30. mars 2000 | Tónlist | 359 orð

TÓNLIST - Múlinn, Sólon Íslandus

Sveifluljónið Papa Jazz

SVEIFLA OG SAMBA

Hljómsveit Guðmundar Steingrímssonar. Ástvaldur Traustason píanó, Björn Thoroddsen og Sveinn Eyþórsson gítarar, Bjarni Sveinbjörnsson rafbassi og Guðmundur Steingrímsson trommur. Sunnudagur 26. apríl 2000.
ÞAÐ var einsog smá djasshátíð stæði yfir sl. sunnudag á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í Mosfellssveit voru Andrés Gunnlaugsson gítaristi og Þóra Gréta söngkona að djassa, á Múlanum lék hljómsveit Guðmundar Steingrímssonar og Stefán S. Stefánsson var með kvintett sinn í Kaffileikhúsinu.

Björn Thoroddsen og Bjarni Sveinbjörnsson hafa unnið með Guðmundi allt frá því að Guðmundur Ingólfsson blés nýju lífi í Íslandsdjassinn um og eftir 1980 og Ástvaldur Traustason hefur leikið með honum nokkuð á síðari árum. Svein Eyþórsson hef ég ekki heyrt leika djass áður, en hann er sonur Eyþórs Þorlákssonar gítarista sem var einn fyrsti djassbassaleikari Íslands. Sveinn leikur á gamla Gretch-gítar föður síns og minnir tónninn á Eyþór. Sveinn er leikmaður í djassi og kom það berlega í ljós í spuna hans sem var nokkuð hikandi, sér í lagi í samanburði við þá þrautreyndu atvinnumenn sem hann lék með.

Guðspjall kvöldsins voru söngdansar af klassískri efnisskrá djassins. Fyrsti dansinn var "Lullaby of Birdland" eftir einn vinsælasta píanista djasssögunnar, hinn blinda, breska George Shearing. Guðmundur var ekki með mikið umleikis. Sneril, háhatt, einn disk og bursta í höndum, en hann stýrði sveiflunni af stakri snilld. Ég saknaði þess að heyra þá ekki leika fleiri lög í jafn einfaldri svingútsetningu og Lullaby of Birdland, því varla getur nokkur annar trommari á Íslandi svingað einsog Guðmundur þegar því er að skipta. Næst var bossanóvaperlan "Wave", allfönkuð í lokin og síðan einn af helstu söngdönsum millistríðsáranna; "Yesterdays". Björn þyrlaði djangóískt undir einföldum sóló Ástvaldar og tókst að byggja upp skemmtilega spennu í tónlistinni. Þess má geta að Guðmundur, Björn og Bjarni léku þetta lag með Guðmundi Ingólfssyni er síðasta upptakan var gerð með honum. Duke Ellington hefur samið marga perluna, en þó "It Don´t Mean a Thing If It Ain´t Got That Swing", sé stundum kallað guðspjall sveiflunnar, er það vegna textans en ekki lagsins. Þeir félagar léku lagið með sölsublæ og var Ástvaldur á heimavelli í sóló sínum. Fyrsta setti lauk á klassíkinni úr Casablanca; "As time Goes By", og lék Sveinn laglínuna sérdeilis fallega.

Það var átakalaus tónlist sem hljómsveit Guðmundar Steingrímssonar flutti á Múlanum, en gædd þokka og sveiflu svo maður hvarf á brott með bros á vör útí milt kvöldið.

Vernharður Linnet

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.