztu vina minna.

Á unglingsárunum naut Jón nokkurrar kennslu í unglingaskóla á Patreksfirði og í héraðsskólanum að Núpi, en nú brauzt hann í því að komast utan og var veturlangt við nám í Brunnviks folkhögskola í Svíþjóð og við folkhögskolan í Genf; ferðaðist þá nokkuð um Norðurlönd, Sviss og Frakkland. Síðsumars var hann staddur á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn þegar fréttaborði Politikens flutti fregnina um stríð milli Þjóðverja og Breta. Af sjálfu leiddi, að Jón hraðaði sér heim. Formlegri skólagöngu hans var lokið.

Hér heima tóku við ærin störf að bókaútgáfu og síðar ritstjórn; hann var m.a. ritstjóri Útvarpstíðinda um sex ára skeið. Fornbókasölu rak hann í fullan áratug, en lengst af var borgaralegt starf hans bókavarzla í Kópavogi, þar sem hann var búsettur og hafði stofnað hlýlegt heimili með konu sinni, Bryndísi Kristjánsdóttur ættaðri frá Nesi í Fnjóskadal.

Með ljóðabálki sínum "Þorpinu" markaði Jón viss tímamót í íslenzkri ljóðagerð, ekki þó fyrst og fremst með formgerðinni, heldur sjálfu efnisvalinu og þeim ljóðræna anda sem honum var svo laginn. Ýmsum fannst "Þorpið" ekki skírskota nóg til baráttuanda flokkapólitíkur. En gagnvart slíku hefði Jón vel getað tekið undir þau orð sem höfð voru eftir Picasso: að kyrralífsmynd af epli gæti verið fullteins gott innlegg í baráttu fyrir friði einsog mynd af hernaðarbrölti.

Jóni úr Vör tókst að feta það vandrataða einstigi óhefðbundinnar ljóðagerðar þar sem engin ljóðlína yrkir sig sjálf með tilhjálp stuðla eða ríms, heldur krefst þess að skáldið leggi allt að veði. Ekki verða manninum Jóni úr Vör gerð sæmandi skil, nema getið sé þess, hversu hollur hann var og hjálpsamur við unga skáldbræður sína, sem einmitt voru að stofna óformleg samtök í byrjun stríðsins. Hann var okkar elztur og þekktastur, og afstaða hans til okkar var nánast föðurleg, enda veitti varla af. Sjálfur var hann til mikillar fyrirmyndar hvað snerti reglusemi, dugnað og aðra hagkvæma hluti hins daglega lífs. Þetta gat stundum gengið svo langt, að jaðraði við það skoplega: Hann ráðlagði t.d. ungum skáldum að birta ekki of mikið og asa því ekki að senda út ljóðabækur, en ef menn þættust endilega þurfa að koma frá sér bók, þá fyrir alla muni að troða ekki í hana öllum þeim ljóðum sem þeir ættu - því það gæti verið skynsamlegt að eiga fyrningar...

Jón talaði ekki mikið um eigin ljóðagerð, en ég þykist vita, að hann hafi ort margt sem honum fannst ruslakarfan ein eiga að geyma; þó mun ýmislegt vera til eftir hann óbirt. Veit ég t.d. að hann hélt dagbækur um langt árabil, þar sem hann eyddi örugglega ekki tíma og pappír í það að tíunda veðrið, heldur trúði pappírnum fyrir skoðunum sínum á hinum fjölbreytilegustu hliðum mannfélagsins. Og það er hreint ekki svo lítið sem eftir hann liggur í sendibréfum, margt af því með áhugaverðum hugleiðingum um samtímabókmenntirnar og það sem var að gerast í listum hérlendis og ytra. Frá engum á ég eins þykkan bréfabunka og einmitt frá honum, aðallega frá þeim tíma er "Þorpið" var í smíðum, en þá var ég farinn utan, og fyrir kom að hann sendi mér ný ljóð úr þeim bálki á hverjum degi; ótrúlegt en satt. Ég man að ég sýndi Magnúsi Ásgeirssyni flest þessi ljóð, og honum þótti mikið til koma.

Jón var mikill gæfumaður í einkalífi sínu, eignaðist ástríka og góða konu og mannvænlega afkomendur. Það eina sem skyggði á gleði hans var heilsuleysi það sem hrjáði hann frá miðjum aldri, en hann var ofnæmissjúklingur (psoriasis) um áratuga skeið, og má furðulegt heita hverju hann kom í verk og hvílíka þolraun hann sýndi í þeirri hremmingu allri.

Áratugum saman tók Jón úr Vör mjög virkan þáttí félagssamtökum rithöfunda, sat einatt í stjórn, og frá 1986 var hann heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands. Ljóð hans hlutu og góðar viðtökur erlendis, einkum í Noregi og Svíþjóð.

Þeim fækkar nú óðum sem í upphafi stríðs söfnuðust í skáldahópinn okkar; ætli við séum nema fjögur eftir af um tuttugu manna liði. Þetta er gangur lífsins; við breytumst, og að lokum virðumst við hverfa með öllu.

Ég kveð Jón úr Vör með miklu þakklæti. Bryndísi og börnunum þeirra sendi ég innilega samúðar kveðju.

Elías Mar.

Ég hef víst sagt frá því áður er ég hitti Jón úr Vör fyrst í bókabúðinni við Traðarkot, þar sem nú er bílageymsla. Hann seldi þar og keypti gamlar bækur og þangað kom ég að forvitnast. Skyndilega er við vorum einir í búðinni kaupmaðurinn og ég þá vindur hann sér að mér með nokkrum þjósti og segir: Þú yrkir rímað! Fullyrðingin kom nokkuð óvænt og einnig þjósturinn, því ég var öðru vanari. Á þessum tíma gátu menn búist við barsmíðum ef þeir voguðu sér að birta órímuð ljóð og án stuðla. Þetta var kallað formbylting og ég hafði lesið þessi ljóð eftir Jón úr Vör, Stein Steinar og fleiri norður á Laugum í Þingeyjarsýslu. Ég hafði og stansað um stund á Patreksfirði og hitt þar Jón Indriðason skósmið föður Jóns úr Vör og hann sýndi mér staðinn þar sem stóð sjóbúðin er sonurinn kallaði Vör. Í bókabúðinni hitti ég Þórð Guðbjartsson fóstra Jóns, en honum var Þorpið tileinkað.

Allar götur síðan hefur Jón úr Vör verið mér nálægur sem maður og skáld, þótt fundir okkar væru stundum stopulir einkum hin síðari ár. Hann hafði verið í Svíþjóð og benti mér á sænskan skáldskap sem hann mat mikils og sænsk þjóðmál, ekki síst velferðarkerfið sem gerði Svía að stórveldi. Líklega hefur enginn vandalaus maður haft meiri áhrif á líf mitt og afstöðu en Jón úr Vör. Ég hef víst aldrei þakkað honum sem vert væri, hvað þá launað.

Umræða um bókmenntir hefur ekki verið sérlega vakandi eða áhugaverð nú um langt skeið og stendur þar ekki síst uppá háskólana. Þegar sleppir "greiningafræði" er fátt að sjá annað en gamlar tuggur sem hver étur upp eftir öðrum. Eitt af því er þjóðsagan um formbyltinguna. Líklega er það rétt hjá Jóhanni Hjálmarssyni að helsta nýjungin í ljóðagerð okkar á 20. öld og það sem mestum deilum olli eru áhrif surrealismans. Þau áhrif birtust með ýmsum hætti og allteins hefðbundnum að formi sbr. t.d. ljóð Halldórs Laxness, Steins Steinars og Hannesar Sigfússonar. Ef litið er yfir ljóðagerð okkar aldar og jafnvel allt aftur til Jónasar Hallgrímssonar, helsta upphafsmanns módernismans hér á landi, sést nokkuð samfelldur straumur, eða kannski frekar fjölbreyttur skógur þarsem trén eru með ýmsu móti og mishá. En vitaskuld finna greiningafræðingar ýmis kaflaskil í þróuninni. Í þessum skógi ber hátt Þorpið, meginverk Jóns úr Vör. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Þorpið í sinni endanlegu gerð sé einn af hátindum íslenskrar ljóðagerðar á 20. öld og að enn vanti mikið á að gildi þess hafi verið að fullu metið.

Þorpið er ekki byltingarverk eða sósíalrealismi og enn síður rómantík fátæktarinnar, einsog einhver orðaði það. Það er sterkt persónulegt verk sem lýtur eigin lögmálum og stíl. Það fjallar um lífið í Þorpinu að sínu leyti einsog Sjálfstætt fólk eftir Laxness fjallar á sinn hátt um sveitalífið fyrir tíma tækninnar. Jón úr Vör barst lítið á, lifði hógværu fjölskyldulífi. Þurfti alla tíð að vinna fyrir sér sjálfur og hafði aldrei tryggan útgefanda. Einar Bragi segir svo m.a. í formála fyrir ljóðaúrvali Jóns, Hundrað kvæði, útg. 1967: "Hann minnir á staðfastan bónda sem vinnur jörð sinni ár og eindaga, á sér gleðistundir í smiðju við afl sinn og steðja, haggast ekki við uppgripafregnir úr nálægri veiðistöð, en hugsar með ró."

Þökk fyrir holla samfylgd og samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Hinn einfaldi góði hversdagsmaður er farinn en skáldið lifir.

Jón frá Pálmholti.

Jón úr Vör er látinn.

Fyrst kynntist ég honum í samstarfi á Bókasafni Kópavogs fyrir 35 árum. Það var einkenni Jóns að hann átti auðvelt með að tjá sig, orðin voru á valdi hans. Ég man þegar við afhjúpuðum styttuna af hinum lesandi dreng. Ég var formaður stjórnarinnar og varð mér fátt að orði. Það var auðvitað Jón sem sté inn og fyllti í myndina. Þannig var það einnig um fleiri atriði. Bókasafnið var undir hans framkvæmdastjórn og hann sá um rekstur og öflun bóka. Engan annan bæjarrekstur þekki ég sem frá yfirstjórninni lá undir ámæli fyrir að eyða ef til vill ekki öllu því fjármagni sem til þess var veitt á fjárhagsáætlun. Bókakosturinn óx - bæði að nýjum bókum og heilum bókasöfnum. Þegar upp var staðið má vera að tekist hafi að fara einhverja ögn fram úr áætlun. Eins og allir vita er þeirri stofnun sem ekki tekst að fara fram úr veittum fjárframlögum nefnilega refsað með lækkun fjárframlags næsta árs.

Atvikin höguðu því svo að þótt samstarf okkar í stjórn bókasafnsins stæði í fá ár urðu samskipti okkar meiri og fjölskyldur okkar tengdust. Við hittumst alltaf nokkrum sinnum á ári og tókum þá sífellt upp þráðinn eins og hist hefðum í gær. Við hjónin nutum velvildar Jóns og hann gaf okkur af ljóðabókum sínum. Á jólum 1973 sendi hann okkur ljóðabókina "Þorpið" með áritaðri þessari vísu:

Það sem áður þótti bull

og þeytt var beint í sorpið,

tíminn nýi telur gull

- tötrið gamla Þorpið.

Það hefur verið eitt af verðmætum lífsins að kynnast Jóni úr Vör og fjölskyldu hans. Í huganum er þakklæti fyrir samfylgdina hvern þann spöl sem leiðir okkar hafa legið saman. Við Ragna Freyja og fjölskyldur okkar sendum kveðjur og innilega samúð Bryndísi og sonum þeirra Jóns, þeim Karli, Indriða og Þórólfi og þeirra fjölskyldum.

Gísli Ólafur Pétursson.

Það er bjart yfir minningu Jóns úr Vör í mínum huga. Skáldið aldna vék sér að mér á tröppum Norræna hússins sumarið 1986. Og þú býrð í Svíþjóð og þekkir Jón Óskar, sagði Jón glettnislega, þú ættir að líta til mín í Kópavoginn! Sjálfsagt hafa þeir nabbnar verið búnir að spjalla um mig í síma.

Skagamaðurinn Jón Óskar og Svíþjóð þekktar stærðir og kærar skáldinu frá Patreksfirði. Jón í frakkanum gula sem entist honum svo vel. Fór Jón reglulega í Norræna húsið og leit í Dagens Nyheter, sænsk tímarit og bækur á meðan heilsa hélst sem var furðu lengi miðað við þrálát veikindi. Jón ekki síðri Guðmundi heitnum Frímann í að útmála óheilsu sína í síma. Skóf ekki af því þannig að manni fannst ólíklegt að hann gæti tekið á móti gesti. En alltaf botnaði hann þó þær, í sjálfu sér frábæru, lýsingar á orðunum: Ætlarðu ekki að líta inn? Hvenær má ég eiga von á þér? Vertu velkominn! Man ég ágæta heimsókn til Bryndísar og Jóns eina sólskinsdag sumarsins níutíuogþrjú á suðvesturlandi. Kerstín með magann út í loftið, langt gengin með Jónatan Mána, en Ólína Jóna blístrandi meðal hárra stráa í fögrum Fossvogsdal. Og reyndar of heitt í glerskála Jóns á svölum þeirra hjóna svo við héldum okkur í skuggsælli stofunni innan um bækur skáldsins og myndir og sprokuðum lágt um lýð og lönd og ljóð. Jón stórfróður og sagðist skemmtilega frá þegar hann var í stuði. Tam kvennafarssögur af Steini Steinarr af stakri hátt- og kankvísi.

Kunni Jón býsn af snjöllum vísum og orti ófáar sjálfur. Fæ ég ekki setið á strák mínum að vitna í vísurnar tvær sem mér áskotnuðust í minniskompuna á Par avion-túrnum níutíuogsjö og vona enginn firrtist við því um hreina skemmtan er að ræða og vísurnar til marks um kímnigáfu Jóns og tvíræðna hnyttni. Enda Jón á góðri stundu það sem svíinn kallar "spjuver" og gat verið mjög "spontan".

Það var á velmektarárum Rithöfundasambandsins, en þeir sátu þá saman í stjórn þess Jón úr Vör og Indriði G. Þorsteinsson, að Jón mælti með því að Alexander Solzjenitsyn yrði boðið til Íslands til upplyftingar eftir ánauðina í Sovjet. Hnussaði Indriði: Þegi þú Jón og haltu áfram með útmánaðartrosið. Hraut þá Jóni af munni vísan þessi:

Kjötið hrossa muna má

mikill "framagosi".

Sá var ekki alinn á

"útmánaðartrosi".

Á skeiði Jóns sem fornbókasala bar tvo hestamenn að garði. Ræddu þeir áhugamál sitt og spurðu Jón hvurt hann hefði nokkurn tíma brugðið sér á bak. Orti Jón þá að augabragði þessa vísu:

Aldrei hef ég eignast fák,

enginn vildi ljá mér hest.

Mátti sitja á mínum strák

meðan ég gat riðið best.

Einhvurju sinni þegar ég heimsótti Jón, eftir að hafa villst um steypudrukkinn miðbæ Kópavogs rétt eina ferðina, sat Jón að léttum snæðingi og margir pillustaukar á borði skáldsins. Heldurðu það sé heilsa þetta helvíti, sagði Jón, að þurfa að mjatla þessu í sig með súrmjólk og sveskjugraut! Og svo taldi hann upp töflurnar og belgina og greindi í sundur að lit og stærð og lögun og áhrifamætti og var ekki eins og kraumaði í honum hláturinn og kímnin? Amk var strákslegur glampinn og mikið spil í augum, upplitið líkast gáska íslensks fjárhunds af hreinræktuðu kyni, augnhvítur eilítið gular undir loðnum brúnum. Sátum við lengi dags og borðuðum sveskjugraut með rjómablandi, vöfflur, kleinur og kex. Alltaf hlýlegt að heimsækja þau hjón í Kópavoginn.

Þegar sú víðförla verðlaunabók Tehús ágústmánans leit loks dagsins ljós eftir árslangar fæðingarhríðir hjá þrotabúi Almenna bókafélagsins (og má eiginlega segja að um keisaraskurð hafi verið að ræða, mátti tam ekki hafa hátt um verkið í fjölmiðlum vegna fjölmargra kröfuhafa í þetta virki vestrænnar menningar að mati útgáfunnar) þótti mér ekki síst vænt um að fá "dóm" Jóns gegnum nabbna hans Óskar í síma. Jón úr Vör er ánægður með bókina þína, sagði Jón, en illa við enska titla á íslenskum ljóðum, finnst of mikið um þá.

Á ég nokkrar myndir af Jóni og er ein þeirra í uppáhaldi öðrum fremur.

Hún er tekin í "ruslaherberginu", eins og Jón kallaði kammesið eitt sinn, rökkvað inni, það birtustig sem svíar kalla "halvmörker", og stendur skáldið roskna innan um pappíra af ýmsu tagi upp allar hillur, í pokum og kössum á gólfinu, en í herbergi þessu geymdi hann bókalager sinn, því Jón gaf lengstum út verk sín sjálfur, bréf, blöð, tímarit og úrklippur. Ægir öllu saman en samt fann Jón þær línur mínar sem hann leitaði að. Þóttist þó ekki vita neitt hvar neitt væri að finna og nokkuð til í því. Æðruleysið skín úr prófíl hins aldna skálds í skammdegi skriftamála.

Og ekki gleymi ég þegar Jón tók fram Þorpið í sænsku þýðingunni og sýndi mér. Væntumþykjan og stoltið leyndi sér ekki þegar hann strauk gulnaðar síðurnar og eins og mældi þær milli þumals og vísifingurs. Heiti Þorpsins á sænsku ákaflega fallegt: Isländsk kust. Svíar kunnu að meta Jón að verðleikum og auðvitað var annar frami en í dag að fá útgefna heila ljóðabók í Svíþjóð fyrir hálfri öld. Ljóðin reyndar ort í Stokkhólmi misserin eftir stríð á Reimersholme á Söder sænsku höfuðborgarinnar. Verður mér hugsað til þess ef ég á leið um þann fagra hólma. Hafði Svíþjóðardvölin afgerandi áhrif á lífssýn og skáldskap Jóns. Harry Martinson honum ætíð kær og áhrifavaldur í ljóði sem lausu máli. Í september 1990 hitti ég Olof Lagercrantz yfir grænmetisdisknum á Metró á Brommaplani og tókum við tal saman enda haustsólin skær og frábær veðurhæðin. Slaufan á sínum stað undir nettri höku listaskrifarans frá Drottningarhólma. Spurði Olof um heilsu Halldórs Laxness og mikið út í Jón úr Vör og bað fyrir hlýja kveðju.

Bréf Jóns (sem ég varðveiti vel) og dagbókarbrot þau sem ég hefi undir höndum eru frábær dæmi um hnitmiðaðan texta þar sem hvurki er of né van. Væri ungu fólki með sannan áhuga á íslensku máli og skýrri framsetningu bitastæður lærdómur að lesa úrval þessa prósa skáldsins. Ég læt mér nægja að vitna í síðasta jólakort Jóns: "Des '99. Ekki er ástandið hjá okkur neitt verra en það var í fyrra um þetta leyti og óskir ykkur til handa eru enn í sama gildi og fyrr. Bara gaman og gott að lifa. Svo skal það líka vera hjá þér og þínum. Bryndís og Jón úr Vör." Öðru sinni fór Jón afbrigðilegheit jólabókaflóðsins þeim orðum á korti að ekki þurfti frekar um sárt að binda. Með barómetið á hreinu, menn og málefni. Hefði allt eins getað sagt um fjármálaspekúlanta og framagosa bókamarkaðarins og haft er eftir dægurlagakónginum um kollegann: Nýr jakki, sama röddin! Vissi að þegar öllu er á botninn hvolft leitar endirinn upphafs síns eins og sá sem líkti fúnksjón talsímans við hund sem geltir í Glasgow sé klipið í skottið á honum í New York! Margur óþverrinn og skáldskapurinn oft í beinan karllegg við spírítúal hefðbundnustu auðkýfinga Svíaríkis, Wallenbergarana, en skáld þeirra ættar orti:

Tänk vilket härligt mönster:

Tre horor i ett fönster!

Uppskera opinberrar efnahagsstefnu og skarður hlutur litla mannsins yfirleitt í stíl við hagfræði hins fjárvana bóhema í Haga í drukknu morgunsári sumarsins sjötíuogátta í Gautaborg: En femma hit och en femma dit/Ändå blev det bara nio av det! En Jón var stakur reglumaður og fór vel með, trúr yfir litlu, vinnusamur og farnaðist vel. Sárgrætilega naumur var þó löngum tíminn til að yrkja.

Aðrir verða til að skrifa ítarlega um skáldskap Jóns og þeir skáldbræður hans Einar Bragi og Jóhann Hjálmarsson hafa gert það ágætlega.

Í grein sem ég skrifaði í Íslandspóst/Isländskt Forum (jólaheftið 1996), og ber heitið Hef ég þá enn átt dag. Snemmbúin afmæliskveðja til Jóns úr Vör, kemst ég ma svo að orði: "Hvurskonar ljóð er þessi Sumarnótt sem ég varð svo bergnuminn af vorið 1968? Til að skynja það til einhvurrar hlítar er kannski ekki úr vegi að hafa verið fimmtán ára. Og auðvitað töfraði Jón skáldefnið unga upp úr skónum strax í fyrstu línu:

Meðan þögnin leikur á hörpu kvöldroðans

og fjöllin speglast í bládýpi rökkurs,

sem aldrei verður að nótt,

siglir ástin yfir bárulausan sjó,

bíður ung kona við þaragróna vík

og hlustar eftir blaki af árum.

Og síðar í ljóðinu er línan ógleymanlega:

Árablöðin kyssa lygnan fjörð eins og hvítir vængir.

Var að furða þó ljóðelskum unglingi frá Akureyri, dáleiddum af draumfögrum Vopnafirði sveitarsumra, féllust hendur við námsbókastaglið? Jón úr Vör er þekktastur fyrir Þorpið sem bar fyrir augu lesenda l946.

Ætti sú bók ein að nægja til þess að halda nafni hans hátt á lofti um ókomna tíð. Svo einstætt verk sem Þorpið er í íslenskum bókmenntum. Fer þó fjarri að Jón úr Vör sé einnar bókar maður. Skiptir ekki höfuðmáli hvar í bókum hans ljóðin er að finna. Vissulega um þróun að ræða, en hægfara, hvorki hlaup eða stökk, frekar í ætt við grasið sem grær yfir spor okkar. Uppruni skáldsins því eilífur brunnur þó tónninn breytist og verði æ heimspekilegri með árunum. Sú viska þó alltaf brjóstviti blönduð og sammannlegri reynslu skálds sem lifað hefur erfiða tíma, strit og basl, á sjálfu sér.

Burtséð frá lýðháskólanámi Jóns og ánægjulegum og þroskandi reisum hans um Evrópu fyrir stríð og dvöl hans í Svíþjóð strax eftir stríð hefur Jón alltaf þurft að vinna fyrir sér og sínum hörðum höndum.

Í bókstaflegum skilningi ekki um skrifborðsskáldskap að ræða og kveðskapurinn aldrei dauður af yfirlegu. Segir Jón á einum stað: "Kveikur ljóðsins er söngur hjartans, en það er hin kalda skynsemi, sem gerir kvæðið að því sköpunarverki, sem við köllum "listaverk". Þess verður og að geta að Jón úr Vör hefur ekki gengið heill til skógar áratugum saman heldur þjáðst af mjög erfiðum húðsjúkdómi sem stórlega hefur skert starfsþrek hans."

Jón Óskar var ekki vinur stórra orða en ef skáldskap nabbna hans úr Vör bar á tal sagði hann afdráttarlaust: Þar sem Jón er bestur eru ljóðin hans hreinasta snilld! Jón skrifaði ýmislegt fallegt og skynsamlegt um nabbna sinn, sbr kaflann athyglisverða í Gangstéttir í rigningu sem heitir einfaldlega Þorpið. Þeim var ekki strokið meðhárs þessum mönnum. Á vináttu þeirra bar aldrei skugga. Vissu hvar þeir höfðu hvurn annan eins lengi og báðir lifðu í tilverunnar trosi. Sérvitrir í besta lagi, ólíkir og líkir þó.

Vorið 1972 sátu nokkur ungmenni yfir hvítvíni í kjallara Sigurðar Demetz í Vanabyggð Akureyrar og höfðu uppi ljóð í bland við framúrstefnutónlist King Crimson-flokksins (In the Wake of Poseidon), reykelsi og annað tóbak. Var okkur ekki síst hugleikinn Þorsti Jóns úr Vör sem við skildum eins og við vildum:

Andvaka

hef ég spurt skóna mína:

hvert hafið þið borið þessa einföldu

einmana sál?

Hingað er ég

alls ekki að fara

segi ég þúsund sinnum á dag,

og bergi af þessari lind,

alltaf jafn þyrstur,

tuldra sömu meiningarlausu orðin

með sannfæringarlausum

sannfæringarkrafti þorstans:

Nei, hingað er ég

alls ekki að fara.

Vitna undir lokin í Stein og stúf hans um Jóhannes úr Kötlum fimmtugan og ber upp á Jón: "Hann er að minnsta kosti meira skáld en hinir, vegna þess að hann hefur ekki glatað því, sem máli skiptir, ekki réttlætis- og ábyrgðartilfinningu mannsins, ekki einlægni barnsins, ekki sjálfum sér.

- Og um langa framtíð munu ljóð hans geymast sem tákn og ímynd eins hins bezta og göfugasta manns." Stenst ekki mátið að enda kveðjuorð mín á því ljóða Jóns sem skiptir mig æ meira máli með hverju ári:

Stillt vakir ljósið

í stjakans hvítu hönd,

milt og hljótt fer sól

yfir myrkvuð lönd.

Ei með orðaflaumi

mun eyðast heimsins nauð.

Kyrrt og rótt í jörðu

vex korn í brauð.

Þetta þyrfti hvert íslenskt mannsbarn að kunna.

Það var ákaflega hlýlegt að heimsækja þau Bryndísi og Jón í Kópavoginn. Einstök kyrrðin sem yfir hvíldi og útsýnið fagurt úr Fannborg 7 þrátt fyrir að steinkassinn ljóti byrgði nú sýn á Snæfellsjökulinn. Í slokknandi loga haustrauðrar sólar ímynduðum við Jón okkur að við sæjum hann samt.

Færi ég Bryndísi hugheilar kveðjur. Farväl farbror!

Jóhann Árelíuz.

Jón úr Vör hefur farið höndum um strengi hörpu sinnar hinsta sinni. Jafnan voru þeir mildir, tónarnir, sem Jón miðlaði okkur.

En þeim fylgdi þungi. Sá þungi átti sér rætur í þeirri veraldlegu fátækt, sem var hlutskipti Jóns úr Vör á uppvaxtarárum hans, svo sem þá gerðist hjá alþýðu manna, ævarandi samkennd með þeim, sem minna máttu sín, og þeirri fegurðarþrá og vandvirkni, sem var skáldinu eðlislæg.

Bók Jóns úr Vör, Þorpið, sem kom út árið 1946 er jafnan talin marka upphaf formbyltingarinnar í íslenskri ljóðagerð, ásamt bók Steins Steinarrs, Tíminn og vatnið, sem kom út tveimur árum síðar. Áhrifum Steins á yngri skáld hefur mjög verið haldið á lofti, enda eru þau oft augljós. Hinu skyldu menn ekki gleyma, að Jón úr Vör hefur einnig markað sín spor í hópi sér yngri skálda.

Í síðustu bók Jóns, Gott er að lifa, sem var gefin út árið 1984, er að finna ljóðið Á strönd orðsins:

Nú á ég ekki framar

von á neinu

sem gæti komið mér

á óvart,

ég vaki og ég sef.

Eins og gamall sjómaður

geng ég á strönd orðsins

með net mín í dögun,

endurnærður

eftir langan nætursvefninn.

Ég horfi á eftir þeim ungu

sem róa bátum sínum

út á hafið...

og er glaður.

Glaður gat hann verið og eins gladdi það okkur, yngri mennina, að vita hann bíða okkar á ströndinni þegar við kæmum að landi. Þau voru mörg handtökin, sem hann hafði kennt okkur við veiðarnar og ekki við hann að sakast, ef lakar hefur aflast, en efni stóðu til.

Um leið og ég votta ekkju Jóns, Bryndísi Kristjánsdóttur, og öðrum ástvinum hans samúð mína, kveð ég hið aldna skáld. Og þykist þó vita, að það muni dvelja áfram með þjóð sinni um ókomna tíð.

Pjetur Hafstein Lárusson.

Stillt vakir ljósið

í stjakans hvítu hönd,

milt og hljótt fer sól

yfir myrkvuð lönd.

Ei með orðaflaumi

mun eyðast heimsins nauð.

Kyrrt og rótt í jörðu

vex korn í brauð.

Þannig orti Jón úr Vör og birti í ljóðabók sinni, Með hljóðstaf, sem út var gefin 1951. Fá skáld áttu lengri samfylgd með þjóð sinni en hann. Jón var aðeins tvítugur, þegar hann sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Ég ber að dyrum, og varð strax þjóðkunnur. Hann átti erindi við samtíð sína allar götur síðan 1937.

Þegar Jón varð áttræður, var þess minnst með samkomu í Gerðarsafni í Kópavogi, þar sem bókmenntamenn og skáld lásu úr verkum hans. Jón og frú voru hins vegar hvergi nærri. Það var honum líkt, sem aldrei lét á sér bera.

Mér urðu það hins vegar nokkur vonbrigði að Jón skyldi ekki vera þarna og taka um leið við árnaðaróskum vina sinna og aðdáenda.

Ég minnist Jóns fyrst, er hann var ritstjóri Útvarpstíðinda, ásamt Gunnari M. Magnúss. Þeir gerðu það að fjölbreyttu og læsilegu heimilisriti. Veitti það mér á æskuárum ótaldar ánægjustundir, þótt ekki væri um útvarpstæki á heimili mínu að ræða. Þar birtust fyrstu ritsmíðar margra í ljóði og lausu máli. Og hreykinn varð ég, þegar þrjár vísur birtust eftir mig í þessu ágæta riti. Fyrir nítján ára pilt var það nokkur viðburður, þótt ótrúlegt megi virðast, að sjá sína fyrstu ritsmíð á prenti, að vísu aðeins undir upphafsstöfum. Jóni úr Vör þakkaði ég það eitt sinn, og lengi vorum við vel málkunnugir. Og oft heimsótti ég þau hjón, Bryndísi og hann, á hinu vistlega heimili, að Fannborg 7 í Kópavogi. Í þeim bæ bjuggu þau lengi og kunnu vel við sig.

Jón úr Vör var friðsamur maður, hljóðlátur, óáleitinn og þægilegur í viðmóti. Á áttræðisafmælinu sendi ég honum eftirfarandi kveðju:

Jafnan er hann Jón úr Vör

jákvæður og glaður.

Hans af boga eitruð ör

aldrei flaug - til miska gjör;

hann er líka hófstillingarmaður.

Fari hann í friði, friður guðs hann blessi.

Auðunn Bragi Sveinsson.

Jón úr Vör var, sem Kópavogsbúi, kunnugur foreldrum mínum heitnum þar. Og segja má að síðustu árin hafi kynslóð okkar barnanna endurnýjað sáttmála sinn við skáldið, í Ritlistarhópi Kópavogs. Náði ég af honum tali þar; og þótti vænt um hvað hann reyndist í raun vera líkur föður mínum heitnum; í sínum hæga og einarða talanda; enda voru þeir báðir komnir úr sveitinni.

Fyrst sá ég hann á sjöunda áratugnum, þegar við móðir mín; Amalía Líndal, rithöfundur; heimsóttum bókasafnið í Kópavogi, þar sem hann var bókavörður.Næst heyrði ég kennara minn í Menntaskólanum á Akureyri; Tryggva Gíslason skólameistara; segja okkur frá því í bókmenntatíma er Jón úr Vör hafði komið þangað norður til að lesa úr ljóðum sínum í MA; eitt sinn á árum áður. Þótti Tryggva það þá hafa skotið skökku við að Jón hefði í þeim upplestri talið sig þurfa að árétta að hann væri skáld; svo hart hefði verið deilt á þessum árum um breytingarnar í skáldskapnum.

Árið 1996 gekk ég í Rithöfundasamband Íslands; þar sem hann var heiðursfélagi. Ekki hitti ég hann þar þó fyrir á fundum. Hins vegar sá ég stundum til hans í blaðagreinum; sem og í kaffistofu Norræna hússins í Reykjavík; svo og á gangi niður Laugaveginn; með sitt auðkennilega hvíta hár og skegg.

Á endanum kynnti ég mig svo fyrir honum í Ritlistarhópi Kópavogs í Gerðarsafni; svosem fyrr segir. Var hann hafður mjög í hávegum í þeim félagsskap; sem aldursforseti Kópavogsskálda með meiru. Ég man að ég spurði hann þá hvort hann teldi sig frekar vera dreifbýlismann eða Kópavogsbúa; eða hvort hans bernskubyggð myndi keppa við Kópavog um að eigna sér hann sem sinn listamann. Hann svaraði því til að það væri svo langt um liðið síðan hann hefði flust á höfuðborgarsvæðið, að það væri löngu orðið hans megin upprunastaður. Hann væri af þeirri landnemakynslóð. Og ekki ætti hann von á að bernskubyggðin myndi nú fara að halda honum sérstaklega á lofti sem skáldi.

Ég á nú eflaust eftir að hugleiða skáldskap Jóns margsinnis á komandi áratugum; sem hluta af bernskuarfleifð minni í Kópavogi: og sem fyrirferðarmiklum kafla í ljóðlistarsögu 20. aldarinnar á Íslandi.

---

Ég vil minnast hans með því að grípa niður í þýðingu mína á ljóði eftir annað skáld. En það birtist í leikriti árið 1935; er Jón mun hafa verið á táningsaldri. Þó mun hann kannski þegar hafa verið sér meðvitaður um þennan forvígismann módernismans í bókmenntum. En það var bresk-bandaríska skáldið T.S. Eliot.

Ljóðið er úr harmleiknum Morð í dómkirkjunni; er fjallar um vígið á Tómasi Becket, erkibiskupi í Kantaraborg á Englandi á tólftu öld.

(En hann varð síðar mikill dýrlingur alþýðusinna á Sturlungaöld á Íslandi.)

Er það kór alþýðufólksins sem hefur orðið:

Syngur fuglinn í suðri?

Aðeins sjófuglinn gargar,

hrakinn inn í landið af storminum.

Hvaða teikn eru um

vorkomu hins nýja árs?

Aðeins dauði hins gamla:

engin hreyfing, enginn sproti,

enginn andardráttur.

Tekur dagana að lengja?

Lengri og dimmari er dagurinn,

styttri og kaldari er nóttin.

Loftið er kyrrt og þrúgandi:

en vindar eru uppbelgdir í austri.

Sveltandi krákan situr á akrinum, árvökul:

og í skóginum æfir uglan dauðans hola hljóð.

Hvaða teikn eru um biturt vor?

Vindurinn sem er uppsafnaður í austri.

Hvað,

á tíma fæðingar vors Herra,

á jólunum,

er þá ekki friður á jörðu,

friður með mönnum?

Tryggvi V. Líndal.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.