Poul Nyrup Rasmussen
Poul Nyrup Rasmussen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LÖGMAÐUR Færeyja, Anfinn Kallsberg, segir að Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ætli sér of lítinn tíma í viðræður við Færeyinga um fullveldismálið.

LÖGMAÐUR Færeyja, Anfinn Kallsberg, segir að Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ætli sér of lítinn tíma í viðræður við Færeyinga um fullveldismálið. Rasmussen hefur ætlað sér 7 og hálfa klukkustund til viðræðna við fulltrúa Færeyja á næsta fundi þjóðanna sem áætlað er að halda 2. maí næstkomandi.

"Þetta er allt of skammur tími til að geta rætt ítarlega færeysku tillögurnar," segir Kallsberg. Hann kveður tilraunir sínar til að fá fundinn lengdan hafa reynst árangurslausar.

Áætlað er að fulltrúar þjóðanna hittist í danska forsætisráðuneytinu klukkan hálftvö og verður fundinum að vera lokið klukkan níu því þá þarf forsætisráðherrann að halda af stað í opinbera heimsókn til Kína. En þrátt fyrir óánægju með hversu knappur tími er til stefnu á fundinum, segist lögmaður Færeyja gera sér vonir um að hann skili einhverjum árangri. Hann segir að færeyska landstjórnin muni á fundinum geta lagt fram margar ólíkar tillögur til lausnar því sem er helsta deiluefni þjóðanna í fullveldismálinu, þ.e. hvernig fjárhagslegum tengslum þeirra skuli háttað eftir að Færeyjar verða fullvalda ríki.

Danska stjórnin leggur nú árlega fram 1,3 milljarða danskra króna til Færeyinga, jafnvirði um 12,2 milljarða íslenskra króna. Á fyrsta fundi þjóðanna þar sem fullveldisáform Færeyinga voru á dagskrá, lögðu færeysku samningamennirnir fram tillögur sem gerðu ráð fyrir að framlag Dana skyldi minnka á næstu árum í takt við vaxandi landsframleiðslu í Færeyjum. Samtímis skyldi skuld Færeyinga við Dani upp á 4,5 milljarða danskra króna, jafnvirði um 42,3 milljarða íslenskra króna, falla niður.

Landstjórnin hefur nú tilkynnt að hún hafi fallið frá tillögunni um að styrkur Dana skuli minnka í takt við landsframleiðslu í Færeyjum. Þess í stað hyggst hún beita sér fyrir því að Danir samþykki að styrkurinn minnki um fasta upphæð á ári, óháð efnahagsástandi í Færeyjum.

Þórshöfn. Morgunblaðið.