Afmælisgjöf forseta Íslands til Margrétar Danadrottningar.
Afmælisgjöf forseta Íslands til Margrétar Danadrottningar.
Í SEXTUGSAFMÆLI Margrétar Danadrottningar í dag mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, færa henni að gjöf silfurskjöld sem fréttir Morgunblaðsins af fæðingu hennar og skírn hafa verið grafnar í.

Í SEXTUGSAFMÆLI Margrétar Danadrottningar í dag mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, færa henni að gjöf silfurskjöld sem fréttir Morgunblaðsins af fæðingu hennar og skírn hafa verið grafnar í. Skjöldurinn styðst við tvær súlur sem einnig eru úr silfri og standa á grágrýtissteini. Gripurinn er gerður af Guðbrandi J. Jezorski gullsmiði.

"Þegar ég fór að hugleiða hvað gefa ætti Margréti drottningu á þessum tímamótum, þá var nokkur vandi á höndum því bæði hún, fjölskylda hennar og ætt öll eiga margt stórra gripa," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið af þessu tilefni. "Þá kom mér í hug að kanna með hvaða hætti íslensk blöð hefðu greint frá fæðingu hennar og skírn og þegar Morgunblaðinu var flett kom í ljós ansi skemmtileg frétt í blaðinu í apríl 1940. Fyrst greindi blaðið frá fæðingu prinsessu í Danmörku, fyrsta barns ríkisarfans Friðriks konungs og Ingiríðar krónprinsessu, með mjög skemmtilegri mynd af Ingiríði. Nokkru síðar greindi blaðið frá því að litla stúlkan hefði auk nafnsins Margrét verið skírð íslenska nafninu Þórhildur.

Margrét var að sjálfsögðu á þeirri tíð íslensk prinsessa eins og dönsk og þegar ég sá hvernig blaðið greindi frá þessum viðburði mótaðist með mér sú hugmynd að fá íslenskan gullsmið til þess að kanna það fyrir mig hvort hægt væri að greypa fréttina í silfur, óafmáanlega, og gera í kringum það umgjörð sem minnti á Ísland.

Það ánægjulega er að Guðbrandi Jezorski hefur tekist að leysa þetta á skemmtilegan hátt, með því að beita nýjustu geislatækni til þess að fella fréttina inn í silfrið þó að hún líti út fyrir að svífa á fletinum. Í kringum fréttina eru súlur, einskonar öndvegissúlur, sem í litadýrð minna á margbreytileika íslenskrar náttúru og allt hvílir þetta svo á góðu íslensku grjóti."

Skemmtilegt verkefni

Guðbrandur J. Jezorski gullsmiður segir að hugmyndin að afmælisgjöfinni hafi komið frá forsetanum og síðan þróast þeirra í milli þar til endanleg útfærsla lá fyrir. Hann segir að starfsmenn Morgunblaðsins hafi stækkað fréttina upp og síðan hafi hann fengið fyrirtæki í Þýskalandi til að grafa hana á silfurskjöldinn með geislatækni.

Umrædd frétt birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 1940 og bar fyrirsögnina: Ingiríður prinsessa eignaðist dóttur í gær. Fréttin um skírn Margrétar birtist síðan í blaðinu 25. maí.

Guðbrandur segist aldrei hafa gert neitt þessu líkt, en verkefnið hafi verið skemmtilegt og hann segist ánægður með útkomuna.

"Ég vona að drottningin á afmæli sínu kunni að meta það að fá í hendur silfurslegna þessa frásögn Morgunblaðsins af fæðingu hennar og skírn," segir Ólafur Ragnar, "og skilji það sem vináttuvott og virðingu okkar Íslendinga, bæði gagnvart henni og fjölskyldu hennar. Mér finnst einnig skemmtilegt að Ingiríður drottning, sem á myndinni í Morgunblaðinu birtist sem glæsileg móðir, skuli nýlega hafa haldið upp á 90 ára afmæli sitt.

Það verður gaman að sýna þeim báðum þennan grip og þessa frásögn," segir forseti Íslands.